Tæknifundur í mótssal Mynd: Mark Livshitz / Heimasíða mótsins

Íslenska liðið hefur hafið leik á Heimsmeistaramóti öldungasveita. Mótið fer fram í Struga í Norður-Makedóníu og er íslenska liðið í 50+ flokknum. Íslenska liðið skipa eftirfarandi í borðaröð:

  1. Helgi Ólafsson (2491)
  2. Jóhann Hjartarson (2432)
  3. Margeir Pétursson (2396)
  4. Jón L. Árnason (2419)
  5. Þröstur Þórhallsson (2382)

Íslenska liðið er númer fimm í styrkleikaröðinni. Bandaríkjamenn hafa mjög þétt lið með fjóra efstu alla yfir 2500 elóstigum, m.a. Shabalov, Kaidanov og Jan Ehlvest. Englendingar eru líka sterkir, hafa sjálfan Michael Adams (2660) og fulla sveit af stórmeisturum.

Alls eru 22 sveitir skráðar til leiks. Í fyrstu umferðinni mætti Ísland sænskri sveit. Margeir hvíldi í umferðinni.

Jón L. var fyrstur til að klára sína skák gegn Lars Olsson (1906). Sá sænski misreiknaði sig illa.

Jón var að leika …Hc8 og setja á riddarann á c7. Svartur er peði yfir og stendur vel. Svíinn lék 21.Bf4?? með hugmyndinni að svara 21…Hxc7 með 22.Hxd6 exd6 23.Bxd6 vandamálið er að svarti hrókurinn kemst einfaldlega fyrir.

23…He7 og svartur hefur unnið heilan og hreinan mann.

Þröstur var næstur að klára. Andstæðingur hans virtist í álíka gjafastuði og Olsson, langhrókaði beint ofaní auðvelda sókn hjá hvítum og gaf svo mann í vonlítilli stöðu. Auðveldur sigur og lítið bensín sem þurfti að eyða í þessa skák.

Jóhann mætti stigahæsta meðlimi þessarar sænsku sveitar og hafði hvítt. Jóhann fór sér engu óðslega og tefldi meira og minna eins og hann hefði hvítt í spænska leiknum þó andstæðingurinn væri að tefla modern, byrjun sem Jóhann reyndar þekki vel með svörtu. Þolinmæði Jóhanns fór að gefa þegar leið á skákina og liðsaflinn fór að týnast inn, peð, svo annað peð og loks skiptamunur.

Helgi var síðastur að klára. Hann hefur væntanlega viljað pína þennan Håkan eitthvað fyrir að tefla upp á nákvæmlega ekki neitt með hvítu og hóta að jarma á jafntefli. Helgi jafnaði taflið auðveldlega en varð kannski ekkert mikið ágengt gegn passífri taflmennsku hvíts, þar til…

32.Rd2? klaufalegur afleikur og nú eftir 32…Re6 á hvíti hrókurinn engan reit til að hörfa á. Helgi vann skiptamun og eftirleikurinn var bara spurning um raðtækni.

Fínn sigur hjá íslenska liðinu. Bæði bandaríska sveitin og England misstu niður hálfan vinning þannig að íslenska liðið byrjar vel og mæta China ShenZhen í 2. umferð en kínverska sveitin vann 3-1 i fyrstu umferðinni gegn finnskri sveit.

Taflmennskan hefst klukkan 15:00 alla daga.

- Auglýsing -