Engin skák endaði með skiptum hlut í fyrstu umferð á Íslandsmóti kvenna í skák. Stigahæstu skákkonur mótsins, Lenka Ptacnikova og Olga Prudnykova unnu sigur á ungum andstæðingum sínum en Guðlaug Þorsteinsdóttir vann á móti Jóhönnu Björgu í jöfnustu viðureigninni á pappír.

Guðlaug Þorsteinsdóttir (1984) – Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (2014)

Guðlaug hafði hvítt og upp kom drottningarindversk-vörn. Guðlaug beitti afbrigði kennt við Petrosian og þar er talið ónákvæmt fyrir svartan að leika 5…Be7?!

Það var allavega sagt í þessum doðranti á sínum tíma sem reyndist greinarhöfundi vel á sínum tíma.

Guðlaug lék réttilega 6.d5! og hvítur nær ansi góðu rými og tökum á stöðunni strax. Svartur á oft erfitt með að losa um sig og þarf yfirleitt að taka á sig veikleika til að losa um stöðuna. Hvítreitaveikleikarnir í stöðu Jóhönnu urðu henni að falli. Svartur var þó við það að komast inn í skákina í kringum 20. leik en þá komu nokkrir slakir leikir.

Lenka Ptacnikova (2139) – Guðrún Fanney Briem (1706)

Eins og í skák Guðlaugar og Jóhönnu kom ónákvæmnin/mistökin snemma í þessari skák líka.

Guðrún lék hér 4…Bg7?! sem er ónákvæmt. Svartur verður eiginlega að leika 4…Rf6 til að geta svarað d4 með tekið, tekið og leika svo sjálfur d5. Eftir gerðan leik og 5.d4 stendur riddarinn á c6 illa og hvítur hótar d5 með betra tafli strax. Svartur fékk eiginlega óteflanlegt tafl í kjölfarið en Guðrún er þekkt fyrir mikla baráttu og varð þetta lengsta skák umferðarinnar, fór í 30 leiki og tímahrak hjá báðum.

Iðunn Helgadóttir (1694) – Olga Prudnykova (2268)

Olga mætti London uppstillingu Iðunnar af krafti. Þessi leið með 7…Db6 og 8…Be6 hefur lengi verið þekkt í fræðunum og man ég eftir skrifum Eric Prie á Chesspublishing.com um þessa leið fyrir svart fyrir ALLmörgum árum! Lítið hefur breyst og svartur jafnar allavega taflið auðveldlega í þessari leið og er þetta ein af ástæðunum fyrir því að ég sjálfur tefli yfirleitt ekki London gegn þessari leikjaröð, þ.e. Rf6/g6/Bg7.

10.Rbd2!? gaf svörtum færi á að éta eitrað peð á a2 en spurningin var hvort eitrið væri sterkt. Olga virtist hafa mótefni og þó að við fyrstu sýn virðist biskupinn strandaður þá losaði Olga biskupinn nokkuð auðveldlega og var svo kominn í mátsókn áður en varði og kláraði með mjög fallegu máti.

Úrslit umferðarinnar

2. umferð fer fram á morgun klukkan 18:00 í Skáksambandi Íslands í Faxafeni 12.

Jóhanna hefur hvítt gegn Olgu í mikilvægri skák, ungu stelpurnar mætast og Guðlaug hefur hvítt á Lenku.

- Auglýsing -