Áskorendaflokkur Íslandsmótsins í skák (Skákþings Íslands) hófst í dag með fyrstu umferð af níu. Alls hófu 36 keppendur leik, titilhafar eru fimm talsins og auk Íslendinga eru keppendur frá fjórum þjóðum til viðbótar. Með sterkari áskorendaflokkum lengi!

Stórmeistarinn Bragi Þorfinnsson er stigahæstur keppenda. Titilhafar auk Braga eru IM Davíð Kjartansson, CM Bárður Örn Birkisson og svo landsliðskonurnar WIM Olga Prudnykova og WGM Lenka Ptacnikova.

Skemmst er frá því að segja að úrslit 1. umferðar voru algjörlega eftir bókinni í öllum skákunum, sá stigahærri vann alltaf.

Þrátt fyrir úrslitin var veitt mótspyrna sérstaklega á efri borðunum og þurftu nokkrir að hafa vel fyrir sínum sigrum. Þáttastjórnandinn og skákdómarinn Kristján Örn Elíasson varðist vasklega þar til hann lék af sér alveg í blálokin eftir langa setu, lang lengsta skák umferðarinnar. Þáttastjórnandinn var frumlegur í byrjuninni og ristjórn efast um að drottningarriddari hafi áður komist svo snemma á h3 reitinn í byrjuninni, í 8. leik!!

Á efsta borði veitti reynsluboltinn Haraldur Baldursson stórmeistaranum Braga Þorfinnssyni harða keppni. Skólastjórinn og stórmeistarinn Helgi Ólafsson opnaði mótið og lék fyrsta leiknum 1.d4 fyrir Harald og þá flautaði skákstjórinn Róbert Lagerman til leiks!

Haraldur hafði betra tafl framan af en Bragi var með dýnamíska stöðu og allt í jafnvægi. Haraldur náði svo góðum riddara á f5 reitinn en eftir að Bragi náði uppskiptum á drottningum á f3 sat hvítur uppi með ónýtan biskup.

Minnir óneitanlega á Winter-Capablanca, skák sem vafalítið hefur farið í gegnum kolinn á stórmeistaranum.

Winter-Capablanca

Bragi vann vel úr endataflinu og hafði sigur.

Davíð náði að vinna úr betra rými gegn Ólafi Gísla og Olga hafði góðan endataflssigur á Jóhanni Jónssyni.

Hægt er að nálgast skákir 1. umferðar inni á lichess hér. Einnig hægt að hala niður 1. umferð á PGN hér.  Beinar útsendingar eru bara á LiveCloud (sjá link að neðan) en skákir eru settar inn á lichess eftirá.

Í 2. umferð mætast Bragi og Jóhann Ingvason á efsta borði, Björn Hólm mætir Davíð og Olga Prudnikova mætir eiginmanni sínum Andrey Prudnikov. Skák Gauta og Benedikts Briem verður vafalítið hörkuskák einnig.

Teflt verður á hverjum degi næstu  daga um tvö sæti í landsliðsflokki að ári. Umferðir um helgar byrja 13:00 en á virkum dögum 18.30. Oddastigaútreikningur* ræður lokaröð sæta.

 

- Auglýsing -