Reykjavíkurmótið í skólaskák 1.-4. bekkur
Hart var barist og hart var varist í Skólaskákmóti Reykjavíkur, 1.-4. bekk þar sem yngstu dýrkendur Cassiu sýndu hvað í þeim bjó. Heyra mátti saumnál detta í skáksalnum og fylgdust foreldrar gjörsamlega agndofa með skáksnilli barna sinna. Eftir sjö umferðir stóð Tristan Fannar Jónsson einn efstur sem sigurvegari með fullu húsi, vann allar skákir sínar sjö. Glæsilegt hjá honum. Ekki þurfti að grípa til oddastigaútreiknings til að ráða um hverjir færu með Tristani í Landsmótið, en efstu þrír fá rétt til að tefla í hinu gamalgróna Landsmóti í skólaskák. Í öðru sæti varð Nam Quoc Nguyen með sex vinninga og í því þriðja varð Haukur Víðis Leósson (Íslandsmeistari 8 ár og yngri) með fimm vinninga. Undirritaður man eftir fallandi tárum þegar grípa þurfti til stigaútreikninga í þessu sama móti á fyrsta áratugi 21. aldar. Ef einhverjir eiga skilið nafnbótina “ungir og efnilegir” þá eru það þessir fulltrúar yngri kynslóðarinnar sem munu vafalaust láta til sín taka á ári komanda.
20 reykvísk börn tóku þátt í mótinu og tveir þeirra komnir á eló-listann, þeir Tristan og Haukur.
Lokastöðuna má nálgast á chess-results.
Reykjavíkurmótið í skólaskák 5.-7. bekkur

Jósef Omarsson fór mikinn og vann góðan sigur. Vann allar skákir sínar. Emilía Embla B. Berglindardóttir varð önnur. Theodór Eiríksson varð þriðji eftir oddastigaútreikning og tryggði sér þar sem lokasætið á Landsmótinu í skólaskák.
Lokastöðuna má nálgast á Chess-Results.
Reykjavíkurmótið í skólaskák 8.-10. bekkur

Allt ætlaði um koll að keyra í Reykjavíkurmótinu í skólaskák, 8.-10. bekk, þar sem óvænt úrslit og agalegir afleikur settu heldur betur svip sinn á mótið. Þó nokkrar skákir snerust á lokametrunum og ekki fyrr en síðasta skák í síðustu umferð kláraðist mátti sjá hverjir kæmust áfram í landsmótið. Ingvar Wu Skarphéðinsson nældi sér í þokkalegan clutch-sigur í mótinu eftir tap gegn Sigurbirni Hermannssyni í 5. umferð en með mikilvægum sigrum í 6. og 7. umferð nældi hann sér í 1. sætið.. Meiri óvissa var um 2.-3. sæti. Svo fór að Iðunn Helgadóttir vann áðurnefndan Sigurbjörn í lokaumferðinni og tryggði sér þar með 2. sæti. Vegna heppilegra úrslita fyrir Sigurbjörn slapp hann í 3. sæti, og sæti í Landsmótinu, eftir afar gott mót ef miðað er við síbreytilegt hugarástand hinna ósýnilegu en hugbreytandi eló-stiga. Markús Orri Jóhannsson og Adam Omarsson voru skammt undan með 4.5 vinning. 17 skákmenn tóku þátt í þessum elsta flokki, sem verður að teljast ágætt, og þar af níu með stig, eða líklega flestir þeirra sem eru með stig í þessum flokki og koma úr skólunum í Reykjavík.
Lokastöðuna má sjá á chess-resuts.