Þröstur að tafli Mynd: Mark LIvshitz / Heimasíða mótsins

Íslenska liðið vann sigur í 2. umferð á HM öldungasveita í Struga í Norður-Makedóníu og fara vel af stað.

Íslenska liðið er númer fimm í styrkleikaröðinni og liðið skipa fjórmenningaklíkan auk Þrastar Þórhallssonar, allt stórmeistarar.

  1. Helgi Ólafsson (2491)
  2. Jóhann Hjartarson (2432)
  3. Margeir Pétursson (2396)
  4. Jón L. Árnason (2419)
  5. Þröstur Þórhallsson (2382)

Bandaríkin og England hafa feykisterk lið og bandaríska liðið er mjög sigurstranglegt. Alls eru 22 sveitir skráðar til leiks.

Ísland vann fínan 4-0 sigur í fyrstu umferðinni en nú var komið að kínverskri kvennasveit. Sýnd veiði en ekki gefin og allt það. Erfitt að lesa í styrkleika sveitarinnar þar sem meðlimir hafa kannski lítið teflt utan landssteinanna undanfarin ár.

Helgi Ólafsson var fyrstur til að klára sína skák. Teflt var London sem er vinsæl byrjun þessi dægrin. Afbrigðið með tvípeðið á f-línunni er oft nokkuð þægilegt á hvítt og Margeir Pétursson hefur t.a.m. mikið álit á hvítu stöðunni. Guðmundur Kjartansson fékk þetta á sig á síðasta Ólympíumóti og Magnus Carlsen tefldi fína skák í þessum strúktúr á sama móti. Helgi fékk fína stöðu. Riddarinn á d4 er mjög sterkur í þessum stöðum.

Það kom því eilítið á óvart að Helgi skildi semja fyrstur liðsmanna. Hvitur getur teflt stöðuna áfram að vild án áhættu og byggt upp á báðum vængjum eftir atvikum. Mögulega hefur Helgi lesið rétt í spilin á hinum borðunum en einhverjir hefðu nú viljað láta hvítan tefla þarna áfram!

Jóhann var alltaf í smá beyglu á öðru borði án þess að vera kannski í þráðbeinni taphættu. Vandamálin voru þó úr sögunni eftir slakan leik hvíts 26.g3?

26…Rxd5! bjargaði málunum og jafnteflið í hús eftir nokkra leiki til viðbótar.

Jón L. var alltaf í fínum málum á fjórða borði. Hann hafði virkari menn og betra tafl en kannski ekki nóg til að sækja vinninginn. Jón stýrði skákinni í þráskák og þá var sigur í viðureigninni nánast í höfn.

Það var svo Margeir á þriðja borði sem sigldi þessu heim. Mögulega var jafnteflis strategían á öðrum borðum svolítið lituð af stöðunni hjá Margeiri sem fékk mjög góða útgáfa á hvítan af kóngsindverja/Czech-benoni stöðutýpu. Margeir var reiðubúinn að „beygja til hægri“ löngu áður en svartur kom vísi að sókn í gang á kóngsvæng. Auðveldur sigur sem aldrei var í hættu.

Sigur með minnsta mun en á móti var sigurinn kannski aldrei í hættu.

Ísland er ein af fimm sveitum sem hafa unnið báðar viðureignir sínar. Okkar menn sleppa við toppuppgjör í bili og mæta austurrískri sveit í þriðju umferðinni.

Okkar menn eiga að vera sterkari á pappír og auk þess virðast Austurríkismennirnir allir eldri en okkar menn.

Taflmennskan hefst klukkan 15:00 alla daga og beinar útsendingar eru á Chess.com og Chess24 og eru skákskýringar Alex Colovic á chess24 hlekknum.

- Auglýsing -