Íslensku liðin unnu bæði glæsilega sigra á sterkari andstæðingum, allavega ef mið er tekið ef pappírnum góða! Liðin eru því bæði í góðum málum fyrir lokaumferðina á Evrópumóti landsliða hér í Budva í Svartfjallalandi. Liðin mæta Tyrkjum í lokaumferðinni, bæði í opnum flokki og kvennaflokki. Skemmtileg tilviljun að flugið var frá Sviss og kvennaliðið mætti Sviss í fyrstu umferð, í lokaumferðinni er það Tyrkland og heimferðin verður einmitt í gegnum Tyrkland!
Opinn flokkur
Danir nokkuð ofar en við í styrkleikaröðinni og með stórmeistara á öllum borðum. Hannes hvíldi og Hjörvar mætti Jonas Buhl Bjerre sem væntanlega hefur verið fullur af sjálfstrausti eftir jafntefilð við Carlsen í gær.
Ungur strákarnir voru fyrstir til að klára. Vignir reyndi að koma Mads á óvart með skoska leiknum en kom ekki að tómum kofanum hjá Dananum. Segja má að Vignir hafi verið að tefla upp á jafntefli fljótlega eftir byrjunina en hann lenti í smá pirrandi vörn í hróksendataflinu þar sem Mads hafði umframpeð. Daninn missti af tveimur vænlegum leiðum þannig að varnir Vignis héldu, með herkjum!
Hilmir tefldi öllu lengri skák á fjórða borði. Hilmir hafði betri stöðu eftir byrjunina og snemma í miðtaflinu en náði aldrei að fá nægjanlega yfirburði til að tefla til vinnings og Daninn smátt og smátt jafnaði leikana í endataflinu.
Strákarnir eiga auðvitað allir hrós skilið fyrir góða taflmennsku og baráttu en Hjörvar fær extra hrós en hann gerði sigurinn mögulegan með því að leggja að velli vonarstjörnu Dana.
Hjörvar er auðvitað að fá gríðarlega sterkt prógram á efsta borði og virðist hreinlega vera að tefla sig í gang, „gamla Hjörvar“. Hjörvar hafði svart og var gríðarlega vel undirbúinn. Staðan sem kom upp var á eldhúsborðinu fram að …Rc8 þar sem Hjörvar er að koma með endurbót á skák frá Duda.
Staðan er samt mjög krefjandi á báða en Hjörvar náði að vinna betur úr flækjunum og komst í endatafli peði yfir sem hann tefldi gríðarlega vel.
Nú var aðeins eftir skák Guðmundar en þar blés ekki byrlega. Guðmundur hafði teflt vel framan af skákinni en framrás hans með e-peðið í endataflinu var of mikil veiking. Íslandsvinurinn Thybo fékk unnið tafl með glás af umframpeðum í endataflinu. Sigurinn var þó ekki alveg auðsóttur og nú fór Guðmundur að verjast af miklum krafti og hafði að lokum úr farteskinu endataflið hrókur gegn hrók og riddara sem hann náði að verja í um 50 leiki!
Gríðarlega mikilvægt jafntefli hjá Guðmundi sem tryggir sætan sigur á Dönum.
Íslenska liðið hefur nú 8 stig og mætir enn einu grjóthörðu liðinu, Tyrkjum í lokaumferðinni.
Ljóst er að Evrópumeistaratitilinn fer til Serbíu eða Þýskalands. Serbar væru þá að vinna í fyrsta skiptið en Þjóðverjar hafa unnið mótið áður. Bæði lið hafa 13 stig en svo hafa fjögur lið 11 stig í 3-6. sæti.
Í lokaumferðinni mætast Króatía og Þýskaland á meðan að Serbar mæta Grikkjum. Vera má að oddastig ráði úrslitum og í þeirri deild gæti íslenska liðið hjálpað Serbum. Þetta verður spennandi á morgun.
Magnus Carlsen er með besta árangurinn á efsta borði skv. rating performance og hefur staðið sig vel.
Kvennaflokkur
Íslenska liðið tefldi upp fyrir sig aftur og fékk þétta sveit af WFM og WIM allar með um og yfir 2100 elóstig og nokkuð hærri en við. Munurinn var þó mestur á neðri borðum á meðan við vorum stigahærri á efsta borði.
Olga tefldi af rosalegum krafti gegn Taimanov afbrigði sikileyjarvarnarinnar. Olga með hvítt fórnaði manni og setti þunga pressu á efsta borð Austurríkiskvenna. Staðan er vissulega betri á svart í tölvunum en það er stutt í mistökin.
Sú austurríska má eiga það að þrátt fyrir tímahrak tefldi hún vörnina mjög vel lengst af en tímahrakið kostaði í lokin. Trippold féll á tíma en þá hafði Olga loks náð að snúa stöðunni sér í hag og var komin með unnið tafl.
1-0 með alvöru kraftataflmennsku!
Fljótlega snerist stríðsgæfan enn betur með okkur í lið. Lenka fékk vinning fljótlega eftir að Olga kláraði. Lenka hafði lent í mikilli vörn meö svörtu, einmitt líka í Taimanov afbrigði sikileyjarvarnar. Peðaátin hjá Lenku voru líklegast óholl og hvítur hefði líklegast fengið vænlegt tafl með 22.Bxd5!
Lenka náði að verjast þungri sóknarbylgju hvíts og komst í hálfgert endatafl en þar lék sú austurríska strax skelfilega af sér og annar vinningur í hús.
Austurríkismenn minnkuðu fljótlega muninn en Jóhanna var með tapað tafl þegar 2-0 forystan náðist. Jóhanna hafði þó haft mun betra tafl, raunar kolunnið samkvæmt tölvunum.
15.Rh4!! er þó ekki auðvelt að sjá en staðan er kolunnin. Svartur verst ekki eftir 15…gxh5 16.Dxh5 eina tilraunin er 16…Bf5 en eftir 17.Rxf5 Bxe1 kemur 18.Dh6! og ef 18…Dd7 klára 19.Be6! dæmið.
Kaldhæðni kannski að þetta var eina staðan sem var mun betri á okkur en vinningarnir komu samt úr hinum skákunum!
Staðan nú 2-1 fyrir okkur en því miður voru Austurríkismenn með líklegast unnið tafl á fjorði borði, peði yfir. Hallgerður hefur oft náð í punkta í þessum liðakeppnum með mikilli keppnishörku, líkt og Guðmundur sýndi hún hana hér enn og aftur.
Viðureignin vannst á afleik þeirrar austurrísku í 41. leik þegar hún lék 41.h6??
Skyndilega bar langt kóngsferðalag svarta kóngsins árangur. 41…Hxe7! þar sem kóngurinn hótar hróknum vinnur svartur mann. Hallgerður hefði að sjálfsögðu getað teflt lokastöðuna til vinnings en jafnteflið tryggði góðan og mikilvægan sigur.
Kvennaliðið er nú komið með 7 stig sem er að öllum líkindum met hjá íslensku kvennaliði á Evrópumóti landsliða. Liðið mun reyna að bæta við í viðureign við Tyrki á morgun. Síðast þegar þessi lið mættust vann íslenska liðið sigur. Þá lagði Lenka t.d. Atalik á efsta borði.
Búlgarska kvennasveitin er enn efst með 14 stig en Azerar eru vinningi á eftir með 13. Búlgarar fá þó erfiða pörun í lokaumferðinni þar sem þær mæta stigahæsta liðinu, Georgíu.
Mótinu lýkur á morgun en umferðin þó á sama tíma og venjulega.
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results (opinn flokkur)
- Chess-Results (kvennaflokkur)
- Beinar útsendingar (opinn flokkur)
- Beinar útsendingar (kvennaflokkur)
- Beinar lýsingar