Hið sögufræga Haustmót Tarflfélags Reykjavíkur hófst í gær með keppni í lokuðum 10 manna A-flokki og opnum flokki.

A-flokkurinn er þokkalega skipaður en þar er efstur á blaði landsliðsmaðurinn Hilmir Freyr Heimisson (2367). Sjö skákmenn eru í og við 2100 stigin og gæti orðið jafnt og spennandi barátta þeirra á milli. Bárður Örn Birkisson (2191) sem komst á dögunum í Landsliðsflokk er annar á blaði.

Einni skák var frestað í fyrstu umferðinni en þeir Hilmir Freyr og Ingvar Wu þurfa að tefla sína skák síðar. Stefán Bergsson náði að leggja Lenku Ptacnikovu að velli í flókinni sóknarskák hjá Akureyringnum knáa. Bárður Örn Birkisson vann einnig sigur í sinni skák gegn Haraldi Haraldssyni. Jafntefli varð í öðrum skákum.

Í opna flokknum urðu úrslit að mestu eftir bókinni en Nökkvi Hólm Brynjarsson náði þó að leggja Geir Birnuson að velli.

Önnur umferð fer fram núna á sunnudaginn og hefst klukkan 13:00. Skak.is mun gera mótinu betri skil þegar líður á en ritstjórnin er að mestu stödd erlendis sem stendur.

- Auglýsing -