Langi laugardagurinn er að baki á Íslandsmóti skákfélaga. Tvær umferðir eru iðulega tefldar á á laugardegi þegar mótið fer fram og línur skýrast oft all verulega á þessum degi. Fjölnismenn hafa verið í banastuði í Kvikudeildinni og hafa unnið allar sínar viðureignir.
Rennum yfir gang mála í deildunum en eins og áður sagði var tvöföld umferð í öllum deildum í dag.
ÚRVALSDEILD KVIKUDEILDIN
Fyrri umferð dagsins var þriðja umferð í úrvaldsdeildinni.
Víkingaklúbburinn – Skákdeild Fjölnis
Mjög mikilvæg viðureign í toppbaráttunni hér á ferð. Þessar sveitir eru báðar með ágætis „útlendingahersveit“ og því líklegar til afreka. Fjölnir hafði unnið báðar sínar viðureignir og meðal annars lagt TR að velli en Víkingar misstu jafntefli gegn KR-ingum.
Á efsta borði náði Pultinevicius í mikilvægan punkt fyrir Fjölnismenn með svörtu mönnunum. Marcin Dziuba, sá pólski, fórnaði peði með hvítu en missti tökin á stöðunni
Þegar hann reyndi að vinna peðið til baka með 24.Bxh6 var það á kostnað stöðunnar. 24…He6 25.Bg5 g6 og hvítur missir valdið á f3 riddaranum.
Jafntefli urðu á öðru og þriðja borði en Jesper Thybo náði að setja töluverðan stöðulegan þunga á Braga Þorfinnsson á fjórða borði og náði í vinning. Staðan orðin ansi vænleg fyrir Fjölnismenn en tveir af vöskustu liðsmönnum Víkinga, Björn Þorfinnsson og Jón Viktor Gunnarsson löguðu stöðuna.
Skák Björns gegn Sigurbirni var vægast sagt athyglisverð!
Sigurbjörn tefldi Vínarbragð og Björn ríghélt í peðið með 4…g5
Staðan varð mjög óræð og oft erfitt að tefla og meta svona stöður. Björn er þekktur fyrir sín „sullufótarfræði“ eins og gárungarnir kalla oft flækjurnar og líklegast var 10. leikur hvíts drottning til finnur tveir ekki réttur og Björn tók yfir.
Munurinn á liðunum reyndist því vera áttunda borðið en þar var c-peð Olivers Arons of sterkt en merkilegt nokk hafði Oliver tapað í umferðinni á undan fyrir góðu c-peði andstæðings síns.
Gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Fjölni sem setur þá í mjög góða stöðu á toppnum!
Taflfélag Vestmannaeyja – Skákdeild KR
Eins og liðin eru skipuð er mjög líklegt að þessi viðureign ráði miklu í botnbaráttunni þó auðvitað sé of snemmt að bóka eitthvað slíkt. Sveitirnar náðu ekki að slíta sig hvor frá annarri og jafntefli niðurstaðan.
Þrátt fyrir að gera sitt þriðja jafntefli í jafn mörgum skákum hefur Bram Van Den Berg vakið mikla athygli fyrir hressilega byrjanataflmennsku.
Hann bauð upp á „Wing-gambit“ í sikileyjarvörn að þessu sinni, 1.e4 c5 2.b4. Andstæðingur hans Þorsteinn Þorsteinsson er ekki þekktur fyrir að rugga bátnum og bauð jafntefli í 15. leik.
Arnþór og Bragi unnu fyrir TG en Helgi Ólafsson svaraði fyrir Vestmannaeyjar sem og Nökkvi Sverrisson sem vann í stuttri skák gegn Íslandsmeistara öldunga.
14.Bf6! og svartur getur gefið!
Jafntefli niðurstaðan og mjög líklegt að viðureign sömu liða í seinni hlutanum verði gríðarlega mikilvæg!
Taflfélag Reykjavíkur – Taflfélag Garðabæjar
Skemmst er frá því að segja að TR unnu nokkuð öruggan sigur í þessari viðureign.
Guðmundur hafði betur gegn Hannesi á fyrsta borði. Báðir virtust „mennta“ yfir sig…Guðmundur líklega minna!
Hjörvar svaraði fyrir Íslandsmeistarana með því að leggja Helga Áss að velli. Góð tök Hjörvars á c5 reitnum í miðtaflinu lögðu grunninn að sigrinum.
Restin fór 5,5-0,5 fyrir TR, það var aðeins Baldur Kristinsson sem náði að halda skiptum hlut í skemmtilegri skák í sikileyjarvörn.
Óvænt ritstjórnaruppgjör varð á sjötta borði milli Gunnars og Ingvars. Forsetinn tefldi mjög þétt með hvítu en fór of snemma í afgerandi aðgerðir. Þrátt fyrir það átti hvítur líklega jafntefli og svartur er mögulega í vandræðum…
37.He6 hefði verið erfitt að eiga við í tímahraki. Þess í stað lék Gunnar 37.Df5 en missti af 37…Dxc4+ og svartur náði svo fljótlega að þvinga drottningarkaup og hóta að ná óverjandi frelsingja á h-línunni.
Seinni umferð dagsins
Skákdeild Fjölnis – Taflfélag Garðabæjar
Fjölnismenn bættu bara í í seinni umferð dagsins. Mögulega er einhverskonar meistaraheppni komin í lið með Fjölnismönnum?
Jóhanna Björg hafði gjörunnið tafl fyrir Garðbæinga gegn Jóni Árna.
27.Hd8+ er t.d. kolunnið tafl en Jóhanna var slegin skákblindu og lék sig í mát 27.g3?? Dg2 mát
Sama gerðist á efsta borði. Hannes hafði teflt fína skák og lítið í taphættu en lék sig í mát í tveimur leikjum.
Hér dugar t.d. 52…Hh1 til að halda jafntefli en Hannes drap á f3 52…gxf3?? og eftir 53.Kc4! er mátið óverjandi!
6,5-1,5 sigur, líklegast of stór en fyllilega sanngjarn. Fær eitthvað stöðvað Fjölnismenn?
Skákdeild KR – Taflfélag Reykjavíkur
TR náði í notalegan 6-2 sigur gegn KR. Snemma virtist stefna í sigur og sömdu Ingvar og Helgi Áss í sínum skákum þar sem þeir komust ekkert áleiðis gegn sínum andstæðingum.
Þá þegar hafði Alexander Oliver náð „djöflatrikki“ gegn Braga Halldórssyni.
Alexander lék 4…Dd6!? lúmskur leikur sem virðist hóta skákinni á b4. Bragi svaraði 5.c3?? en sá leikur gefur hvítum tapað tafl! 5…Dh6!! og svartur vinnur e3 peðið óverjandi eftir 6.Rf3 g5!
Alexander Oliver var þó ekki fyrstur að klára. Það kom loks að því að Hollendurinn fljúgandi hjá KR-ingum „gambítaði yfir sig“. Sulypa var tilbúinn að mæta Fajarowicz gambítnum og vann auðveldlega.
Magnús Örn vann einnig stuttan og snaggaralegan sigur. Magnús teflir ekki mikið en hefur klassískan stíl, hefur teflt sínar „mainline“ byrjanir allan sinn feril og tefldi mjög góða skák gegn pirc-vörn.
6-2 fyrir strákana í Taflfélaginu!
Víkingaklúbburinn – Taflfélag Vestmannaeyja
Víkingaklúbburinn tók loks góðan sigur 6-2 á Vestmannaeyjum.
Hilmir Freyr náði einu sigurskák Vestmannaeyinga. Fínt að sjá landsliðsmanninn í góðu formi…stutt í EM landsliða!
Staðan í Kvikudeildinni:
Fjölnismenn unnið allar sínar viðureignir og hafa 8 stig. TR eru í öðru sæti en fá erfiða viðureign gegn Víkingaklúbbnum á morgun. Sú viðureign fer langleiðina með að skera úr um hvort liðið mun reyna að berjast við Fjölni um Íslandsmeistaratitilinn.
Deildin virðist ætla að verða tvískipt. Vestmannaeyjar, KR og TG berjast um fallið en hin liðin virðist eiga greiða leið í „málm“.
Beinar útsendingar verða frá öllum skákum í Kvikudeildinni á lichess og chess24 með 15 mínútna seinkun.
1. DEILD
Breiðablik a-sveit og Akureyri unnu bæði stóra sigra í 2. umferð og náðu 4,5 vinningi.
Sigur Blikanna e.t.v. óvæntur þar sem a-sveitin er mun stigahærri. Halldór Grétar og Kristján Halldórsson gerðu jafntefli en Guðrún Fanney Briem kom á óvart og lagði Arnar Milutin Heiðarsson að velli.
Breiðablik hélt áfram góðu gengi í seinni umferðinni en Skákgengið gerði þó vel að ná 2 vinningum. Thorbjorn Bromann vann á efsta borði og Páll Þórsson náði góðu höfuðleðri gegn Halldóri Grétari Einarssyni.
Staðan nokkurn veginn eins og við mátti búast. Breiðablik hafa 6 stig en Akureyri eru eina sveitin sem geta veitt þeim keppni, hafa 5 stig.
2. DEILD
KR-b og Akureyri-b virðast ætla að vera í sérflokki í þessari deild. Akureyri-b urðu þó að sætta sig við 3-3 jafntefli gegn Hrókum alls fagnaðar. KR unnu stórsigur á Breiðablik-c
Í seinni umferðinni unnu KR-b nauman sigur á TR-c en Akureyri-b gaf aðeins í gegn TR-d
KR-ingar því efstir, hafa unnið allar sínar viðureignir og hafa 6 stig og hafa aðeins misst niður 3,5 borðavinning. Akureyringar eru í öðru sæti með 5 stig.
3. DEILD
Í fyrri umferðinni mættust SSON sveitirnar innbyrðis og a-sveitin tók 4,5 vinning. Sauðárkrókur og Fjölnir sýndu að þær sveitir eru líklegar upp með stórsigrum!
Fjölnismenn b-sveit misstu jafntefli gegn Goðanum en Sauðárkróksmenn héldu uppteknum hætti og unnu góðan sigur á Vestmannaeyjum b-sveit
Sauðárkróksmenn efstir, hafa unnið allar sínar viðureignir og með 6 stig. Fjölnir b og SSON-a hafa leyft eitt jafntefli og er á fullu í baráttunni með 5 stig hvort félag.
4. DEILD
Dímon ætla að skera sig í gegnum andstæðinga sína eins og smjör. Liðið er ógnarsterkt og myndi allavega ógna sigri í 2. deild með þennan mannskap!
Í fyrri umferðinni vann Dímon 6-0 sigur á Taffélagi Vestmannaeyja c-sveit. C-sveit Skákfélags Akureyrar vann líka 6-0 sigur og Goðinn b-sveit ásamt Vinaskákfélaginu b-sveit hafa líka unnið báðar sínar viðureignir.
Eftir seinni umferðina á laugardeginum hafa aðeins tvær sveitir fullt hús. Dímon lagði Goðann b-sveit 6-0 og Akureyri c-sveit hafði betur gegn Vinaskákfélaginu b-sveit. Dímon mætir Akureyri c-sveit í næstu umferð.
Staðan
Lokaumferðirnar í fyrri hlutanum fara fram á morgun, sunnudag og hefst umferðin klukkan 11:00 í Rimaskóla.
Tímaritið Skák
Minnt er á að Tímaritið Skák verður hægt að nálgast á skákstað. Hægt verður að borga blaðið með greiðslukorti eða innlögn. Gjafverð á ritinu eða kr. 2.500. Gjöf en ekki gjald fyrir þetta gæðarit sem Gauti Páll á langmestan heiður af sem verður sífellt betra og betra með hverju tölublaði.
Fyrir þá sem ekki komast um helgina má panta blaðið á netinu sem verður sent í pósti eftir helgi. Sjá hér.