Olga Prudnykova hefur tekið forystu í Áskorendamóti en hún hefur nú 5,5 vinning af 6 og aðeins leyft eitt jafntefli og líklegast var það bara fyrir heimilisfriðinn, gegn Andrey Prudnikov! Bragi Þorfinnsson gerði jafntefli í sinni skák og er hálfum vinningi á eftir. Þau mætast í sjöundu umferð!

Á efsta borði hafði Bárður Örn Birkisson (2191) hvítt gegn stórmeistaranum Braga Þorfinnssyni (2394). Bragi sýndi strax í 5. leik að hann vildi fá athyglisverða stöðu og tefla til vinnings með 5…g5!?

Leikurinn er reyndar ekki nýjung en þetta var teflt í skák Herwig Pilag (2388) og Mario Scachinger (2413) í viðureign Feldbach Kirchberg gegn Leibnitz Software í Steyr Bundesligunni árið 2015 eins og flestir ættu að vita.

Bárður er einstaklega traustur skákmaður og hann gaf einfaldlega ekki færi á sér. Bragi reyndi að fá smá ójafnvægi með því að gefa Bárði tvípeð en staða hans var traust og hann hafði biskupaparið. Ljóst var í hvað stefndi þegar mislitir biskupar voru komnir á borðið.

Úrslitin á efsta borði gáfu Olgu tækifæri á að hrifsa efsta sætið. Hún hafði svart gegn Benedikt Þórissyni (1851) á öðru borði. Sikileyjarvörn kom upp á borðið. Najdorf afbriðgið. Olga valdi hliðarvaríant með …a5 sem líklegast hefur komið Benedikt á óvart. Hann hugsaði í fyrsta skipti eftir þann leik og brást ekki vel við.

11.Rd5? var ekki góður þar sem eftir 11…Bxd5! þá verður hvíta peðið á d5 of veikt. Olga vann snemma peð og svo annað með trikki. Of mikið gegn svo sterkum skákmanni. Leggið nafnið á minnið!

Líklega skák umferðarinnar!

Á þriðja borði fékk Davíð Kjartansson (2292) ekkert út úr byrjuninni gegn Jóhann Ingvasyni (2087). Svartur fékk eitthvað betra tafl án þess þó að valda Davíð stórkostlegum vandræðum…ef frá er talinn 20. leikur.

Hér hörfaði Jóhann með 20…Bc8? en 20…Bxg2 21.Kxg2 Rh4+ hefði verið þrumuleikur. Ef 22.gxh4 kemur 22…Dxh4 og hvítur kemur engum vörnum við.

Davíð slapp með skrekkinn og náði þess í stað að trikka Jóhann.

28.f3! var lúmskur þar sem biskupinn á enga reiti. Eftir 28…Bxf3 29.Hf1 vinnur hvítur mann. Jóhann ákvað að gefa drottninguna og fara í spriklið. Allir spilapeningarnir duttu svo á borðið í spriklinu.

33…Bxg3?!! gefur mann til að opna kónginn hjá hvítum. Staðan var auðvitað kolunnin á hvítt en í skák með andstæðing, tifandi klukku og stress þá þarf að finna réttu leikina. Davíð lék nokkrum ónákvæmum/slökum leikjum og hér er staðan ótrúleg nokk orðin jafntefli eftir 40.Hh1?

Jóhann svaraði 40…Hf5+ 41.Kg3 Hg6+ og hvíti kóngurinn verður að fara á h4 til að verða ekki mát. Svartur á þá gangandi þráskák á f2, f3 og f4-reitunum. Magnað!

Björn Hólm Birkisson (2097) stýrði hvítu gegn Benedikt Briem(2207) á fjórða borði. Skákin var allan tímann í jafnvægi og ég mæli ekki með popp og kók við yfirferð á þessari skák. Skákin er leyfð öllum aldurshópum, að skoða skák er góð skemmtun!

Lenka Ptacnikova (2139) hafði svart gegn Hadi Rezaei Heris (1661) á fimmta borði. Lenka gerði smá mistök í byrjuninni gegn London-systemi Íranans en hann refsaði því ekki. Eftir það tefldi hvítur aðeins of linkulega og svartur fór í einfalt plan með minnihlutaárás á drottningarvæng sem skilaði nokkuð auðveldum tæknilegum sigri.

Gauti Páll Jónsson (2055) lagði Jóhann Ragnarsson að velli á sjötta borði. Miðtaflið var stöðubarátta en Gauti yfirspilaði andstæðing sinn í miðtaflinu og skipti vel og rétt upp.

31.f5! Gauti hafði metið rétt að þar sem svartreitabiskup hans væri að vakna til lífsins væri það svarti kóngurinn sem er í vanda. Hvíti kóngurinn kemst alltaf undan skákum á h3 ef svartur fer af stað með skákir. Gauti braust í gegn með þessum leik og vann skömmu síðar.

Mikael Jóhann Karlsson átti líklega „Fréttablaðsleik“ dagsins en hann hafði svart gegn Jóhanni Jónssyni

24…Rxf3+! var feykisterkur hér. Eftir 25.gxf3 Dxg3+ 26.Kf1 Hxf3+ gafst hvítur upp, svartur hótar Hh1 með máti.

Úrslit:

Hægt er að nálgast skákir 6. umferðar inni á lichess hér. Einnig hægt að hala niður 6. umferð á PGN hér.  Beinar útsendingar eru bara á LiveCloud (sjá link að neðan) en skákir eru settar inn á lichess eftirá.

Í 7. umferð sem fer fram á morgun klukkan 18:30 þá mætast Olga og Bragi á efsta borði. Alvöru toppuppgjör þarna á ferðinni og ef skákin endar með sigri hjá öðrum hvorum keppanda á sá hinn sami nánast öruggt sæti í Landsliðsflokki nema eitthvað mikið gerist.  Benedikt Briem og Davíð Kjartansson þurfa nauðsynlega á sigri að halda í sínum skákum vegna lélegra oddastiga þar sem þeir þurftu báðir að take hjásetu. Mikael Bjarki er búinn að vinna sig á háborðin og verður gaman að fylgjast með Blikanum unga.

Teflt er á hverjum degi um tvö sæti í landsliðsflokki að ári. Umferðir um helgar byrja 13:00 en á virkum dögum 18.30. Oddastigaútreikningur* ræður lokaröð sæta.

Don Roberto með allt undir control einsi og venjulega!

 

- Auglýsing -