Íslensku krakkarnir voru nokkuð óheppnir í sjöundu umferðinni á EM ungmenna. Þrír vinningar af sex komu í hús en þeir hefðu átt að vera fleiri ef úrslit hefðu verið eins og gangur skákanna. Sólin skein ekki á okkar krakka í sjöundu umferðinni en hún hefur skinið skært utan keppnissala!

U18

Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2407) var með hvítt gegn armenskum andstæðing, FM Aleks Sahakyan (2254). Sá armenski tefldi feykilega vel og gerði nánast engin mistök í skákinni og var með mjög hátt „accuracy“ í langri skák.  Stundum teflir bara andstæðingurinn betur og í þetta skiptið lenti Aleksandr í því.

Benedikt Briem (2207) hafði hvítt og fékk pressu í Catalan gegn Portúgalanum Rodrigo Ribeiro (2105). Menn svarts stóðu örlítið klunnalega og Benedikt var einhvern veginn alltaf korter í að fá alla stöðuna en varnir svarts héldu einhvern veginn. Tveir klaufalegir leikir hjá Benedikt gáfu svo andstæðingnum færi á að jafna taflið. Jafntefli niðurstaðan og Benedikt svekktur, hann átti að taka þessa!

U14

Matthías Björgvin Kjartansson (1680) hafði svart gegn Búlgara, Stefan Ivanov (1504). Við undirbjuggum aftur …Bd6 línuna „hans Vignis“ sem mælt er með á VignirVatnar.is. Að þessu sinni hafði andstæðingurinn upplýsingar þar sem Matthías hafði unnið skák með afbrigðinu fyrr í mótinu. Hann tefldi því bestu tölvulínuna en það dugði ekki að þessu sinni, svarta staðan er traust og Matthías fékk sitt spil og sýndi mikið sjálfstraust og yfirspilaði Búlgarann.

U12

Josef Omarsson (1764) mætti heimamanni Zeno-Andrei Ponta-Facalet (1605). Ekki oft sem menn splæsa í tvöfalt bandstrik í nafni! Skák þeirra varð löng og ströng, ein lengsta skákin í þessari umferð en Josef sýndi bæði mikið baráttuþrek og styrk og hafði betur í hróksendatafli peði yfir. Josef kominn með 4 vinninga og er „aflakóngurinn“ í hópnum.

U10

Birkir Hallmundarson (1565) tefldi gegn Roan Lenting, stigalausum Hollending. Hollendingurinn tefldi vel en Birkir hafði alltaf örlítið frumkvæði og betra í tölvunum. Hér var enn ein skákin þar sem allt var einhvern veginn „næstum því“. Birkir gerði eiginlega allt rétt en það reyndist ekki nóg til að leggja andstæðinginn að velli. Hollendingurinn fann mótspil á réttum stöðum og náði að bjarga jafntefli.

U12 stúlkna

Emilía Embla B. Berglindardóttir (1238) hafði svart gegn azerskri stúlku Rena Aghamirzayeva (1032) og var gjörsamlega að yfirspila andstæðing sinn í vel yfir 30+ leiki. Emilía var nokkrum peðum yfir en missti á klaufalegan hátt af örvæntingar mótspili hjá svörtum sem dugði því miður til vinnings fyrir þá azersku. Svekkjandi tap.

Úrslitin:

Staðan:

Þrír vinningar, 50% í umferðinni sem er alltaf ágætis viðmið. Heilt yfir vorum við hinsvegar frekar óheppinn og áttum meira skilið. Josef hefur 4 vinninga er hæstur Íslendingana en flestir hafa 3,5 vinning eða 50%.

Áttunda umferðin fer fram í dag og svo hefst lokaumferðin aðeins fyrr á morgun. Vonandi náum við góðum endaspretti!

- Auglýsing -