Fimmta umferðin á Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur fór fram í dag. Bárður Örn Birkisson er í banastuði í A-flokki og hefur enn fullt hús eftir umferðirnar fimm. Hann lagði Lenku Ptacnikovu að velli í dag. Þrír eru orðnir efstir og jafnir í opna flokknum, rúlluskautaskák á efsta borði vakti þar athygli.

Bárður var efstur fyrir umferðina með fullt hús en Hilmir Freyr var hálfum vinningi á eftir og Stefán í seilingarfjarlægð.

Fyrsta skákin til að klárast var viðureign Gauta Páls Jónssonar (2055) og Jóhanns Ingvasonar (2087). Jóhann fékk aðeins betri færi í byrjuninni með sterkan riddara á e4. Hann hefði þurft að taka sína sénsa með 17…Hb2 og e.t.v. …Da3 í kjölfarið en eftir það virtist Gauti taka öll völd á skákborðinu. Hvítur fékk endatafl með betri peðastöðu og færri peðaveikleika og nýtti Gauti sér það til að knýja fram sigur.

Haraldur Haraldsson (1933) hafði hvítt gegn Ingvari Wu Skarphéðinsyni (1996).  Haraldur beitti Reti-gambítnum gegn franskri vörn, 2.b3 og fékk skemmtilega sókn. Haraldur hefði átt að gera út um skákina í 19. leik.

Hér hefði 19.Rf6+!! gert út um skákina, svartur á engar varnir.

Haraldur var þó peði yfir og með vinningsstöðu lengst af en Ingvar náði að verjast af mikilli seiglu og Haraldur fann enga leið til að brjótast í gegn. Jafntefli niðurstaðan.

Bárður Örn (2191) mætti Lenku Ptacnikovu (2131) og upp kom Sikileyjarvörn. Bárður virtist fá nokkuð þægilegt tafl og hélt hann stjórn á stöðunni lengst af skákinni og gerði svo útaf við dæmið með fínum taktískum aðgerðum á réttum tíma…að sjálfsögðu með eina mínútu á klukkunni eins og venjulega 😉

Björn Hólm (2097) og Hilmir Freyr (2367). Björn aftur í aðstöðu til að hjálpa bróður sínum en hann vann á dögunum mikilvæga skák sem tryggði Bárði sæti í landsliðsflokki. Hér hefði Björn fína stöðu úr byrjuninni gegn Hilmi.

17.e5!? virkaði freystandi hér en tölvurnar töldu þó að hvítur tapaði meirihlutanum af frumkvæði sínu. Hilmir fórnaði skiptamuninum á f8 eftir 17…dxe5 18.Bc5 og fékk fínustu bætur og sóknarfæri. Smátt og smátt tók Hilmir yfir og endaði loks í endatafli peði yfir. Björn bauð svo upp á einföldum í peðsendatafl eftir 40.Hd3? og Hilmir nýtti það og knúði fram vinning.

Síðasta skákin til að klárast var skák Þorvarðs F. Ólafssonar (2169) og Stefáns Bergssonar (2114). Peðsfórn Stefáns í byrjuninni virtist misheppnuð. Varði hafði peði yfir og biskupaparið og mótspil svarts ekki sjáanlegt. Hvítur redúseraði líklega fullt primitíft og svartur komst í hróksendatafl með jafnt á peðum.

Varði tók lélega ákvörðun hér og drap með hrók á d5, 36.Hxd5? sem leiðir líklega til tapaðs endatafls. Mun rökréttara var að drepa með peði og hafa hrókinn bakvið peðið. Stefán náði að vinna peðsendataflið og heldur sér í toppbaráttunni.

Úrslit umferðarinnar

Staðan eftir fimm umferðir

Framundan er spennandi sjötta umferð á miðvikudag.

Hilmir Freyr með hvítt og Bárður mætast í sannkölluðu toppuppgjöri! Stefán mun þurfa sigur gegn Jóhanni Ingvasyni til að halda velli í toppbaráttunni. Skák Ingvars Wu og Gauta Páls er mikilvæg í baráttunni um að verða skákmeistari TR!

Opinn flokkur

Á efsta borði mættust Adam Omarsson og Benedikt Þórisson í toppuppgjöri. Úr varð algjörlega galin skák. Áhorfendur áttu erfitt með hálsríginn þegar kóngur svarts var strandaglópur á miðborðinu og svartur með 1:22 á klukkunni. Flestir héldu að svartur hlyti að hafa verið vel undirbúinn og hér væri þvingaður jafnteflisvaríantur á ferð. Því var svo sannarlega fjarri!

Svartur þarf eitthvað að svara fyrir tímanotkun í þessari skák!

21…Bc3?? var tapleikur. 21…axb5 22.Hxd5 Bxd5 er líklegast í dýnamísku jafnvægi. Nú átti hvítur ýmsar leiðir 22.Hxd5 leiðir til máts ef svartur tekur drottninguna á e1. 22.De2 sem var leikið á samt að duga.

Hvítur missti svo af máti í 3 leikjum

25.Hd6 var leikið og það dugir en 25.De7+ Kf5 26.Dg5+ Ke4 27.Dg4 er mát. Eftir 25…Kf5 á hvítur enn mát í 5 leikjum með 26.Rh4+ en 26.g4+? heldur svörtum á lífi, taflið er þó enn unnið.

28.Dg4+?? missti skákina svo í jafntefli. 28.Rc4! var ennþá unnið.

Skemmtileg skák og fín útreikningaæfing en ungu TR-ingarnir geta báðir betur eins og þeir hafa sýnt undanfarið!

Jóhann Ragnarsson lagði Kristján Örn á öðru borði og Mikael Bjarki lagði félaga sinn úr Breiðablik, Sigurð Pál Guðnýjarson. Jóhann og Mikael Bjarki eru þá orðnir jafnir Adam að vinningum með 4 af 5 mögulegum.

Haustmótið fer fram í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur í Faxafeni 12. Umferðir hefjast 18:30 á virkum dögum en 13:00 um helgar.

- Auglýsing -