
Félagar Sævars Jóhanns Bjarnasonar, sem lést hinn 29. júlí sl. 69 ára að aldri, geta sammælst um að mikill sjónarsviptir sé að Sævari gengnum, svo áberandi var hann í skáklífinu hér á landi um áratuga skeið. Hann varð skákmeistari Reykjavíkur fjórum sinnum, skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur þrisvar, var sæmdur titlinum alþjóðlegur meistari árið 1985 en það ár náði hann sínum besta árangri á alþjóðavettvangi er hann varð í 7.-12. sæti á Opna mótinu í New York, ½ vinningi frá 1.-6. sæti, og náði áfanga að stórmeistaratitli. Þar vann hann nafntogaða stórmeistara á borð við Pal Benkö, Kevin Spraggett og Igor Ivanov. Heilmargt fleira mætti nefna.
Greinarhöfundur fylgdist grannt með Sævari þegar hann var fluttur heim til Íslands eftir nokkurra ára dvöl í Svíþjóð. Ég þóttist skynja að þekking hans á greininni stæði traustum fótum og í Svíþjóð hefur hann sennilega öðlast grundvallarskilning á skákinni. Svíar höfðu lengi átt öfluga meistara en þetta voru líka uppgangsár Ulfs Anderssons sem hafði á valdi sínu magnaða leiktækni, ekki síst í endatöflum, og Sævar hefur varla komist undan áhrifum hans.
Nýkominn heim varð hann í 2.-3. sæti í meistaraflokki á Skákþingi Íslands ’73, vann nokkrum vikum síðar boðsmót TR, m.a. fyrir ofan Guðmund Sigurjónsson, og síðar um árið eða við setningu jólahraðskákmóts TR flutti formaður TR Hólmsteinn Steingrímsson keppendum þær fréttir að á Evrópumóti unglinga í Groningen í Hollandi hefði Sævar ekki aðeins komist í A-úrslit keppninnar heldur einnig unnið fulltrúa Sovétríkjanna í 1. umferð. Í salnum var klappað fyrir þessum tíðindum. Sovésku skákunglingarnar voru alveg sérstök deild á þessum árum, af mörgum taldir nánast óvinnandi vígi.
Viðureignin sem fylgir hér var stutt og snaggaraleg. Sævar beitti uppáhaldsbyrjun sinni, franskri vörn, sem hann hann þekkti greinilega betur en andstæðingurinn:
Evrópumót unglinga, Groningen 1973-74, 1. umferð:
Sergei Makarichev – Sævar Bjarnason
Frönsk vörn
1. e4 e6 2. d4 d5 3. Rd2 Rf6 4. e5 Rfd7 5. Bd3 c5 6. c3 Rc6 7. Re2 cxd4 8. cxd4 f6 9. Rf4 Rxd4 10. Dh5+ Ke7
Sjá stöðumynd 1
11. Rg6+ hxg6 12. exf6 Rxf6 13. Dxh8 Kf7
Þetta afbrigði frönsku varnarinnar var ekki mjög þróað á þessum tíma. Hvítur þarf að tefla hárnákvæmt.
14. 0-0 e5 15. b4?
Slakur leikur. Í dag er mælt með 15. Rf3 með u.þ.b. jafnri stöðu.
15. … e4! 16. Bb2 Db6 17. Bb1 Dxb4 18. Rb3 Re2+ 19. Kh1 a5
Eina ónákvæmni Sævars í skákinni. Best var 19. … Be6 með yfirburðastöðu.
20. Bc2?
Best var 20. f3 sem svartur svarar best með 20. … e3.
20. … Dc4!
Óþægilegur hnykkur því að biskupinn á engan reit, t.d. 21. Bd1 Rg3+! og vinnur.
21. Hac1 Rxc1 22. Hxc1 Bd7 23. f3
Reynir að opna taflið en nú kemur …
23. … Ba3! 24. Dxa8 Bxb2 25. Rxa5 De2 26. Hg1 exf3 27. gxf3 Dxf3 28. Hg2 Bd4! 29. Bxg6+ Ke7
og hvítur gafst upp.
Þótt Sævar hafi unnið mörg góð afrek á erlendum vettvangi fannst honum áreiðanlega skemmtilegast að tefla hér heima. Hann tók þátt í fjölmörgum mótum sem Jóhann Þórir Jónsson skipulagði vítt og breitt um landið. „Hinn glaðlyndi og vinsæli Hort norðurhjarans“ var viðurnefni sem Baldur Hermannsson gaf Sævari í skemmtilegri grein í DV um helgarmótið í Stykkishólmi árið 1983.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 12. ágúst 2023