Sjöunda keppnisdegi HM ungmenna í skák í Montesilvano á Ítalíu lauk fyrr í dag.
12 Íslendingar taka þátt og eru þeir í eftirfarandi fimm flokkum:
Opinn flokkur U18
FM Aleksandr Domalchuk-Jonasson
Benedikt Briem
Benedikt Þórisson
Þorsteinn Jakob F Þorsteinsson
Opinn flokkur U16
Ingvar Wu Skarphéðinsson
Adam Omarsson
Stúlnkaflokkur U16
Iðunn Helgadóttir
Opinn flokkur U14
Mikael Bjarki Heiðarsson
Matthías Björgvin Kjartansson
Markús Orri Jóhannsson
Markús Orri Óskarsson
Stúlnkaflokkur U14
Guðrún Fanney Briem
Fararstjórar og þjálfarar í ferðinni eru þeir FT Björn Ívar Karlsson og Gauti Páll Jónsson.
Sunnudaginn 19. nóvember fékk íslenski hópurinn langþráðan frídag sem flestir þátttakendur nýttu í kaupstaðarferð til Pescara, nærliggjandi borgar. Sumir fóru í verslunarleiðangur meðan aðrir spókuðu sig um borgina í sólinni. Hópurinn fékk einnig kennslustund frá GPJ í svokallaðri kaffihúsataflmennsku, sem snýst mest um að skilja menn eftir í dauðanum fyrir afar óljósar bætur og passa sig á að sitja réttu megin borðsins svo andstæðingarnir fái sólina í augun.
Hópurinn hafði þó ákveðið eina sameginlega dægradvöld þennan daginn: Fara út að borða á pizzastað við höfnina, steinsnar frá stórri og mikilli göngubrú. Þar gæddi fólk sér á ekta ítölskum pizzum!

Opinn flokkur U18
FM Aleksandr Domalchuk-Jonasson fékk nánast ókeypis vinning í skák dagsins þegar Bayaraa Chinguun lék af sér manni í 17. leik og þar með skákina. Lítið annað um þessa skák að segja!
Benedikt Briem hafði svart á Norðmanninn Elmi. Sá hefur vakið töluverða athygli að undanförnu fyrir góðan árangur við skákborðið. Upp kom ítalskur leikur eins og reiknað hafði verið með. Benedikt fékk ágæta stöðu eftir byrjunina, smá pressu á kóngsvæng en Elmi hafði biskupaparið. Eftir uppskipti á drottningum lifnaði aðeins yfir biskupapari Elmi og hann náði miklum tökum á stöðunni. Hann skipti svo upp í endatafl þar sem hann hafði frípeð á a-línunni sem Benedikt réð ekki við.

Benedikt Þórisson hafði heldur betra tafl eftir byrjunina og virtist þekkja stöðutýpuna betur. Því miður lék hann slæmum afleik sem lúmskur Alexandre de Maupéou d’Ableiges tók eftir og vann peð. Benedikt var þó traustur í vörninni og beið færis átekta. Eftir heppileg uppskipti sem höfðu verið lengi í vinnslu á g-línunni kom upp endatafl sem var ívið betra á hvítt. Kom þar við sögu biskupsvöldunin fræga á hálfrhring riddarans. Seiglusgur.

Þorsteinn Jakob F Þorsteinsson fékk á sig vinsæla leið í dag gegn Alapin kerfinu í Sikileyjavörn, en hafði ekki gott svar á reiðum höndum. Við tók erfið vörn en þó með ágætis færum inn á milli, sem Eugene Yoo hélt þó vel í skefjum. Í endatafli komu ónákvæmir leikir og Þorsteinn tapaði.
Opinn flokkur U16
Ingvar Wu Skarphéðinsson hafði svart gegn Alhejab frá Kúveit. Upp kom frönsk vörn og Ingvar tefldi byrjunarleikina ónákvæmt. Það má segja að hann hafi stungið höfðinu í gin ljónsins. Blessunarlega stakk andstæðingur Ingvars höfðinu í sandinn og fann ekki bestu leikina í framhaldinu. Ingvar náði að snúa talfinu sér í vil og innbyrti sigurinn.
Adam Omarsson hafði hvítt gegn heimamanninum Fava. Upp kom drottningarbragð og Adam fékk ágæta stöðu eftir byrjunina. Eftir flækjur í miðtaflinu kom upp endatafl þar sem keppendur höfðu mislita biskupa en svartur var peði yfir. Adam missti af bestu vörninni og tapaði að lokum.
Stúlnkaflokkur U16
Iðunn Helgadóttir hafði hvítt gegn Janouskova frá Tékklandi. Fyrir skákina höfðum við leitað að veikleikum í hollenskri vörn þeirrar tékknesku og fundið eina leið sem ákveðið var að stefna að. Iðunn fékk upp nákvæmlega það sem var skoðað fyrir skákina og hafði auðvelt plan, að hrókera langt og ýta h-peðinu sínu. Planið gekk fullkomlega upp og Iðunn vann vel útfærða skák.

Opinn flokkur U14
Mikael Bjarki Heiðarsson hafði hvítt gegn Espinosa frá Mexíkó. Upp kom drottningarbragð og Mikael fékk góða stöðu eftir byrjunina. Svartur valdi afbrigði þar sem skipt er upp á drottningum og svartur tekur á sig veikleika í peðastöðunni. Það þarf ákveðna lagni og þolinmæði hjá hvítum til þess að gera sér mat úr stöðulegum yfirburðum í afbrigðinu. Mikael valdi líklega ekki nákvæmustu leiðina og varð planlaus í framhaldinu. Eftir flækjur í miðtaflinu fékk andstæðingurinn hættuleg færi og þá var farið að saxast töluvert á tíma Mikaels sem missti þráðinn og tapaði. Mikael á mikið inni á mótinu og stefnir á góðan endasprett.
Matthías Björgvin Kjartansson tefldi að eigin sögn eina af bestu skákum ævi sinnar í dag. Hann beitti Saemish afbrigðinu gegn Nimzo-indverskri vörn og fékk upp dæmigerða sóknarstöðu á kóngsvæng, en svartur hafði lokað miðborðinu of snemma sem auðveldaði fyrir hvítum. 24. f5 var glæsilegur leikur og í framhaldinu tefldi Matthías sóknina mjög vel, sem endaði með kolunnu endatafli gegn Hollendingnum Wouter Terlouw.

Markús Orri Jóhannsson hafði svart gegn Yamson frá Filippseyjum. Upp kom ítalskur leikur og staðan varð samhverf og heldur líflaus. Markús gerði sitt besta til þess að búa til vinningsmöguleika en andstæðingur hans lagði sig fram um að skipta upp á öllum mönnunum. Þegar allt kom til alls varð jafnteflið ekki umflúið.
Markús Orri Óskarsson hafði hvítt gegn Svíanum Ral Lustig. Upp kom kóngs-indversk vörn og Markús valdi Saemisch afbrigðið. Hann hóf miklar sóknaraðgerðir á kóngsvæng, sem litu ógnandi út, en líklega hafa þær verið full snemma á ferðinni því Markús Orri varð eftir á í liðsskipan. Svíinn var úrræðagóður í vörninni og náði að mynda sér mótspil á drottningarvæng. Markús komst aftur inn í skákina en hættuleg frípeð Svíans gerðu vörnina erfiða. Eftir harða baráttu varð Markús að leggja niður vopn.
Stúlnkaflokkur U14
Guðrún Fanney Briem fékk upp eldhúsborðsstúderingarnar eins og þær lögðu sig, og fékk þar afl leiðandi ágæta stöðu með svart. Það vakti þó athygli íslenska hópsins, að rétt tæplega 1400 stiga víetnömsk stúlka skyldi tefla af svo virkilega nákvæmt í fyrri hluta skákarinnar. Guðrún Fanney vann peð en andstæðingur hennar hafði biskupaparið og góðar bætur fyrir. Þá lék Guðrún Fanney af sér skiptamun og reyndi sitt besta að berjast en allt kom fyrir ekki og sú víetnamska tefldi óaðfinnanlega í framhaldinu.





Opinn U18
Opinn U16
Stúlkur U16
Opinn U14
Stúlkur U14
chess.com
chess24
Opinn flokkur U18 á chess-results
Opinn flokkur U16 á chess-results
Stúlknaflokkur U16 á chess-results
Opinn flokkur U14 á chess-results
Stúlknaflokkur U14 á chess-results