Aftur í landsliðsflokk Bragi Þorfinnsson vann áskorendaflokkinn nokkuð örugglega. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Braga Þorfinnssyni gekk ekki vel í keppni landsliðsflokks í vor og ákvað þess vegna að skella sér í áskorendaflokkinn, þar sem keppt var um tvö sæti í landsliðsflokki á næsta ári. Ekkert öruggt að menn komist þangað því að stundum hefur mótshaldarinn, Skáksamband Íslands, látið nægja að stilla upp 10 keppenda landsliðsflokki, þó að hin mikla breidd bókstaflega kalli eftir 12-14 keppendum á þeim vettvangi.

Alls mættu 36 keppendur til leiks og fór mótið fram við góðar aðstæður í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur. Það bætti svo miklu við umgjörð þess að umsjónarmaður streymis frá mótinu, Ingvar Þ. Jóhannesson, tók að sér að skýra skákir þess eftir hverja einustu umferð á skák.is. Vel gert.

Í svo stuttu móti er nánast hver einasta skák á toppnum úrslitaskák og það átti við um viðureign Braga við úkraínsku skákkonuna Olgu Prudnykovu í 7. umferð. Fyrir skákina hafði Olga ½ vinnings forskot á Braga og var með hvítt. Hún ætlaði sér greinilega stóra hluti, hrókeraði langt snemma tafls og eins og stundum þegar svo stendur á virtist kapphlaup á báðum vængjum í uppsiglingu. En þar var Bragi fyrri til og rústaði stöðu hvíts með nokkrum hnitmiðuðum leikjum:

Skákþing Íslands 2023; áskorendaflokkur:

Olga Prudnykova – Bragi Þorfinnsson

Larsens-byrjun

1. b3 d5 2. Bb2 Rf6 3. e3 g6 4. Rc3 Bg7 5. d4 O-O 6. Dd2 c6 7. O-O-O b5 8. f3 a5 9. g4 a4 10. g5 Rfd7 11. h4 axb3 12. axb3 b4 13. Rb1?

Hún mátti ekki hleypa hróknum til a2. Betra var loka a-línunni um stund a.m.k. með 13. Ra4.

13. … Ha2 14. h5 c5 15. hxg6 hxg6

Þó að h-línan hafi opnast mun biskupinn á g7 alltaf verja kóngsstöðuna.

16. Rh3

16. … Hxb2! 17. Kxb2 cxd4 18. exd4 Rc6 19. Kc1 Rxd4 20. Db4 e5 21. c3 Dc7 22. Kb2

Reynir að halda stöðunni saman en nú kemur önnur sprengja

 

 

 

 

22. … Rxb3! 23. Dxb3 Rc5 24. Dxd5 Be6 25. Dd6 Da7?

Smá galli á annars ágætri útfærslu. Svartur gat unnið drottninguna með 25. … Hb8+ 26. Kc2 Bf5+ 27. Kc1 Rb3+ og 28. … Rd4+.

26. Ra3 e4 27. Rf4 Hb8+ 28. Kc2 Bb3+ 29. Kd2 He8!

Þó að svartur sé hrók undir er lítill samgangur í vörn hvíts og kóngsstaðan í rúst.

30. Rd5 Bxd5 31. Dxd5 Dxa3 32. Bc4 Dxc3+ 33. Ke2 Dxf3+ 34. Kd2 Df2+ 35. Be2 e3+ 36. Kc1 Dxe2

– og hvítur gafst upp.

Á ýmsu gekk í lokaumferðinni. Bragi átti tapað tafl um tíma í skák sinni við Davíð Kjartansson og svo vann Lenka Bárð. Það þýddi að Olga gat komist upp fyrir Bárð með því að vinna Björn Hólm Birkisson sem hélt örugglega jafntefli og fleytti með þeim hætti sínum kæra bróður upp í landsliðsflokk.

Lokastaða efstu manna varð þessi:

1. Bragi Þorfinnsson 7½ v. (af 9) 2. Bárður Örn Birkisson 6½ v. 3.-5. Olga Prudnykova, Lenka Ptacnikova og Gauti Páll Jónsson 6 v. 6.-12. Björn Hólm, Benedikt Þórisson, Jóhann Ingvason, Andrey Prudnikov, Benedikt Briem, Davíð Kjartansson og Adam Omarsson 5½ v.

Að lokum skemmtileg flétta frá einum af yngstu keppendum Íslandsmótsins:

Skákþing Íslands 2023; áskorendaflokkur, 4. umferð:

Roberto Eduardo – Sigurður Páll Guðnýjarson

Hvítur virðist ætla að stöðva för a-peðsins en þá kom …

29. … Bxc5!

Með hugmyndinni 30. dxc5 d4! og vinnur.

30. Bc3? Bd6 31. g3? dxc4 32 Kf1 f5!

– og kóngurinn skundar til d5. Hvítur gafst upp eftir 39 leiki.

Íslandsmót kvenna hefst svo um næstu helgi.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 9. september 2023

- Auglýsing -