EM ungmenna á Mamaia lauk nú á fimmtudaginn og íslensku keppendurnir skiluðu sér heim á föstudagskvöldið eftir langt og strangt ferðalag, allir reynslunni ríkari.

Sex íslenskir keppendur tóku þátt á mótinu. Þetta voru þau: Aleksandr Domalchuk-Jonasson og Benedikt Briem í U18, Matthías Björgvin Kjartansson í U14, Josef Omarsson í U12, Birkir Hallmundarson í U10 og Emelía Embla B. Berglindardóttir í U10 stelpna. Þjálfari var FIDE-meistarinn Ingvar Þór Jóhannesson.

Förum aðeins yfir hvernig lokaumferðin gekk og árangur í heild sinni.

U18

Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2407) náði að enda mótið vel með sigri gegn Portúgalanum Rodrigo Ribeiro (2105). Benedikt hafði teflt við hann í tveimur umferðurm áður og var gríðarlega svekktur að hafa ekki klárað dæmið þá og var viss um að Aleksandr næði hefndum. Það reyndist rétt. Ef hvítur nær peðakeðju á borð við þá sem Sasha náði eftir rétt rúmlega 20 leiki þá hefur eitthvað mikið farið úrskeiðis!

Stöðulega unnið tafl mjög snemma hjá Aleksandr

Góður endir hjá Aleksandr og alltaf gott að enda á sigri. Lokaniðurstaðan var 5 vinningar af 9 mögulegum. Aleksandr tapar tæplega 15 elóstigum á mótinu og var ekki 100% sáttur við niðurstöðuna en taflmennskan var fín heilt yfir og vantaði smá stríðsgæfu á köflum.

Framundan er Heimsmeistaramót U20 í Mexíkó þar sem Aleksandr og Vignir Vatnar Stefánsson munu verða fulltrúar Íslendinga. Það er ljóst að Aleksandr er á góðri vegferð, stendur undir sínum stigum og leiðin liggur bara upp á við. Hann er duglegur að stúdera, undirbýr sig vel fyrir skákir og hefur aðgang að góðri hjálp frá sterkum skákmönnum. Fyrst og fremst virðist hann einfaldlega mjög vandaður skákmaður og persóna þar að auki.

Benedikt Briem (2207) var staðráðinn í að klára mótið með stæl sem hann og gerði. Benedikt sýndi flottan karakter. Eftir erfiða byrjun, 0 af 2 þá tapaði Benedikt ekki skák. Það sem meira er að yfirleitt var það hann sem átti möguleikana ef skákin endaði með jafntefli. Í næstsíðustu umferð missti hann af vinningi í lokastöðunni „samdi af sér“ með unnið en fékk þá í staðinn skemmtilegan andstæðing, Eline Robers í lokaumferðinni.

Eline Robers (2421) sló skemmtilega í gegn á Heimsbikarmótinu í dögunum í kvennaflokki. Byrjaði meðal annars á því að vinna fyrstu sex skákirnar, ein keppenda í báðum flokkum! Í stað þess að væntanlega vinna kvennaflokkinn á EM næsta auðveldlega velur hún annað árið í röð að skrá sig í opna flokkinn til að bæta sig.

Roebers virtist nokkuð opin bók varðandi byrjanir, tefldi yfirleitt Hollending eða Kóngsindverja með svörtu. Það var settur kraftur í undirbúning og var Benedikt tilbúinn í Hollendinginn en einnig í Gligoric-afbrigðinu í Kóngsindverja en það kom einmitt upp. Roebers gekk beint inn í línu sem við höfðum undirbúið nokkuð vel og niðurstaðan varð góð!

Reyndar er það oft þannig að ef góð vinna er lögð inn við undirbúning þá skilar hún sér ekki endilega alltaf strax en ef menn vinna vel gerir hún það yfirleitt á endanum! Dæmi er langur varíantur í hinu svokallaða Boor-attack gegn slavneskri vörn. Árið 2019 undirbjó undirritaður ásamt Benedikt langt og þvingað afbrigði sem kom ekki upp á mótinu en ekki alllöngu síðar skilaði það sigri á Haustmóti TR. Hér að neðan er sá undirbúningur, Benedikt náði þessum 24 leikjum nánast umhugsunarlaust!

Sama má segja með skákina við Roebers. Benedikt hefur lagt vinnu í Gligoric afbrigðið gegn Kóngsindverjanum og t.a.m. vorum við með undirbúning á sama móti í Tyrklandi í fyrra og má segja að sá undirbúningur og síðar skák sem seinna var tefld við Adam Omarsson hafi að mörgu leiti lagt grunninn að þessum sigri.

Benedikt endaði með 5 vinninga af 9 mögulegum og hækkar um tæp 6 elóstig fyrir frammistöðuna en náði að leggja vel inn í reynslubankann og framundan eru bara hækkanir, það er klárt mál!

U14

Matthías Björgvin Kjartansson (1680) tapaði í lokaumferðinni gegn Andria Ercoli (1301) frá Andorra. Enn einu sinni fengum við …Bd6 afbrigðið í drottningarbragði og Matthías kominn með fína reynslu í því og vonandi afbrigði sem hægt er að grípa í við góð tækifæri í framtíðinni. Sanngjarnt hefði verið að Matthías hefði náð í þrjá vinninga af þremur með afbrigðinu en hann missti unnið tafl niður á grátlegan hátt og varð að sætta sig við tap eftir að hafa haft kolunnið tafl.

Matthías endaði með 3 vinninga af 9 og tapar um 95 elóstigum á mótinu. Það geta verið háar sveiflur þegar menn hafa þennan K40 stuðul og slæmu mótin eru þá dýr. Á móti þá eru góðu mótin að gefa vel. Matthías skoraði vel þegar hann hafði byrjanirnar vel á hreinu og komst í miðtöflin. Um leið og hann fær að tefla skákirnar á hann í fullu tré við keppendur í sínum flokki.  Matthías er mjög upptekinn almennt í fótboltanum á sumrin og því hentar þessi árstími kannski ekki mjög vel þegar kemur að skákinni. Við vorum sammála um að næstu skref eru að byggja upp byrjanakerfin betur og þá tekur Matthías næstu stökk í sinni þróun sem skákmaður.

U12

Feðgarnir Omar Salama og Josef Omarsson skála í 7-Up í mótslok.

Josef Omarsson (1764) tapaði í lokaumferðinni fyrir Azera, Samsi Garakhanov (1623). Azerarnir eru almennt grjótharðir og komum við betur að því hérna í lokin á pistlinum. Josef hefur verið að tefla mikið í sumar og er að byggja upp gríðarlega góð vinnubrögð og að styrkja sín byrjanakerfi. Í skákinni tefldi hann stöðutýpu í kóngsindverja þar sem svartur fórnar peði en hefur mjög virka stöðu. Skákin lenti ekki hans megin að þessu sinni en innlögnin í reynslubankann er orðinn ansi góð nú í sumar hjá Josef.

Það sem er ekki síður mikilvægt en undirbúningur fyrir skákir er að vinna vel úr sínum skákum og skoða þær vel! Josef er í góðri framför og var t.a.m. hissa á eigin taflmennsku fyrir einu ári þegar hann var að skoða hana!

Josef lækkar um 31 elóstig en munar þá í raun bara skákinni í lokaumferðinni. Hefði Josef tekið hana er hann líklega að græða stig, K40-stuðullinn er harður skóli eins áður hefur komið fram! Þar að auki er mikið af skákmönnum á þessu móti sem eru alltof stigalágir þannig að menn eru að leggja stigin vel að veði á þessum mótum.

U10

Birkri vann vel fyrir ísnum sem hann fékk eftir lokaumferðina!

Birkir Hallmundarson (1565) náði að hala inn flestum vinningum af íslensku keppendunum. Í lokaumferðinni mætti hann stigahæsta keppandum sem hann fékk á mótinu, Dananum Robert Skytte (1775). Áttum við von á erfiðri skák þar enda pabbi hans alþjóðlegi meistarinn Rasmus Skytte sem margir kannast við. Undirbjuggum við okkur nokkuð vel og fyrir algjörlega tilviljun kíktum við aðeins á Levenfish afbrigðið í drekanum sem einmitt kom við sögu í Queen’s Gambit þáttunum. Skytte hafði leikið f4 gegn öðru afbrigði í Sikileyjarvörn og datt mér í hug að nefna það í undirbúningnum að hvítur er að tefla upp á ákveðið trikk með framrás e-peðsins ef svartur teflir of mikið eftir formúlunni. Birkir er almennt séð nokkuð góður að muna það sem er skoðað, hefur sterkt skákminni og vissi að hann þyrfti að leika …Rc6 gegn þessu afbrigði sem hann og gerði.

Daninn fór í hálf bjartsýna sókn eftir peðsfórn og Birkir vann ótrúlega auðveldan sigur og var búinn á ca. klukkutíma, langfyrstur íslensku keppendana. Það var allavega ljóst að Daninn var ekki að missa af rútu eða flugi því þeir feðgar voru með okkur í rútunni daginn eftir!

Birkir endar því „aflahæstur“ eins og áður sagði og fékk 5,5 vinninga af 9 mögulegum. Endaði hann í 30. sæti og því hærra en 35. sætið sem hann var í í styrkleikaröð, sem var markmiðið. Þrátt fyrir fínan árangur þá lækkar Birkir um 32 elóstig. Það er þó hættulegt að lesa of mikið í það, mikið af keppendum í þessum yngstu flokkum tefla hreinlega ekki mikið af kappskákum þrátt fyrir að vera í góðri þjálfun í netskák og styttri skákum og því alla jafna mun sterkari en stigin gefa til kynna. Slysatöpin þýða því elóstigatap upp á hátt í 40 elóstig! Birkir var óheppinn að því leiti í fyrstu umferðunum en líkt og Benedikt byrjaði hann 0 af 2 en spýtti svo í lófana og endaði 5,5 af 7.

Heilt yfir burtséð frá elóstigum og vinningum var taflmennskan hjá Birki skínandi góð. Hann gerði lítið af mistök og hélt góðri einbeitingu. Auk þess virðist Birkir búa yfir sjaldgæfum eiginlega hjá skákmönnum á þessum aldri að tefla bara stöðuna, „vera í stöðunni“ án þess að þurfa spennu í stöðuna eða taktík. Í næstsiðustu umferðinni vann hann einmitt á þessum eiginleika, skákin var mjög löng og Birkir aldrei með mikið betra en hafði einfaldlega þolinmæði í að bíða eftir sínum færum. Að lokum má nefna að Birkir hafði alls ekki heppnina með sér þegar kom að úrslitum, tapaði einni skák nánast án þess að gera mistök og nokkur jafnteflanna skil ég ekki alveg hvernig andstæðingarnir náðu að halda sér á floti…en svona er skákin stundum!

U12 stúlkna

Emilía Embla B. Berglindardóttir (1238) tapaði í lokaumferðinni gegn rúmenskri stelpu, Alexia Dorobat (1211). Emilía tefldi í fyrsta sinn á EM ungmenna og byrjaði rólega en vann sig smátt og smátt inn í mótið, gerði jafntefli og náði svo í sína fyrstu vinningskák. Þegar sjálfstraustið var orðið aðeins meira komu fleiri vinningar í hús og hefði þeir átt að verða fleiri en Emilía var oftar en ekki með betra tafl og jafnvel unnið tafl í skákum þar sem vinningar töpuðust niður.

Emilía þarf aðeins að styrkja byrjanirnar, þá helst með svörtu en 2,5 af 3 vinningum komu í hús með hvítu mönnunum þar sem London-kerfið hefur reynst vel. Með svörtu voru meiri vandræði með Pirc-vörnina. Ef Emilía lagar þessa holur þá kemst hún oftar í miðtaflið þar sem hún stóð alveg jafnfætis sínum andstæðingum þegar kom að taktík og að fóta sig í stöðum.

Lokaniðurstaðan 3 vinningar af 9 mögulegum og stigatapið var 94 elóstig. Innlögnin í reynslubankann þó líklegast ansi góð!

Úrslitin:

Þrír vinningar í hús í lokaumferðinni eins og í umferðunum tveim þar á undan.

Staðan:

Birkir var hæstur íslensku krakkana með 5,5 vinning en þeir Benedikt og Aleksandr næstir með 5 vinninga. Benedikt var sá eini sem hækkaði á stigum.

Sigurvegarar

Azerar voru mjög áberandi á þessu móti. Þeir sendu flesta keppendur og unnu jafnframt flesta flokka, náðu sér í fjóra Evrópumeistara og unnu báða U8 flokkana. Jafnframt náðu þeir í tvö silfur.

Eins og svo oft áður virðist vera hægt að draga landamæralínu og fara elóstigin nánast öll yfir þá línu. Azerarnir sem stóðu sig best með flesta keppendur hækkuðu til að mynda að meðaltali yfir 75+ elóstig á hvern keppenda….aftur, að meðaltali! Armenar voru svipaðir en með örlítið færri keppendur þó.

Hótelið

Fyrir 6 árum fór mótið fram á sama stað á Mamaia. Þá var gist á hóteli sem bar nafnið Hotel Perla. Það hótel stóð ekki undir nafni!

Þú varst líklegri til að sjá maura í herberginu en að finna eitthvað gott við hótelið. Það kom því ekki á óvart að sjá að hótelið virðist vera lokað, það var einhver miði á rúmensku á hurðinni og allt virkaði frekar tómlegt.

Hótelið nú var mun betra, herbergin fín og maturinn almennt mjög fínn. Undan litlu þar að kvarta og auk þess var hægt að skella sér í sund í sjónum, í sundlaug eða kíkja í tennis, fótbolta, pool og alls kyns leiki.

Staðurinn almennt nokkuð líflegur fyrri vikuna en síðan skall greinilega á „offseason“ og mikið af stöðum bæði á Mamaia og á hótelinu minnkuðu starssemi eða hreinlega lokuðu.

Mótshaldið

Mótshaldið gekk almennt vel. Skipulag var gott og skáksalir nokkuð þægilegir og mótshaldarar fundu fína línu í því að hafa létta stemmningu en samt vera með aðgerðir í „anti-cheating“ sem er orðið nauðsynlegt á mótum í dag.

Ferðir til og frá mótsstað gengu vel, rútur gengu reglulega og lítið vesen eða vandamál með rútuferðir þó troðningur og ágengi annara þjóða, sérstaklega þegar kemur að því að geta ekki farið í röð og ryðjast svo fram fyrir fólk sem virðir röðina sem fólk kom í á staðinn. Minniháttar mál þó með öllu!

Foreldrahópurinn sem fylgdi var einstaklega samrýmdur og góð og þægileg stemmning í öllum samskiptum og samveru.

Næst á dagskrá í unglingaverkefnum er HM U20 í Mexíkó eins og áður sagði og svo er HM ungmenna í flokkum U8, U10 og U12 í Egyptalandi í október og svo eru eldri flokkar U14, U16 og U18 á Ítalíu í nóvember. Ísland mun eiga keppendur á öllum þessum mótum.

- Auglýsing -