Stórveldi skákarinnar Barátta Pragg og Arigiasi var æsispennandi og lauk með sigri þess fyrrnefnda. — Ljósmynd/Heimasíða FIDE

Á heimsbikarmótinu i Baku í Aserbaídsjan er keppt um þrjú sæti í áskorendamótinu sem hefst í Toronto í Kanda í apríl á næsta ári og nú þegar liggur fyrir hverjir hafa tryggt sér sætin þrjú: Caruana, Praggnanandhaa og Abasov frá Aserbaídsjan. Magnús Carlsen hefur áréttað að hann muni ekki taka sæti í áskorendamótinu.

Í dag hefjast fjögurra manna úrslit í þessu skemmtilega og dramtíska heimsbikarmóti. Sem fyrr tefla keppendur tvær kappskákir en verði jafnt er gripið til skáka með styttri umhugsunartíma. Magnús á að tefla við heimamanninn Nijat Abasov sem hefur slegið út kappa á borð við Peter Svidler, Anish Giri og nú síðast Indverjann Santosh Vidit. Indverjinn Praggnandandhaa mun tefla við Fabiano Caruana.

Í átta manna úrslitum sem hófust á þriðjudag höfðu fjórir Indverjar komist áfram og það er tímanna tákn því að Indland er hið nýja stórveldi skákarinnar. Af þeim fjórmenningum tókst einungis Praggnanandhaa að komast í fjögurra manna úrslit eftir æsispennandi baráttu við landa sinn, Arjun Erigaisi. Þurftu þeir að tefla sjö skákir til að útkljá málið.

Magnús Carlsen er ekki árennilegur þessa dagana; hann hefur hlotið 8 vinninga af 10 úr kappskákum, vann Ivantsjúk 2:0 í 4. umferð og Indverjann Gukesh 1½:½ í 5. umferð og hefur ekki átt í teljandi vandræðum með nokkurn hinna fimm andstæðinga sinna, að Þjóðverjanum Vincent Keymer undanskildum. Eins og getið var um í síðasta pistli þá vann Keymer fyrri kappskák þeirra eftir óvenjuslaka taflmennsku Norðmannsins, sem þó þurfti að vinna til að jafna metin og komast í styttri skákirnar. Atvik snemma leiks minnti á glatað tækifæri sem Anand fékk þegar hann tefldi við Magnús Carlsen öðru sinni um heimsmeistaratitilinn:

Heimsbikarmótið í Baku 2023; 3. umferð:
Magnús Carlsen – Vincent Keymer

Í eilítið betri stöðu hafði Magnús stofnað til vanhugsaðra uppskipta með því að leika 16. a3?? og eftir 16. … Bxc3 17. Dxc3 blasti næsti leikur svarts við. En Keymer virtist grandalaus og fór í drottningaruppskipti með 17. … Dxc3?? Hann átti 17. … Rxe4! því að eftir 18. fxe4 Dxe4 getur hvítur ekki varið riddarann eða biskupinn. Það sama gilti um 18. Dxe5 Hxe5; svartur er sælu peði yfir fyrir engar bætur. Ég útiloka ekki að Magnús hefði náð jafntefli – en aldrei unnið. Eftir drottningaruppskiptin gat Magnús þróað stöðu sína til sigurs í 62 leikjum og komst svo áfram með sigri í fjórðu skák þeirra með styttri tímamörkunum, en þeir höfðu þá gert þrjú jafntefli í röð.

Vignir Vatnar efstur við fjórða mann á opna mótinu í Portúgal

Vignir Vatnar Stefánsson situr þessa dagana að tafli á sterku opnu móti í Marokkó og eftir sex umferðir af níu hafði hann hlotið 3 vinninga. Meðal 69 þátttakenda eru margir kunnir kappar og má t.d. nefna Alexei Shirov og Shakriyar Mamedyarov. Sá er nýkominn frá heimsbikarmótinu og hann var einn efstur með 5 vinninga.

Vignir Vatnar kom beint frá Opna mótinu í borginni Porto í Portúgal þar sem hann varð efstur ásamt þrem öðrum skákmönnum en þeir hlutu allir 7 vinninga af 9 mögulegum. Helgi Áss Grétarsson var einnig meðal þátttakenda, hlaut 6 ½ vinning og varð í 5.-13. sæti. Stefán Bergsson hlaut 5 vinninga og varð í 48.-59. sæti.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 19. ágúst 2023

- Auglýsing -