Lokaumferðin á EM ungmenna er nú í gangi þegar þessi orð eru rituð. Umferðin er aðeins fyrr á ferðinni eins og venja er vegna heimferðalaga keppenda. Næstsíðasta umferðin fór fram í gær og fengu íslensku krakkarnir þrjá vinninga af sex mögulegum. Fjögur jafntefli, einn sigur og eitt tap.

U18

Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2407) var með svart gegn spænskum FIDE meistara, Miguel Ruiz Buendia (2219). Aleksandr beitti franskri vörn sem á að vera meira og minna þvingaður vinningur á svart samkvæmt hlutdrægum aðilum á svæðinu. Svartur lenti líka ekki í neinum vandræðum og átti Sasha smá möguleika í hróksendatafli. Hann hefði getað unnið peð en missti af biðleik í peðaendatafli ef hvítur hefði boðið upp á hrókakaup, svartur hefði þar unnið…eins og hann á að gera í Frakkanum! Sá spænski slapp með jafntefli.

Benedikt Briem (2207) fékk sterkan andstæðing, IM Yahli Sokolovsky frá Ísrael. Benedikt hefur verið duglegur að stúdera hér úti sem og undanfarið og er að bæta sín byrjanakerfi og styrkja. Hann tefldi Berlínarvörnina og náði að jafna taflið. Í lokin var verið að þráleika en þá lék Ísraelinn klaufalega af sér og staðan var í raun -9, Benedikt gat komist „inn á hann“ með drottninguna. Benedikt samdi hinsvegar af sér í þeirri stöðu og jafntefli niðurstaðan, smá svekk!

U14

Matthías Björgvin Kjartansson (1680) hafði hvítt gegn stigaháum Belga, Filippos Raptis (2072). Byrjanataflmennskan gekk fínt, Matthías hafði hvítt í drottningarbragði eins og við bjuggumst við og hann hafði aðeins betra tafl í miðtaflinu. Undir lok miðtaflsins misreiknað Matthías sig, hann taldi að hrókur svarts ætti ekki afturkvæmt úr prísund en hann slapp út. Aðgerðin hafði kostað Matthías peð sem var nóg til að skilja á milli og tap staðreynd.

U12

Josef Omarsson (1764) mætti Tékka, Vaclav Kroulik (1936). Sá tékkneski beitti afbrigði í Nimzasem Josef hefur ekki fengið á sig áður. Drap snemma á c3. Svartur hafði yfirhöndina á kóngsvæng og mjög hættuleg færi en Josef varðist af mikilli seiglu og einbeitingu. Baráttujafntefli hjá Josef sem hefur verið á góðu skriði í síðustu umferðum.

U10

Birkir Hallmundarson (1565) hafði hvítt gegn Kamil Halhoul (1412) frá Póllandi. Sá pólski hafði teflt með svörtu 1.e4 c5 2.c3 e5 í öllum skákunum með svörtu og því gátum við undirbúið það nokkuð vel. Birkir fékk þægilega stöðu en Pólverjinn virkar nokkuð seigur skákmaður og gaf sig engan veginn. Úr varð ein lengsta skák umferðarinnar og Birkir hafði Pólverjann ekki undir fyrr en í hróksendatafli.

Birkir hefur verið að tefla mjög þétt og fengið færri vinninga en hann á skilið ef eitthvað er. Þrátt fyrir að vera nokkuð ör utan vallar nær Birkir mjög góðri einbeitingu við borðið og er að nýta tímann sinn mjög vel. Það var greinilega mikilvægt fyrir Birki og fleiri að hafa teflt í Áskorendaflokki heima áður en haldið var út. Það er allt annað að sjá einbeitingu og taflmennsku!

Birkir hefur 4,5 vinning sem er ásamt Josef það hæsta hjá íslensku keppendunum.

U12 stúlkna

 

Emilía Embla B. Berglindardóttir (1238) hefur sýnt mikinn stíganda á mótinu, byrjaði rólega en virðist vaxa ásmeginn þegar kemur að sjálfstraustinu. Í áttundu umferðinni skildu leikar jafnir í viðureign við rúmenska stúlku, Maria Mihaila (0). Eins og í gær hefði sigur í raun verið sanngjörn úrslit. Emilía missti peð í byrjuninni en fékk gott frumkvæði og brást rétt við með því að opna stöðuna með betri liðsskipan. Liðsvinningur fylgdi í kjölfarið en sú rúmenska fékk mótspil sem var ákveðin heppni í stöðunni. Emilía gaf manninn til baka fyrir hættulegt peð, ekki ósvipað peð og í skákinni í gær sem skiljanlega hræddi hana aðeins. Jafntefli varð fljótlega rökrétt niðurstaða eftir það.

Úrslitin:

Þrír vinningar í hús eins og áður sagði. Heilt yfir vorum við líklega að „tefla yfir okkur“ þannig að úrsitin fín.

Staðan:

Birkir og Josef eru efstir íslensku keppendanna með 4,5 vinning. Báðir átt mjög fína spretti. Matthías og Emilía hafa 3 vinninga en með smá heppni ættu þau að hafa fleiri vinninga. Strákarnir í efsta flokknum eru líklegast ekki alveg sáttir og hefði mátt hafa aðeins meiri keppnisgæfu á köflum en heilt yfir hefur taflmennskan verið með þokkalegasta móti.

Lokaumferðin er nú í gangi. Birkir mætir Robert Skytte en hann er sonur danska alþjóðlega meistarans Rasmus Skytte sem margir íslenskir skákmenn kannast við og hafa margir teflt við hann. Benedikt Briem mætir hollensku vonarstjörnunni Eline Roebers sem sló í gegn á Heimsbikarmótinu á dögunum. Sasha mætir andstæðingi Benedikts frá í gær, Benedikt er búinn að lofa sigri Sasha!

- Auglýsing -