Tveir og hálfur vinningur kom í hús af sex mögulegum á EM ungmenna hér á Mamaia í Rúmeníu. Íslendingarnir mættu nokkuð vel úthvíldir og hressir eftir frídaginn í gær og undirbúningur gekk almennt vel. Flestar skákirnar voru miklar baráttuskákir.

U18

Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2407) var með svart gegn ísraelskum FM Reem Sherman (2304). Ísraelinn bryddaði upp á skoska leiknum sem kom e.t.v. eilítið á óvart en Aleksandr lenti ekki í neinum sérstökum vandræðum og átti fullt erindi í miðtaflið á jafnréttisgrundvelli með svörtu. Sasha vildi hafa leikið 20…Hab8 frekar en 20…De6 og svo átti svartur 21…Bxg2! sem virðist vera þvingað jafntefli en ekki mjög mennsk lína. Svartur skákar og þarf svo að leika Hab8 og Hb4 til að þvinga jafnteflið, mjög erfið lína að sjá.

Aleksandr fór svo aðeins að missa tökin í miðtaflinu og hvítur tók yfirhöndina og byggði upp pressu á kóngsvængnum og náði svo að vinna skiptamun af okkar manni. Aleksandr barðist eitthvða áfram en varð að leggja niður vopn í 53. leik. Fyrsta tap Aleksandr á mótinu.

Benedikt Briem (2207) hafði svart gegn Rúmena Hunor-Zoltan Antal (2168). Benedikt undirbjó sig vel í Berlínarvörninni og jafnaði taflið nokkuð auðveldlega. Svartur fékk smá ójafnvægi í stöðuna og fékk endatafl sem svipaði mikið til endatafls Saidy og Fischer frá 1964.

Frægt endatafl Saidy og Fischer

Bobby hafði svart og fór hægt og bítandi með kóngspeð sín framávið og náði svo að þvinga fram vinning í endtaflinu.

Endtaflið hjá Benedikt var mjög svipað. Munurinn lá einkum í því að peð Benedikts var á h4 á meðan að Fischer var að vinna með peð á f4. Benedikt samdi í lokin með h-peð gegn g-peðinu en hefði mögulega eitthvað getað pínt andstæðing sinn með því að reyna að leika h-peðinu fram á réttum tíma og reyna svo að koma kóngnum að d-peði hvíts. Hvítur verst líklega með bestu taflmennsku en það eru alltaf einhverjir sénsar.

Við stúderuðum þetta vel eftir skákina og skoðuðum gömlu skákina til að læra aðeins betur inn á slík endatöfl.

U14

Matthías Björgvin Kjartansson (1680) tefldi hvasst með hvítu gegn drottningarbragði en það getur verið tvíeggjað sverð og reyndist peðaframrás á kóngsvæng á kostnað hrókunar slæm áhrif þegar kom að taktík síðar í skákinni. Andstæðingur Matthíasar, Domonkos Szakmany (2078) teflir mjög mikið og var með reiknaðar skákir í nánast hverjum mánuði síðustu tvö ár. Engu að síður var ekki mikið af skákum með honum í gagnagrunnum og þurfum við ítrekað að glíma við það eins og síðustu ár að andstæðingar Íslendingana, sérstaklega í yngri flokkunum hafa alltaf betri aðgang að upplýsingum um andstæðinginn.

U12

Josef Omarsson (1764) mætti Belga Benoit Drugmand (1512). Josef var vel undirbúinn að vanda og sýndi svo fina yfirvegun og skynjaði betur hvað var mikilvægt í endataflinu og náði að láta frelsingja á a-línunni telja áður en svartur komst af stað með sín tromp. Fínn sigur og Josef kominn aftur á beinu brautina.

U10

Birkir Hallmundarson (1565) tefldi fína skák og í raun erfitt að segja til um hvar hann missti skákina niður.  Undirbúningur fyrir skákina var fínn og Birkir er góður í að muna leiðir og vorum við klárir í Alapin afbirigði Rúmenans. Hann hafði teflt það áður á mótinu og í raun voru það einu uplýsingarnar sem við höfðum. Ef eitthvað er var hægt að setja út á var það einn passífur riddaraleikur en varla hægt að kalla það mistök. Heilt yfir tefldi andstæðingur hans bara mjög vel og náði í góðan sigur í mikilli baráttuskák, líklegast lengsta skákin í keppnissal U8 og U10.

U12 stúlkna

Emilía Embla B. Berglindardóttir (1238) var fyrst að klára en hún vann lið snemma í miðtaflinu gegn Alinu Golubevu (1043) frá Mónakó. Baráttuþrek andstæðings Emilíu var ekki mikið, vissulega var Emilía að vinna lið en svartur hefði alveg getað barist áfram liði undir. Þess í stað var Emilía fyrsta að klára og komin með tvo og hálfan vinning.

Úrslitin:

Staðan:

Tveir og hálfur vinningur í hús í sjöttu umferðinni, margar erfiðar skákir og heilt yfir greinilega aðeins harðari andstæðingar en í fyrri umferðum.

Mótið heldur áfram með sjöundu umferðinni á morgun. Flestir fá andstæðinga á svipuðu stigabili og vonandi fáum við góðan dag.

- Auglýsing -