Íslandsmót skákfélaga 2023-24 fór af stað í kvöld þegar keppni hófst í öllum deildum. Kvikudeildin hófst í gær en nú má segja að mótið sé almennilega komið af stað.
ÚRVALSDEILD KVIKUDEILDIN
Skákdeild KR – Víkingaklúbburinn
Víkingaklúbbnum var spáð sigri af Ritstjórn Skak.is en jafnframt er morgunljóst að liðin eru jafnari en oft áður og það sannaðist í þessari viðureign. KR-ingar náðu í 4-4 jafntefli…og opna mótið upp á gátt!
Á efstu borðum var skipst á sigrum og jafnteflum. Skemmtilegasta skákin var á fjórða borði. Hollendingurinn Bram Van Den Berg sem teflir fyrir KR er sá sami og tefldi Fajarowicz afbrigðið af Búdapestarbragði í dag. Nú tefldi hann rúlluskauta afbrigði í skandinavískri vörn, kennt við Portúgal. Bragi mátti hafa sig allan við og líkt og Thybo í gær er óhætt að segja að hann hafi sloppið með jafnteflið! Hollendingurinn er greinilega skákmaður sem vert er að fylgjast með!
Lykillinn að jafnteflinu var sterkur sigur Andrey Prudnikov á Tapani Sammaluvo og gott jafntefli hjá Arnþóri Einarssyni gegn Birni Þorfinnssyni. Víkingar voru mun stigahærri á 5-7. borði en KR-ingar náðu að skipta þeim vinningum bróðurlega. Loks varð jafntefli á síðasta borði og niðurstaðan því 4-4 jafntefli, sannarlega óvænt!
Taflfélag Garðabæjar – Taflfélag Vestmannaeyja
Jafntefli varð niðurstaðan í hörkuviðureign.
Hannes vann á fyrsta borði, Daninn hafði betra tafl en missti þráðinn.
Hér hefði 32…Rxf3+ 33.Hxf3 Hc4 gefið svörtum mun betra tafl. Þess í stað kom 32…Hc4 og Hannes hélt sér á floti og vann peð skömmu síðar og sigldi þessu heim.
Hilmir Freyr kvittaði fyrir á öðru borði. Flottur sigur hjá Hilmi í uppgjöri landsliðsmanna. Hilmir fékk gott mislingaendatafl þar sem hann náði sér í samstæð frípeð sem nægðu til vinnings.
Dagur náði í vinning á þriðja borði gegn Helga Ólafssyni í skrautlegri skák. Helgi hafði lengst af tögl og haldir en Dagur náði einhvern veginn að snúa taflinu sér í vil án þess að Helgi léki eitthvað mjög illa af sér.
Jafntefli urðu á miðju borðunum en Vestmannaeyjar jöfnuðu leikana á neðstu þremur. Þorvarður vann góðan vinnslusigur á Lenku, Jóhann hafði betur gegn Sæberg þar sem byrjunin misheppnaðist hjá Sæberg en svo var það landsliðskonan Jóhanna Björg sem tryggði jafnteflið með góðum sigri gegn Sverri Erni, Jóhanna vann peð og sigldi þessu heim.
Fjölnir – Taflfélag Reykjavíkur
Fjölnir byrjuðu best í gær með 6 vinninga í sigri í þeirra viðureign. TR vann einnig í gær og því toppslagur hér á ferðinni. Þessi viðureign varð algjör rússíbani!
Tvö tiltölulega stutt jafntefli komu snemma, TR-ingarnir Sulypa og Ingvar komust lítið áleiðis með hvítu og sömdu með aðeins verra ef eitthvað var. Horfurnar ekki góðar hjá TR þar sem hvítu mennirnir voru ekki að nýtast vel. Helgi Áss var í vandræðum með hvítt og Snorri Bergsson með tapað. Heilladísirnar virtust þarna ganga TR í vil. Snorri sneri koltöfluðu tafli sér í vil.
Oliver átti hér nánast þvingað mát eftir 39…Dxh2+ hvítur tapar hrók eftir 40.Hc2 a3+ 41.Kb3 He3+ Þess í stað lék Oliver 39…Hb8?? og allt í einu var hvítur kominn með peði yfir og unnið tafl eftir að hafa þurft að verjast alla skákina.
Fjölnismenn jöfnuðu fljótt þegar Kazakouski fann flotta leið með svörtu gegn Helga.
28…Rxf2 29.Kxf2 Rxg3 30.Hxg3 Hxg3 31.Rxg3 Dxf4+ 32.Kg2 Dh4
Leppunin kostar hvítan liðið til baka og þá eru of mörg peð farin í hafið.
Fjölnir tóku forystu þegar Pultinevicius kláraði hróksendatafl gegn Guðmundi á efsta borði. Sterkur svíðingur og staðan 3-2 fyrir Fjölni.
Þegar hér kom við sögu voru TR-ingar með unnið eða betra á öllum þremur borðunum sem eftir voru.
Þröstur hafði vélað drottningu af Degi með mikilli seiglu.
Í tímahraki hefði riddarameistarinn getað tryggt sigurinn með 39…Re3+ 40.Kh2 Dh5! og hvítur ræður ekki við tvöfalda árás, svartur hótar biskupnum á e5 og riddaraskák á g4. Spennandi skák þar sem Dagur náði á endanum jafntefli með þráskák.
Tómas náði líka jafntefli á sjöunda borði. Olga hafði haft betra lengst af og var peði yfir en Tómas komst í hróksendatafl þar sem hann náði þráleik.
Viðureignin réðist því þriðja borði þar sem Aleksandr Domalchuk-Jonasson með svörtu var að yfirspila Tomas Laurisus með öllum kúnstarinnar reglum.
51…fxg3 var fínn leikur hjá Sasha og svartur enn með unnið. 51…Hg5!! hefði hinsvegar verið alvöru sleggja. 52.hxg5+ gengur ekki vegna 52…Df5+ og svartur vinnur. Ef kóngurinn fer á aðra reitaröð kemur …Dc2+ með máti og ef hvítur leikur g4 er tekið og svo skák á d3 og vinnur hrókinn á f1. Svarti kóngurinn er öruggur á meðan. 52.Re4 kom hér hjá Litháanum.
Apparötin gefa svörtu -9 í mat hér, 52…g2 vinnur á svart. Svartur drap á b5 í tímahraki og hvítur komst inn í skákina.
Miklar sveiflur í lokin, svekkjandi tap hjá TR sem hafði viðureignina nokkurn veginn í eigin höndum í lokin en á móti sætur „stuldur“ hjá Fjölnismönnum sem eru enn efstir í Kvikudeildinni.
Beinar útsendingar verða frá öllum skákum í Kvikudeildinni á lichess og chess24 með 15 mínútna seinkun.
1. DEILD
Ristjórn spáði Breiðablik upp í 1. deildinni og þeir byrja ansi vel þar. Ekki nóg með að a-sveitin hafi byrjað á 5-1 sigri gegn TG-g heldur hjálpaði b-sveit Breiðabliks heldur betur til þegar þeir gerðu 3-3 jafntefli við sterka sveit Skákfélags Akureyrar.
Björn Ívar lagði Hlíðar á efsta borði og svo varð jafntefli í fjórum viðureignum en Davíð Kolka var hetjan og lagði Stefán Bergsson að velli.
TR-b vann fínan sigur á Vinaskákfélaginu 3,5-2,5
Af einstaklingsúrslitum má benda á góðan sigur Gunnars Freys Rúnarssonar gegn Thorbjorn Bromann í viðureign Skákgengisins og Víkingaklúbbsins-b.
2. DEILD
KR-b og Akureyri-b alltaf líkleg í þessari deild og báðar sveitir fóru vel af stað með 5,5-0,5 sigrum í 1. umferðinni.
Sterkir sigrar eins og áður sagði hjá b-sveitunum sterku. TR-c sveit og Breiðablik c-sveit náðu einnig í góða sigra.
3. DEILD
Ritstjórn spáði SSON góðu gengi hér. Goðinn sýndi hinsvegar að þeir eru til alls líklegir og gerðu 3-3 jafntefli við SSON.
Taflfélag Vestmannaeyja b-sveit tekur forystu ásamt Fjölni-b en báðar svetir unnu 4,5-1,5
4. DEILD
Dímon ættu að eiga sigurinn vísan í 4. deildinni. Innan þeirra raða er fjöldinn allur af sterkur skákmönnum sem flestir eiga ættir sína að rekja til Vestfjarða. Dímon byrjuðu með 6-0 sigri.
Vinaskákfélagið og Goðinn-b náðu í hin stóru úrslitin í umferðinni.
Fjörið heldur áfram á morgun, laugardag. Umferðir fara fram klukkan 11:00 og 17:30 uppi í Rimaskóla. Línur ættu að skýrast vel á löngum laugardegi í Grafarvoginum!
Tímaritið Skák
Minnt er á að Tímaritið Skák verður hægt að nálgast á skákstað. Hægt verður að borga blaðið með greiðslukorti eða innlögn. Gjafverð á ritinu eða kr. 2.500. Gjöf en ekki gjald fyrir þetta gæðarit sem Gauti Páll á langmestan heiður af sem verður sífellt betra og betra með hverju tölublaði.
Fyrir þá sem ekki komast um helgina má panta blaðið á netinu sem verður sent í pósti eftir helgi. Sjá hér.