Skákæfingar byrjendaflokks og framhaldsflokki I á haustönn 2023 hefjast laugardaginn 2. september og kennsla í framhaldsflokki II hefst miðvikudaginn 6. september og í afreksflokki þriðjudaginn 5. september. Æfingarnar fylgja auglýstri dagskrá nema annað sé kynnt.

Skráningarform

Skráning fer fram í gegnum Sportabler og hægt er að smella á tengilinn hér að ofan og ganga frá skráningu. Eigi einhverjir í erfiðleikum má senda póst á taflfelag@taflfelag.is.

Skákæfingar Taflfélags Reykjavíkur eru fjölbreyttar og sérstaklega hannaðar til þess að mæta þörfum sem flestra áhugasamra skákbarna og unglinga. Á æfingum félagsins fá nemendur markvissa kennslu og persónulega leiðsögn sem nýtist þeim sem grunnur að framförum í skáklistinni. Sem fyrr er þjálfarateymi félagsins skipað mörgum af reynslumestu skákkennurum landsins.

Tímasetningar og æfingagjöld ásamt nánari upplýsingum má sjá hér að neðan.

Systkinaafsláttur er veittur í formi 10% afsláttar. Auk þess fá stúlkur 50% afslátt af stúlknaæfingum ef þær eru jafnframt á framhaldsæfingum eða byrjendaæfingum.

Mikilvægt er að skrá þátttakendur á æfingarnar með því að skrá sig í gegnum Sportabler. Öllum er þó frjálst að prófa eina æfingu án skuldbindingar. Aðstandendur geta nýtt sér Frístundakort Reykjavíkurborgar fyrir börn/unglinga sem eru með lögheimili í Reykjavík. Athygli er vakin á því að ekki þarf að skrá börn í manngangskennslu.

Allar nánari upplýsingar sem og leiðbeiningar um hvaða æfingar henta hverjum og einum veita skákþjálfarar félagsins.

Manngangskennsla

Lau kl.10:40-11:00 (frítt)

Á þessari æfingu verður eingöngu manngangurinn kenndur. Þessi æfing er hugsuð fyrir börn á grunnskólaaldri og elstu börn leikskóla, af báðum kynjum, sem vilja læra mannganginn frá grunni eða vilja læra tiltekna þætti manngangsins betur. Börnin munu læra að hreyfa alla mennina auk þess sem þau læra reglur sem gilda um hrókeringu og framhjáhlaup. Þegar barn hefur náð góðum tökum á mannganginum að mati skákþjálfara þá er það tilbúið að taka næsta skref sem er Byrjendaæfing. Ekki þarf að skrá börn sérstaklega í manngangskennslu.

Umsjón með æfingunum hefur Torfi Leósson (sími: 697 3974).

 

Byrjendaæfing

Lau kl.11:15-12:15 (18.000kr)

IMG_4470Þessi æfing er hugsuð fyrir börn á grunnskólaaldri og elstu börn leikskóla, af báðum kynjum, sem kunna allan mannganginn og þyrstir í að læra meira og ná betri tökum á skáklistinni.

Á æfingunni tefla börnin hvert við annað í bland við létta kennslu. Börnin læra almennar reglur sem gilda á skákmótum og þau venjast því að tefla með klukku. Auk þess munu börnin læra grunnatriði á borð við liðsskipan og einföld mát.

Umsjón með æfingunum hefur Torfi Leósson (sími: 697 3974).

 

Framhaldsflokkar I og II

Flokkur I: Lau kl.11:15-12:15 & Fim kl.17:00-18:30 (25.000kr)

Flokkur II: Mið kl. 16:30-18:00 & Fim kl.17:00-18:30 (25.000kr)

39344538_519284161844993_1139412848913416192_n

Æfingunum í framhaldsflokki er ætlað að koma til móts við þau skákbörn TR, af báðum kynjum, sem hafa mikinn áhuga á að taka framförum í skáklistinni. Þessar æfingar eru hugsaðar fyrir börn sem hafa æft skák áður og hafa reynslu af að tefla í skákmótum. Miðað er við að nemandi í framhaldsflokki II hafi reynslu af því að tefla kappskák, til dæmis Bikarsyrpu TR, eða hafi skákstig.

Á æfingunum kynnast nemendur hugmyndum og nöfnum á helstu skákbyrjunum og hvernig útfæra eigi áætlun í miðtafli út frá byrjunartaflmennsku. Jafnframt verður lögð áhersla á að nemendur læri lykilatriði í endatöflum og geti sýnt fram á kunnáttu sína við taflborðið. Á æfingunum munu nemendur fylgjast með fyrirlestrum og kennslu þjálfara og leysa verkefni úr kennsluefninu bæði einir og sér og í hóp, á verkefnablöðum og við taflborð. Nemendur verða hvattir til þátttöku í skákmótum og leiðbeint um val á mótum. Jafnframt fá nemendur leiðbeiningar um hvernig þeir geti æft sig sjálfir heima, hafi þeir áhuga á.

Framhaldsflokkar I og II æfa saman á fimmtudögum.

Tíminn í Framhaldsflokki I á laugardögum fer fram upp á lofti í TR, gengið upp stigann hjá innganginum í aðalskáksal.

Umsjón með framhaldsflokki I hefur Gauti Páll Jónsson (sími: 691 9937). Gauti Páll er fyrrum skólameistari Reykjavíkur og Íslandsmeistari 22 ára og yngri árið 2018.

Umsjón með framhaldsflokki II hefur Ingvar Þór Jóhannesson (sími: 699 0590). Inhvar er Fide meistari, reynslumikill skákþjálfari og núverandi landsliðþjálfari kvenna.

Afreksflokkur

Þri kl. 17:00-18:30 & Fös kl.17:00-18:30 (25.000kr)

20180226_190133

Afreksflokkurinn er hugsaður fyrir stigahæstu ungmenni TR af báðum kynjum. Farið verður yfir ákveðin þemu í hverjum tíma og krefjast æfingarnar þess að nemendur geti unnið sjálfstætt.

Umsjón með æfingunum hefur Daði Ómarsson (sími 615-4273 tölvupóstur taflfelag@yahoo.com) . Daði er reyndur skákþjálfari og var sigursæll í grunnskólasveit sinni á skólamótunum á sínum tíma.

- Auglýsing -