Skákdeild Fjölnis er að hefja sitt 20. starfsár. Líkt og áður er ferskleiki yfir starfinu. Skákæfingarnar skemmtilegar og fjölsóttar. Uppaldir Fjölniskrakkar halda tryggð við félagið enda þótt þeir séu sumir komnir á fertugsaldurinn og fluttir úr hverfinu.

Frammistaða Fjölnis á fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga sem tefld var um helgina sýnir að hæg en markviss uppbygging sé að skila sér í ánægjulegum árangri og mikilli samstöðu þeirra sem koma að skákdeildinni; skákmenn og skákkonur, foreldrar, félagið okkar og Rimaskóli sem hefur veitt ómetanlega aðstöðu í öll þessi ár.

Litháarnir gerðu það gott á mótinu.

Forysta A sveitar Fjölnis í Úrvalsdeild nú eftir fyrri hlutann er dýrmæt og fyllir okkur hjá skákdeildinni stolti. Í þessari mögnuðu sigursveit voru 5 ungir skákmenn á fyrstu 5 borðunum, meðalaldurinn 24 ár og allir á hraðri uppleið. Skákdeild Fjölnis hefur leitað til erlendra skákmanna enda aðeins einn íslenskur stórmeistari skráð sig í félagið frá byrjun. Undantekningarlaust hafa útlendingarnir verið ungir og áhugasamir skákmenn sem hafa gefið sig alla að berjast fyrir vinningum. Stórmeistarinn Sarunas Sulskis hefur verið vinur minn síðan að hann tefldi fyrir A sveit Fjölnis 2010. Í Litháen er mætt til leiks „fjórmenningaklíka“ með þá Paulius Pultinevicius, Valery Kazakouski, Tomas Laurusas og Titas Stremavicius. Þeir gengu allir í Skákdeild Fjölnis í ársbyrjun 2022 og átti Suskis þar hlut að máli. Nú mættu þrír þeirra til þátttöku í Kvikudeildina og vildu með því æfa sig aðeins fyrir EM landsliða í nóv. „Æfingin“ tókst býsna vel hjá drengjunum og skiluðu þeir allir 4,5 vinningum í 5 skákum, vel gert svo vægt sé til orða tekið. Vinirnir Jesper Thybo og Dagur Ragnarsson tefldu við hlið Litháanna á 4. og 5. borði.

Með ungu mönnunum í A sveit Fjölnis var reynd og traust bakvarðasveit, þeir Sigurbjörn J., Tommi Björns og Jón Árni á 6. – 8. borði.

B-sveitin að tafli.

B sveit Fjölnis tókst okkur loksins að manna almennilega og þá var ekki að sökum að spyrja að sveitin náði einnig í forystusæti í 3. deild og ætlar sér upp um deild að ári. Ekki síður glæsileg skáksveit,  jafnt hlutfall karla og kvenna. Jóhann Arnar og Sveinbjörn Jónsson með 100 % árangur og aðrir í sveitinni með 50%.

C sveitin er þriðja skáksveitin sem Skákdeild Fjölnis skráði til leiks. Þar eru grunnskólakrakkar, stelpur jafnt sem strákar, áberandi og frammistaðan algjörlega eftir væntingum.

Skákdeild Fjölnis þakkar andstæðingum öllum fyrir drengilega keppni, forystu Skáksambandsins fyrir öfluga mótsstjórn og þeim Þórönnu skólastjóra, Ragnari húsverði og Kidda kokki í Rimaskóla fyrir afnot af skólanum og að búa okkur góða aðstöðu fyrir mótshaldið.

Með skákkveðju   Helgi Árnason formaður Skákdeildar Fjölnis

- Auglýsing -