Sjötta keppnisdegi HM ungmenna í skák í Montesilvano á Ítalíu lauk fyrr í dag.
12 Íslendingar taka þátt og eru þeir í eftirfarandi fimm flokkum:
Opinn flokkur U18
FM Aleksandr Domalchuk-Jonasson
Benedikt Briem
Benedikt Þórisson
Þorsteinn Jakob F Þorsteinsson
Opinn flokkur U16
Ingvar Wu Skarphéðinsson
Adam Omarsson
Stúlnkaflokkur U16
Iðunn Helgadóttir
Opinn flokkur U14
Mikael Bjarki Heiðarsson
Matthías Björgvin Kjartansson
Markús Orri Jóhannsson
Markús Orri Óskarsson
Stúlnkaflokkur U14
Guðrún Fanney Briem
Fararstjórar og þjálfarar í ferðinni eru þeir FT Björn Ívar Karlsson og Gauti Páll Jónsson.
Það hefur gengið upp og niður á HM ungmenna síðustu daga. Veðrið hefur líka í sama gír, mikill vindur af og til og meira að segja þrumur og eldingar. Það var þó sól og blíða þegar keppendur mættu til leiks í 6. umferð mótsins. Árangurinn í dag var ágætur. Í dag er mótið fyrst rúmlega hálfnað. Enn eru eftir fimm umferðir og nú fer virkilega að reyna á úthald og þrek keppenda. Íslenski hópurinn setti sér það markmið fyrir mótið að stunda daglega hreyfingu og því hafa krakkarnir fylgt eftir.


Opinn flokkur U18
FM Aleksandr Domalchuk-Jonasson hafði hvítt gegn Norðmanninum FM Unneland. Upp kom Nimzo-indversk vörn og Aleksandr breytti út af sinni hefðbundnu leið, 4. Dc2, en tefldi í staðinn Rubinstein-afbrigðið með 4. e3. Unneland var með fræðin á hreinu og jafnaði taflið nokkuð þægilega. Aleksandr reyndi sitt besta en náði ekki að búa neitt til og jafntefli samið.
Benedikt Briem bauð enn einu sinni upp á katalónska byrjun og að þessu sinni módelskák fyrir hvítan. Fórnarlambið hér var Fidemeistari frá Austurríki, Nico Marakovits. Það var athyglisvert að fylgjast með tölvumatinu í skákinni frá byrjun og í miðtaflið. Talan sem fljótt varð +1 skreið smám saman upp, í hægum skrefum, í +5. Staldrað var við í nokkra stund á leiðinni í +2, +3 og +4. Það þurfti ekki meira en einn stöðulegan afleik svarts, þegar hann lék bxa4, og Benedikt byggði upp óstöðvandi pressu á drottningarvæng.

Benedikt Þórisson hafði svart gegn Slóvakanum Brnusak. Upp kom Sikileyjarvörn og Benedikt var með byrjunina á hreinu. Ein ákvörðun eftir byrjunina breytti gangi mála en Benedikt gat þá valið um að fara í uppskipti á drottningum og einfalda taflið eða halda þeim inni á borðinu og eiga möguleika á kóngssókn. Hann valdi fyrri kostinn og við það náði hvítur tökum á stöðunni með biskupapari sínu. Benedikt réð því miður ekki við færin sem hvítur fékk og tapaði.
Þorsteinn Jakob F Þorsteinsson hafði svart gegn Meskenas frá Danmörku. Upp kom mikið þrætubókarafbrigði í Caro-kann vörn sem Þorsteinn Jakob hefur skoðað vel. Hann fórnaði peði og Meskenas átti í mestu vandræðum með að verjast sterkum biskupum sem stefndu að kóngi hans. Á einum tímapunkti átti Þorsteinn Jakob fléttu þar sem hann hefði getað fórnað drottningu fyrir mátsókn. Hann missti af henni og skákin leystist upp í jafntefli í framhaldinu.
Opinn flokkur U16
Ingvar Wu Skarphéðinsson tefldi Lundúnakerfið með hvítu gegn Leo Kalin frá Ástralíu. Ingvar stofnaði til uppskipta of snemma og missti þar með frumkvæðið í stöðunni og skákin endaði með að kveikt var á friðarpípunum. Ingi R. Jóhannsson heitinn varaði einhvern tímann menn við að “redúsera prímtíft” en Ingvar gerðist sekur um það í dag!
Adam Omarsson fékk svart gegn skákmanni frá Kósóvó og upp kom Larsen byrjun. Eitthvað misskildi hvítur byrjunina og fékk nánast óteflandi stöðu. Vígalegur var biskup Adams á d3! Eftir rétt rúma 30 leiki stefndi í mát eða mjög mikið liðstap. Það liggur við að Adam fái tvo frídaga!

Stúlnkaflokkur U16
Iðunn Helgadóttir fékk upp nokkuð athyglisverða stöðu í Lundúnakerfinu biskup er tekinn á f5 og peð á b2, þar sem hrókurinn á a1 fellur. Þetta eru stöður sem geta komið upp eftir ýmsar leikjaraðir. Þessi tiltekna staða er jöfn samkvæmt tölvunum. Hins vegar, tefldi Remy Al Asmar framhaldið ekki nógu vel og vann Iðunn lið og fljótlega eftir það skákina. Ágætis skák hjá Iðunni.

Opinn flokkur U14
Mikael Bjarki Heiðarsson missti þráðinn snemma þegar hann fékk á sig óvænt og sjaldgæft afbrigði í byrjun. Mikael fann hins vegar ágætis leiki, og andstæðingur hans fann líka undarlega leiki (sem voru að hans sögn mjög góðir) og komst okkar maður aftur inn í skákina. Þá urðu því miður aftur eigendaskipti og austurríkismaðurinn Julian Brown náði að vinna skákina í annað sinn.
Matthías Björgvin Kjartansson hafði svart gegn Azeranum Davudov. Upp kom katalónsk byrjun og Matthías leysti öll vandamálin og fékk ívið betra tafl þegar miðtaflið nálgaðist. Í stað þess að halda mönnunum inni á borðinu stofnaði Matthías til mikilla uppskipta. Þá hafði hvítur örlítið betra tafl í endataflinu og náði að kreista fram vinning eftir langa baráttu.
Markús Orri Jóhannsson tefldi mjög langa og erfiða skák. Eftir byrjanataflmennsku hvíts, Mareks Durovka, sem er að mínu mati ekki til útflutnings var staðan í járnum, en á einum tímapunkti missti Markús af taktík og tapaði peði. Hann tefldi hins vegar vörnina glimrandi vel. Fékk færi á drottningarvæng, og hélt sóknartilburðum hvíts á kóngsvæng í skefjum framan af. Í tímahraki kom þó á daginn að slóvakinn var sá sem lék næstsíðasata afleiknum og Markús tapaði.
Markús Orri Óskarsson tefldi þessa skák eins og herforingi eftir “stutta hrókun” í síðustu skákum. Vel tímasettur e5 leikur í miðtafli gegn hinu sívinsæla Lundúnakerfi tryggði þægilegri stöðu. Því fylgdi, nánast alveg upp úr þurru, óverjandi mátsókn, enda voru svörtu reitirnir í herbúðum hvíts afar veikir.

Stúlnkaflokkur U14
Guðrún Fanney Briem hafði hvítt gegn Dukic frá Bosníu. Dukic féll í byrjunargildru og tapaði á manni á frekar einfaldan hátt. Þar með var skákin í rauninni búin og lítið meira um hana að segja, þrátt fyrir að Dukic hafi barist áfram. Þægilegur dagur hjá Guðrúnu Fanneyju.

Á morgun er frídagur á mótinu. Þá ætlar hópurinn að gera sér ferð inn í Pescara sem er nærliggjandi borg. Skoðunarferð og verslunarferð, fyrir þá sem það kjósa. Dagurinn mun svo enda á veitingastaðnum Wood. Meira um það síðar!

Opinn U18
Opinn U16
Stúlkur U16
Opinn U14
Stúlkur U14
chess.com
chess24
Opinn flokkur U18 á chess-results
Opinn flokkur U16 á chess-results
Stúlknaflokkur U16 á chess-results
Opinn flokkur U14 á chess-results
Stúlknaflokkur U14 á chess-results