“Framtíðin er björt.” Þessi hugsun læddist að greinarhöfundi að afloknu Stúlkna- og
drengjameistaramóti Taflfélags Reykjavíkur í dag. Má nefna ýmis rök fyrir því. Fyrir það fyrsta var þetta einhver mesta, ef ekki hreinlega almesta, þátttaka í þessu móti frá upphafi, en 78 krakkar á öllum aldri háðu baráttu á reitunum 64. Er þetta í takt við þátttökuaukningu í ýmsum barnamótum undanfarið og er eflaust afleiðing af metnaðarfullu barna- og unglingastarfi ýmsra taflfélaga sem glæsilegt er.
Um morguninn fóru fram tveir yngstu flokkarnir, en í ár var í fyrsta sinn boðið upp á þrjá yngri flokka í þessu móti. Hefur sú nýbreytni mælst svo vel fyrir að greinarhöfundi kæmi ekki óvart þó bætt yrði við einum yngri flokknum enn á næsta ári. Verður líka að hrósa sérstaklega þessum yngstu krökkum fyrir prýðis einbeitingu og hegðun við skákborðið. Eru þar eflaust margir upprennandi mótaskákmennirnir.
Víkjum þá sögunni að úrslitunum. Í yngsta flokki, 6 ára og yngri (f.2017 og síðar) vann Patrekur Einarsson öruggan sigur, en hann fékk fullt hús vinninga eða 4. Í öðru sæti var Högni Þórisson hálfum vinningi á eftir og svo Mikael Már Atlason hálfum vinningi þar á eftir í þriðja. Sérstaka viðurkenningu fengu yngstu keppendurnir, hin 5 ára Yousef Besaiso og Ingibjörg Lóa Héðinsdóttir, en þau stóðu fyrir sínu og vel það.
Næstyngsti flokkur, 7-8 ára (f.2015-2016), var gríðarlega fjölmennur, en 24 tóku þátt. Varð þessi mikla þátttaka til þess að tveir keppendur enduðu efstir og jafnir með fullt hús vinninga (!), þeir Pétur Úlfar Ernisson og Eiður Jökulsson. Pétur hafði sigurinn á stigum, en það hlýtur að koma vel til greina að skipta þessum flokki upp í tvennt á næsta ári. Pétur, Jakob Steinn Valdimarsson, sem lenti í 3. sæti, Marey Kjartansdóttir og Ólöf Höskuldsdóttir voru svo efst drengja og stúlkna í eldri aldursflokknum, en Eiður, Miroslava Skibina, Garðar Einarsson og Birgir Páll Guðnason voru efst drengja og stúlkna og yngri aldursflokknum. Þess má geta að eftir hádegi gerði Pétur Úlfar sér lítið fyrir og tók einnig þátt í opna flokknum!
Eftir hádegi fóru fram Yngri flokkur 1, 9-10 ára (f.2013-2014) og opni flokkurinn þar sem keppt var um titla. Yngri flokkur 1 var fámennur en góðmennur, en aðeins 7 tóku þátt. Þar bar Liam Nam Tran sigur úr býtum með fullu húsi, Bjarki Már Karlsson var annar vinningi á eftir og Sigurður Erik Hafstein hálfum vinningi á eftir honum í 3. sæti. Auk þeirra fékk Skúli Páll Sigurgíslason aldursflokkaverðlaun.
Í opnum flokki, sem var 7 umferða flokkur, var barist um bikara og titla, enda tóku þar margir margreyndir mótaskákmenn þátt, þó ekki væru þeir allir háir í loftinu. Hér skein einbeitingin úr allra augum. Ýmis óvænt úrslit sáust, sérstaklega í skákum þar sem yngri og óreyndari lögðu hina eldri. Það var þó hinn þrautreyndi Jósef Omarsson sem bar sigur úr býtum og hlaut fullt hús vinninga, 7 talsins. Er hann þar með Drengjameistari Taflfélags Reykjavíkur 2023, annað árið í röð. Í lokin varð Jósef heilum tveimur vinningum á undan næstu mönnum (!), en andstæðingar hans voru þó verðugir og skákirnar spennandi og ekki stóð hann alltaf til vinnings allan tímann í öllum skákunum. Ekki var reynslan minni hjá Stúlknameistara Taflfélags Reykjavíkur 2023, en það var Katrín María Jónsdóttir sem vann til þess heiðurs á sínu síðasta ári og hlaut hún fjóran og hálfan vinning.
Sum sé, skemmtilegt mót, áhugaverðar og lærdómsríkar skákir og mikil skákhátíð! Það vakti ánægju allra að það var engin önnur en Birna Halldórsdóttir sem afhenti verðlaunin í opna flokknum – og það eftir að hafa staðið vaktina í Birnukaffi allan daginn.
Aldursflokkasigurvegarar urðu:
f.2015: Pétur Úlfar Ernisson
f.2014: Haukur Víðis Leósson, Huginn Auðar Héðinsson
f.2013: Tristan Fannar Jónsson, Birkir Hallmundarson
f.2012: Örvar Hólm Brynjarsson, Emilía Embla Baldvinsdóttir Berglindardóttir
f.2011: Jósef Omarsson, Sigurður Páll Guðnýjarson
f.2010: Theódór Eiríksson, Ýmir Nói Jóhannesson
f.2009: Einar Helgi Dóruson
f.2008: Máni Steinsen, Katrín María Jónsdóttir, Sóley Kría Helgadóttir.
Um önnur úrslit vísast í chess-results.
Skákstjórar voru Torfi Leósson, Alexander Oliver Mai og Jon Olav Fivelstad.