Segja má að skyldusigrar hafi unnist hjá báðum liðum á Evrópumóti landsliða í Búdva í Svartfjallalandi. Fyrirfram hefði kannski ekki verið hægt að kalla finnska kvennaliðið skyldusigur en eftir að í ljós kom að íslenska liðið fengi gefins vinning kom eiginlega ekkert annað til greina.

Opinn flokkur

Skoska liðið ekki sterkt á pappírnum (miðað við standardinn á mótinu) og hafði í raun gengið eftir því. Skilyrðislaus krafa var sett á liðið að vinna sigur hér og það öruggan!

Hjörvar og Vignir hlýddu kallinu með hvítu mönnunum og settu tóninn tiltölulega snemma. Vignir var fyrstur á þriðja borði. Andstæðingur hans tefldi Benoni og Vignir valdi Rf3-d2 línuna sem er mjög traust. Mitchell sýndi ákveðið skilningsleysi á stöðunni en leikur hans …Dc7 er ekki í anda stöðunnar í þessu tiltekna afbrigði.

Sigurinn varð nokkuð auðveldur þó 16.a5 hefði lokað búðinni nokkuð skammalaust aðeins fyrr. Vignir þurfti að hafa aðeins meira fyrir hlutanum en baráttuþrek Skotans var eitthvað minna en hjá William Wallace forðum daga og hann gafst upp í erfiðri stöðu.

Hjörvar tefldi hvasst á fyrsta borði og fórnaði snemma manni. Mannsfórnin virðist standa nokkuð vel á hvítt og svartur í erfiðum málum, þrátt fyrir sigur Kasparovs með svörtu í þessu afbrigði gegn Anand árið 1995. 13…f5? hjá Muir virtist nokkuð slakur og Hjörvar virtist eiga auðvelt með að eiga við verkefnið eftir það.

Hannes virtist vera að hrista af sér slen síðustu daga og varðist hvössu afbrigði Morrison vel. Hannes hékk á umframpeðinu og Morrison fórnaði skiptamun en hafið litlar bætur fyrir. Hannesi urðu þá mislagðar hendur og leyfði fórn sem þvingaði jafntefli. Ef eitthvað er getur hvítt þó reynt eitthvað og Hannes lék af sér með 40…Kg8?? sem leyfir 41.Re7 og hvítur stendur líklegast til vinnings. Sem bet fer tók Skotinn þráskákina í staðinn.

Þá var loks komið að „sviðna“ Skotanum en það var Jonathan Grant. Skákin var búin að hanga í tölvumati í kringum núllið í 55 leiki. Þar hefðu margir sætt sig við jafnteflið en Guðmundur er oft ansi þrjóskur í svona stöðum. Hann gaf umframpeðið sem hann hafði haft svo mikið fyrir að vinna.

Staðan hékk enn í 0.00 en nú fór Skotinn allt í einu að gæla við það að vinna skákina og ýtti f-peði sínu áfram. Það reyndist ógæfuspor og allt í einu var það Guðmundur sem kreysti einhvern ótrúlegan svíðing fram úr erminni.

Niðurstaðan því 3,5-0,5 sigur sem er vel ásættanlegt.

Næst bíða frændur okkar Danir en þeir lágu gegn Norðmönnum í dag. Skák Jonas Buhl Bjerre við heimsmeistarann Magnus Carlsen var stórskemmtileg. Magnus var frumlegur í byrjuninni með 1…Rc6, fórnaði svo skiptamun og hafði loks tvo menn fyrir drottningu. Jafntefli niðurstaðan.

Toppbaráttan í opna flokknum virðist ætla að verða æsispennandi. Englendingar og Þjóðverjar gerðu jafntefli á öllum borðum í uppgjöri efstu liðanna. Serbar unnu óvæntan sigur á Rúmenum og Ivan Sokolov liðsstjóri þeirra og Íslandsvinur ekki sáttur!

Englendingar, Þjóðverjar og Serbar hafa öll 11 stig en svo koma Frakkar, Armenar og Grikkir með 10 stig.

Stigahæsta lið mótsins Azerbaijan er algjörlega í ruglinu, steinlágu í dag gegn sveit Moldóva 1-3!

Kvennaflokkur

Viðureign okkar við Finna í kvennaflokki hófst eiginlega þremur og hálfum tíma fyrir áætlun! Tveir liðsmenn Finna fundu liðsstjóra íslenska liðsins sem var að koma úr göngutúr og var mikið niðri fyrir. Finnarnir höfðu gleymt að skila inn liðsuppstillingu fyrir daginn og þar af leiðandi var varamaður þeirra inná.

Paasikangas hafði samband við liðsstjóra íslenska liðsins

Kvöldið áður höfðum við litið á liðið og gert ráð fyrir að Finnar hefðu engan varamann enda höfðu sömu fjórar stelpur teflt allar skákirnar fyrstu sex umferðirnar. Okkur var því vel brugðið þegar allt í einu kom nýr liðsmaður inná, Tanja Tuominen. Á daginn kom að hún var einfaldlega ekki á svæðinu en ekki náðist að taka hana úr liðsuppstillingunni. Það þýðir að liðsstjóri Finna þarf að tilkynna liðið því annars stillist „aðalliðið“ upp sjálfkrafa. Þetta gleymdist og var ástæða erindi Finnana við liðsstjórann.

Því miður var ekki hægt að breyta liðsskipan en hún er föst eftir að hún hefur verið birt. Þar með var ljóst að viðureignin byrjaði með 1-0 forystu íslenska liðsins. Jóhanna hefði átt að fá svart í sinni skák þannig að við áttum tvo hvíta eftir.

Hallgerður hafði hvítt gegn Heini Puuska á fjórða borði. Hallgerður lagði hana á Evrópukeppni Taflfélaga fyrir skemmstu en í þetta skiptið var Puuska vandanum vaxinn og tefldi mjög vel með svörtu. Hallgerður fékk aldrei tækifæri á að tefla til vinnings.

Hallgerður hefður staðið sig best Íslendingana og skilað 2,5 af 3 í hús í síðustu umferðum.

Anastasia á fyrsta borði hjá Finnunum er sterk skákkona. Hún gaf Olgu eiginlega ekki færi á að komast inn í skákina með svörtu. Afbrigðið auðvitað vandmeðfarið en ef svartur „kemst inn“ er allt í góðu. Sú finnska var hinsvegar vandanum vaxinn og tefldi feykilvel enda hefur hún dregið vagninn fyrir liðið.

Staðan hér orðin 1,5-1,5 þrátt fyrir forgjöfina og því ræðist viðureignin á skák Lenku við Paasikangas.

Lenka hafði betra lengst af en sú finnska tefldi feykivel og hélt velli í miðtaflinu. Í 38. leik hefði hún getað gleypt peð sem hefði líklega endað vinningslíkur hvíts. Sem betur fer missti hún af tækifærinu og Lenka tefldi endtaflið eins og Magnus Carlsen og sigldi mikivægum sigri heim fyrir íslenska liðið sem nú hefur 5 stig.

Næst á dagskrá er sveit Austurríkis. Þær eru nokkuð þéttar og hafa eiginlega allar um og yfir 2100 skákstig. Nokkrar í sveitinni okkar tæpar en vonandi náum við góðri hvíld og mætum tilbúin í erfiða viðureign.

Búlgaría er efst í kvennaflokki með 12 stig en Frakkland og Azerbaijan fylgjan á eftir með 11 stig.

Í gær benti ég á hina þrælskemmtilegu Eline Roebers en hún teflir ávallt skemmtilegar skákir. Það má einnig mæla með hinni grísku Stavroulu Tsolakidou

Hér hefur hún svart gegn Thanh Trang Hoang frá Ungverjalandi. Hvítur var að leika 22.Rb6?? sem gaf svörtum kost á sleggju 22…Rxf2!! framhaldið varð 23.Bxf2 Hxb6 24.Bxb6 Dxb6+ og svarta staðan vinnur sig sjálf!

2644 performance hjá Stavroulu og eiginlega öruggur stórmeistaraáfangi eins og hún er að tefla.

Áttunda umferð á morgun og nú er mikilvægt að ná góðum endaspretti.

- Auglýsing -