Magnús Carlsen hefur unnið alla titla sem sterkustu skákmenn heims keppa eftir – nema einn; hann hafði aldrei unnið heimsbikarmót FIDE og nokkrum sinn verið þar meðal þátttakenda og náð best 3. sæti. Heimsbikarmótið í Baku sem lauk í vikunni var byggt á stuttum útsláttareinvígjum, fyrst tveimur kappskákum og stæði jafnt var gripið til skáka með styttri umhugsunartíma. Það gefur augaleið að keppnisfyrirkomulagið kallar fram heilmikla streitu og greinilegrar þreytu gætti hjá þeim sem komust alla leið, en yfir tvö hundruð skákmenn hófu keppni.
Og sl. fimmtudag rættist loks draumur Norðmannsins er hann vann lokaeinvígið sitt við Indverjann Praggnandhaa, 2½:1½. Sigur hans á mótinu var sannfærandi þó að nokkrum sinnum hafi andstæðingar hans misst af góðum færum. Mótstöðumaðurinn í lokarimmunni hafði slegið út Caruana í undanúrslitum. Gerðu þeir jafntefli í kappskákunum án mikillar baráttu en Norðmaðurinn hafði þá fengið snert af matareitrun. Svo virðist sem Pragg hafi ekki gert sér ekki miklar vonir þegar út í at-skákirnar var komið; hann átti dágóð færi í fyrri skákinni en tapaði að lokum og virtist sáttur með jafntefli í seinni skákinni. Og þar lauk spennandi keppni sem staðið hafði í tæpan mánuð.
Það var meira spunnið í kappskákir Magnúsar í undanúrslitunum en sigur hans í fyrri skákinni gegn heimamanninum Abasov kom eftir magnaða baráttu sem náði til byrjunar skákarinnar; miðtafls þar sem virtist halla á Aserann eða þar til Magnús gaf óvænt færi en kláraði svo dæmið með óvenjulegri atlögu að kóngsstöðu svarts:
Heimsbikarmótið FIDE í Baku 2023; undanúrslit, 1. einvígisskák:
Magnús Carlsen – Nijat Abasov
Sikileyjarvörn
1. e4 c5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 e6 4. Bxc6 bxc6 5. b3 d6 6. e5 dxe5
7. d3!?
Merkilegt að hann skyldi ekki leika 7. Rxe5 því að 7. … Dd4 strandar á 8. Bb2! Dxb2 9. Rc3 sem hótar 10. Rc4, t.d. 10. … Ba6 11. Hb1 Da4 12. Df3! og vinnur. Hugmyndin virðist vera sú að halda c8-biskupinum „úti“.
7. … f6 8. Rbd2 Rh6 9. Hg1 Ba6 10. g4 Rf7 11. De2 Be7 12. Bb2 Da5 13. c4 g5 14. h4 h6 15. Hh1 0-0-0 16. 0-0-0!
Skilur a2-peðið eftir en 16. … Dxa2 strandar á 17. Kc2 Da5 18. Ha1 Db6 19. Bc3 o.s.frv.
16. … Dc7 17. Re4 gxh4 18. Rxh4 Hhg8 19. f4!
Hernaðaráætlun hvíts er hér komin fram því biskupinn á a6 stendur illa.
19. … exf4 20. Rxf6 Bxf6 21. Dxe6+ Kb8 22. Dxf6 Bc8 23. Hde1 Hd6 24. Dxf4 Hxg4 25. De3 He6 26. Dd2 Re5 27. Kc2 Kb7 28. He3 De7 29. Rf5 Dg5 30. Bxe5 Hg2+ 31. He2 Hxe2 32. Dxe2 Dxf5
Svartur hefur varist vel og náð að halda jafnvægi.
33. Hh5 Df7 34. Dh2??
Hrikalegur afleikur því nú gat svartur knúið fram unnið tafl með 34. … Df1! með hótuninni 35. … Hg6. Hvítur varð að laga kóngsstöðuna og leika 34. Kb2.
34. … Hg6? 35. Bf4 Hf6 36. Be3 Bf5 37. Bxc5 Dg6 38. Kc3! He6
38. … Bxd3 er svarað með 39. Bxa7 en hér var best að leika 38. … De8.
39. Hh4 Bg4
40. Bxa7
Þetta hefði verið enn betra í 39. leik því nú gat svartur leikið 40. … Dg7+ 41. Bd4 Dg5 og staðan er enn tvísýn. Hins vegar gekk 40. … Kxa7 ekki vegna 41. Dg1+ og biskupinn fellur.
40. … Df6+? 41. Kb4! He5 42. d4! De7+ 43. c5
og svartur gafst upp.
Caruana náði þriðja sæti með því að leggja Nijat Abasov að velli, 3:1.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 26. ágúst 2023