Til Mexíkó Vignir Vatnar Stefánsson var útnefndur stórmeistari á stjórnarfundi FIDE á dögunum. Á næstunni heldur hann til Mexíkóborgar þar sem hann teflir á HM unglinga 20 ára og yngri. Með honum í för verður Alexander Domalchuk-Jónasson. — Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Úkraínska skákkonan Olga Prudnykova, sem hefur öðlast íslenskan ríkisborgararétt, náði forystu á fimmtudaginn með því að sigra Benedikt Þórisson í sjöttu umferð Áskorendamótsins sem lýkur um helgina. Verða tefldar níu umferðir og er m.a. keppt um tvö sæti í landsliðsflokki. Almennt er búist við því að stórmeistarinn Bragi Þorfinnsson nái öðru sætinu. Það gat ráðist í sjöundu umferð, sem fram fór í gær, en þar átti Bragi að tefla við Olgu og hafa hvítt. Keppendur í þessu vel skipaða móti eru 36 talsins og staða efstu manna þessi:

1. Olga Prudnykova 5½ v. (af 6) 2. Bragi Þorfinnsson 5 v. 3. Bárður Örn Birkisson 4½ v. 4.-10. Benedikt Þórisson, Lenka Ptacnikova, Björn Hólm Birkisson, Jóhann Ingvason, Gauti Páll Jónsson, Benedikt Briem og Davíð Kjartansson 4 v.

Nokkrir ungir skákmenn hafa vakið athygli fyrir beitta taflmennsku. Benedikt Þórisson vann fjórar fyrstu skákir sínar, þ.á m. gegn reynsluboltanum Jóhanni Ragnarssyni í eftirfarandi skák:

Skákþingi Íslands 2023 – áskorendaflokkur; 4. umferð:

Benedikt Þórisson – Jóhann Ragnarsson

Caro-Kann-vörn

1. e4 c6 2. Rf3 d5 3. Rc3 Bg4 4. d4 dxe4 5. Rxe4 Bxf3 6. Dxf3 Dxd4

Þekktur gambítur í Caro-Kann-vörn. Jóhann hefur tekið áskoruninni en sumum þykir hollast að taka ekki þetta peð.

7. Be3 Dxb2

Hirðir „eitraða peðið“ en „vélarnar“ sýna fram á að hvítur hefur ríflegar bætur.

8. Bc4

8. … Rf6 9. 0-0 Rbd7 10. Hab1

Enn betra að mati „vélanna“ er 10. Hfd1!

10. … Dxc2 11. Rxf6+ Rxf6 12. Hb4!?

Dálítið skrítinn leikur en hættulegur samt. Best var þó 12. Be2 og svartur getur ekki varið peðin á drottningarvæng. Tölvuleikurinn 12. … Dc3! er eina svarið en Jóhann valdi …

12. … e6? 13. Bb3! Dc3 14. Hxb7 Ba3 15. Ba4!


Margföld hótun og það fyrirfinnst engin vörn.

15. … 0-0 16. Hb3 Dc4 17. Hxa3

Hvítur er manni yfir og eftirleikurinn auðveldur.

17. … Rd5 18. Hc1 Db4 19. Bc5 Db2 20. Hd1 Hfc8 21. h3 De5 22. Bc2 a5 23. Hb3 Hc7 24. Hdb1 g6 25. Hb8+ Hxb8 26. Hxb8+ Kg7 27. Bf8+

– og svartur gafst upp.

Enginn hápunktur

Í yfirlýsingu, sem nokkrir almannatenglar hafa greinilega soðið saman, er þess getið að komist hafi niðurstaða í kærumál sem vakti athygli heimsbyggðarinnar og gat af sér eitt frægasta „tíst“ skáksögunnar, eignað Elon Musk, aðaleiganda Tesla. Þar hafa sættir náðst milli Magnúsar Carlsens og Hans Niemanns, en Norðmaðurinn hætti þátttöku á skákhátíðinni í St. Louis í fyrra og lét í veðri vaka að Nieman hefði nýtt sér hugbúnað til að sigra í kappskák þeirra. Tveir bandarískir stórmeistarar, Hikaru Nakamura og Maxim Dlugy, drógust einnig inn í þetta mál og ekki eru öll kurl komin til grafar í dylgjum Magnúsar gagnvart þeim síðarnefnda. Í yfirlýsingunni fellst Magnús á að engar sannanir fyrirfinnist um svindl Niemanns og kveðst hann reiðubúinn til að tefla við Niemann aftur. Málið mun því ekki ná til dómstóla. Hvergi kemur fram að upphæðir hafi skipt um hendur í tengslum við samningu þessa plaggs en eftir stendur í málinu að Magnús tapaði skák, sem hann tefldi hreint ekki vel, og gerði í framhaldinu atlögu að mannorði 19 ára skákmanns sem var á hraðri uppleið um þær mundir. Enginn hápunktur á ferli Norðmannsins.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 2. september 2023

- Auglýsing -