Öflugur Jóhann Hjartarson við taflið á Reykjavíkurskákmótinu í Hörpu. — Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Tvö íslensk lið, Víkingaklúbburinn og Skákfélag Akureyrar, tóku þátt í opna flokki Evrópumóts skákfélaga sem fram fór fram í Dürres í Albaníu og lauk um síðustu helgi en 84 skáksveitir tóku þátt í keppninni. Aðrir landar okkar á Evrópumótinu voru Margeir Pétursson og Óskar Bjarnason sem tefldu fyrir skákklúbb frá Lúxemborg. Evrópukeppnin, sem yfirleitt fer fram við góðar aðstæður á suðlægum slóðum, er stórskemmtileg; þarna ægir saman mörgum af bestu skákmönnum heims og svo ýmsum minni spámönnum sem finnst auðvitað bráðskemmtilegt að tefla innan um stjörnur á borð við Magnús Carlsen og Wisvanathan Anand. Norðmaðurinn var í fararbroddi fyrir Offerspil Sjakkklub og lagði grunninn að sigri sveitarinnar. Hann hlaut fimm vinninga af sex mögulegum og reyndist það besti árangur einstaklings í mótinu.

Víkingaklúbburinn tefldi fram Jóhanni Hjartarsyni á 1. borði, en aðrir í sveitinni voru bræðurnir Bragi og Björn Þorfinnssynir, Finninn Tapani Sammalvuo, Davíð Kjartansson, Páll Agnar Þórarinsson, Gunnar Freyr Rúnarsson og Sigurður Ingason.

Sveit Skákfélags Akureyrar var nær eingöngu skipuð félagsmönnum sem hafa haldið tryggð við sitt upprunafélag: Rúnar Sigurpálsson, Halldór Brynjar Halldórsson, Stefán Bergsson, Arnar Þorsteinsson, Andri Freyr Björgvinsson, Mikhael Jóhann Karlsson, Áskell Örn Kárason og Haraldur Haraldsson.

Þó að heiftarleg magapest hafi herjað á stóran hluta íslenska hópsins náðist samt ágætis árangur en Víkingaklúbburinn varð í 17. sæti með góðum endaspretti en sveitin vann þrjár síðustu viðureignir sínar og hlaut 10 stig af 14 mögulegum. Jóhann Hjartarson átti stærstan þátt í þessari ágætu frammistöðu. Hann tefldi fimm skákir og hlaut fjóra vinninga og náði árangri sem reiknast upp á 2.692 elo-stig. Í eftirfarandi viðureign náði hann að undirbúa sig vel fyrir afbrigði sem áður hafði komið fyrir í skákum mótstöðumannsins:

EM taflfélaga, Dürres Albaníu 2023,

Kaan Kucuksari – Jóhann Hjartarson

Benoni-vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. g3 c5 4. d5 exd5 5. cxd5 d6 6. Rc3 g6 7. Bg2 Bg7 8. Rf3 0-0 9. 0-0 He8 10. Bf4 a6 11. a4 Rh5 12. Bg5 Dc7 13. Dd2 Rd7 14. Hfc1 Hb8 15. Hab1 Rdf6!?

Sjá stöðumynd 1.

Sjaldséður leikur en athyglisverður. Svartur hefur í hyggju að leika – Bf5 ef færi gefst.

16. Rh4 b5?!

Jóhann taldi 16. … Rg4 betra. Nú getur hvítur skorðað peð svarts á drottningarvæng.

17. axb5 axb5 18. b4 c4 19. h3?

 

Ónákvæmt. Eftir 19. Be3! má hvítur vel við una.

19. … Db6! 20. Kf1

Hvítur hótaði 20. … Rxg3 en það kemur samt!

20. … Rxg3! 21. fxg3 Rh5 22. De1 Be5 23. Bf4 Rxf4 24. gxf4 Bxf4

Þessi biskup er stórveldi og það vantar allan samgang í hvítu stöðuna.

25. Hc2 He3 26. Bf3 Bxh3+ 27. Rg2 Bf5

Jafnvel enn sterkara var 27. … Dd8 en úrvinnsla Jóhanns er fumlaus allt til enda.

28. Rxe3 Dxe3 29. Hcc1 Bxb1 30. Hxb1 Be5 31. Rd1 Dg5 32. Rf2 f5 33. Ha1!?

Svörtu peðin eru á leiðinni og hvítur reynir að finna eitthvert mótspil.

33. … Bxa1 34. Dxa1 De3 35. Rd1 Dd2 36. Rc3 Dd4

Laglegur leikur sem hindrar allt mótspil. Nú er eftirleikurinn auðveldur.
37. Dc1 Kg7 38. e3 De5 39. Re2 Ha8 40. Rc3 h5 41. Kg1 h4 42. Bg2 g5 43. Kh1 g4 44. Bf1 h3 45. De1 Ha3 46. Rd1 Ha1 47. Dd2 c3 48. Dc2 De4+

– og hvítur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 14. október 2023

- Auglýsing -