Íslandsmót öldunga (65+) hófst í kvöld en mótið fer fram samhliða Íslandsmóti kvenna. Í báðum flokkum eru sex keppendur og allir keppa við alla. Bragi Halldórsson og Björgvin Víglundsson unnu sínar skákir í fyrstu umferðinni en þurftu að hafa mismikið fyrir vinningnum, vægast sagt!

Þór Valtýsson (1914)- Ögmundur Kristinsson (1934)

Þór er ríkjandi Íslandsmeistari öldunga og skilaði farandbikarnum samviskusamlega við upphaf móts. Þór beitti að sjálfsögðu London-kerfinu fræga enda orðið þjóðþekkt að Þór lætur ekki kenna sig við aðrar byrjanir en London og Caro-Kann!

Refirnir Þór og Ögmundur sömdu um jafntefli í 20. leik. Tölvuforritin voru sammála um að staðan væri algjörlega í jafnvægi. Þór hafði vissulega rjómariddara á e5 reitnum en svartur hafði peði meira og ekki ljóst hvernig bæta mætti stöðuna, á báða bóga. Jafntefli rökrétt úrslit þegar hvorugur gefur færi á sér.

Lárus S Guðjónsson (0) – Björgvin Víglundsson (2176)

Áhugaverð viðureign hér á ferð. Björgvin er stigahæsti skákmaður mótsins en Lárus ákveðinn x-factor, hefur lítið teflt undanfarin ár. Snemma var þó ljóst að Lárus kann rúmlega mannganginn!

Ósagt skal látið hvort Björgvin fórnaði peði eða tapaði því eftir 14.Dg5. Í öllu falli vann hvítur peð en á daginn kom að þetta peð var dýru verði keypt. Svartur fékk góða stjórn á svörtu reitunum og mikið spil.

Í dýnamískri stöðu reyndist 20.Rd5? tapleikurinn. Tekið, tekið og …Rg3 reyndist unnið á svart þó að úrvinnslan hafi kannski ekki verið upp á tíu.

Kristján Örn Elíasson (1758) – Bragi Halldórsson (2047)

Skák umferðarinnar var vafalítið rússibanaskák þeirra Kristjáns Arnar og Braga. Menn hafa lesið Íslendingasögur sem hafa minni trúverðugleika en framvinda þessarar skákar!

Ef eitthvað er jafn öruggt og að Þór tefli Caro-Kann þá er það að Bragi tefli Caro-Kann! Bragi fékk þægilegt tafl úr byrjuninni og stillti upp í minnihlutaárás.

Í 19. leik lék Kristján hvíta hróknum á g5. Óvenjulegur reitur inni í herbúðum svarts. Það sem er ótrúlegra er að þessi hrókur stóð óhreyfður á g5 reitnum fram í 49. leik!! Hér hlýtur að vera einhverskonar heimsmet á ferð og Kristján nýbúinn að setja slíkt þegar hann slengdi drottningarriddara sínum með hvítu á h2 reitinn í einhverjum átta leikjum! Djöfuls er gaman að þessu!!

Bragi hafði yfirhöndina eiginlega alla skákina en varð á í 61. leik

61…Hxf4?? hleypti hvítum inn og eftir 62.Dd8 þarf svartur virkilega að vanda sig! Eftir að hafa haft betra tafl eiginlega alla skákina missti Bragi tökin

65…Kd6?? var í raun tapleikur. Sem betur fer fyrir Braga átti Kristján nánast engan tíma eftir, enda þurfti hann að verjast heillengi í hálfgerðri skítastöðu. Kristján skynjaði að hann hefði átt að skáka á d8 eftir 66…Kc7 en ákvað að taka hrókinn. Kristján hafði rétt fyrir sér og 67.Dd8+ hefði endað með máti eða svartur hefði tapað drottningunni.

Hér hefðu margir misst móðinn í fótsporum Braga. Kolunnið tafl í meirihlutanum af 60+ leikjum og missa það svo niður. Bragi hélt hinsvegar haus og hélt áfram að reyna að finna bestu og praktískustu leikina til að halda taflinu gangandi. Það gekk í 75. leik þegar Kristján lék af sér og leyfði riddaragaffal sem vann drottningu.

Alvöru rússíbanaskák!

Í 2. umferð er viðureign stigahæstu manna mótsins. Björgvin fær hvítt gegn Braga, mikilvæg skák þar á ferð!

- Auglýsing -