Norska mótið, sem svo er nefnt og lauk í gær í Stafangri í Noregi, ætti að gefa nokkra vísbendingu um skákstyrk Magnúsar Carlsens eftir að Norðmaðurinn afsalaði sér heimsmeistaratigninni. Mótið, sem er hið fyrsta sem hann teflir í með fullum umhugsunartíma eftir krúnuskiptin, fer fram eftir kerfi sem gerir ráð fyrir því að verði jafntefli í kappskák bætist ½ vinningur við þann sem hefur betur í svokallaðri Armageddon-skák, með þeirri lykkju þó, að þeim sem stjórnar svörtu mönnunum dugar jafntefli til að fá þennan hálfa vinning.
Í kappskákum mótsins blasir sú staða við að Magnús Carlsen sigurvegari síðustu fjögurra ára hefur ekki unnið eina einustu kappskák, gert sjö jafntefli en tapaði í fyrstu umferð fyrir Fabiano Caruana, mótherja sínum í heimsmeistaraeinvíginu 2018. Þótt hann hafi unnið allar sjö Armageddon-skákirnar dugar það skammt því að þrír vinningar eru gefnir fyrir sigur í hverri kappskák, einn vinningur fyrir jafntefli og svo bætist téður ½ vinningur við eftir Armageddon-skákina. Margir af bestu skákmönnum heims eru komnir til Noregs en fyrir lokaumferðina, sem fram fór í gær, var staðan þessi: 1. Caruana 16 v. 2. Nakamura 13½ v. 3. Gukesh 13 v. 4.-5. Giri og So 11½ v. 6.-7. Carlsen og Firouzsja 10½ v. 8. Mamedyarov 10 v. 9. Abdusattorov 7½ v. 10. Tari 3 v.
Í lokaumferðinni í gær gat Nakamura „stolið“ efsta sætinu af Caruana með því að vinna innbyrðis viðureign þeirra. Báðir þessir menn hafa meiri áhuga á heimsmeistaratitlinum en Magnús Carlsen enda er „krúna keisarans þung“, sagði Boris Spasskí einhverju sinni. Að sumu leyti færi betur á því að Caruana ynni mótið því að hann hefur teflt manna best. Sigurinn yfir Magnúsi í fyrstu umferð var sannfærandi og síðan vann hann enn betri skák sem hér fer á eftir gegn Firouzsja:
Norska mótið í Stafangri 2023; 4. umferð:
Alireza Firouzsja – Fabiano Caruana
Frönsk vörn
1. e4 e6 2. d4 d5 3. Rc3 Rf6 4. e5 Rfd7 5. f4 c5 6. Rf3 Rc6 7. Be3 cxd4 8. Rxd4 Db6 9. Dd2 Dxb2 10. Hb1 Da3
Þekkt afbrigði franskrar varnar sem áður hefur komið upp í „Norska mótinu“, m.a. í skákum Simens Agdesteins í þau skipti sem hann var á meðal þátttakenda.
11. Rcb5!?
Mælt er með að leika 11. Bb5 en fáir eru betur undirbúnir en Caruana þegar flókin byrjanakerfi eru annars vegar. Það vissi Firouzsja auðvitað og vildi greinilega víkja frá alfaraleiðum.
11. … Dxa2 12. Hd1 Hb8 13. Rc7+ Kd8 14. Rcb5
Til að taka hrókunarréttinn af svarti.
14. … Rc5 15. Bd3 Rxd3 16. Dxd3 Bd7
17. Rd6?
Tapleikurinn. Hann hefði átti bíða með þetta og hrókera stutt.
17. … Bxd6 18. exd6 Dc4! 19. Dd2 f6 20. Rxc6 bxc6 21. Da5+ Ke8 22. Dxa7 Hb2!
Fórnar hróknum á h8. Hann gat leikið 22. … Db4+ með góðri stöðu en þessi er enn betri og stenst fullkomlega.
23. Da8+ Kf7 24. Dxh8 Dxc2 25. Bd2 De4+ 26. Kf1 Dd3+ 27. Ke1 c5!
Ekkert jafntefli hér. Biskupinn er á leiðinni til b5.
28. h4 Bb5 29. Kf2 Hxd2+ 30. Hxd2 Dxd2+ 31. Kg3 De3+!
Upphafið að því sem kalla má svikamyllu. Drottningin hreinsar upp nær öll peð hvíts.
32. Kh2 Dxf4+ 33. Kg1 Dd4+ 34. Kh2 Dxh4+ 35. Kg1 Dd4+ 36. Kh2 De5+ 37. Kg1 Dxd6 38. Hxh7 Df8!
Þvingar fram drottningaruppskipti. Peðamasssi svarts sér svo um afganginn. Hvítur gafst upp.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 10. júní 2023