Tvöföld umferð fór fram á SixDays mótinu í Búdapest í gær. Þeir Vignir Vatnar Stefánsson og Aleksandr Domalchuk-Jonasson taka þátt í lokuðum GM-flokki en Hilmir Freyr Heimisson teflir í lokuðum IM-flokki. Árangurinn var undir væntingum í dag og í heild sinni á mótinu.
GM-flokkur
Vignir átti besta daginn af íslensku keppendunum. Í fyrri skák dagsins lagði hann FIDE meisarinn Ethan Vaz (2396) í mikilli baráttuskák. Miðtaflið var lengst af í jafnvægi en í kringum tímamörkin í 40. leik náði Vignir að vinna mikilvægt peð og sigla vinningnum heim í endataflinu.
Í seinni skákinni gerði Vignir stutt jafntefli við stórmeistarann Nikola Sedlak (2448)
Vignir hefur 4,5 vinning af 8 og er nokkurn veginn að tefla „á pari“. Sigur í lokaumferðinni gæfi örlítinn stigagróða.
Í fyrri skákinni tapaði Aleksandr (Sasha) með svörtu gegn stórmeistaranum Adam Horvarth (2429). Miðtaflið fór eitthvað illa og Adam komst í stórsókn snemma í miðtaflinu sem endaði með mátsókn.
Í seinni skákinni gerði Sasha jafntefli við indverksan IM L R Srihari með hvítu þar sem hann komst lítið áleiðis.
Aleksandr hefur 2,5 vinning af 8 og er að eiga mót undir væntingum.
IM-flokkur

Hilmir Freyr er ekki að ná sér á strik í IM-flokknum. Í fyrri skák dagsins gerði hann jafntefli með hvítu við WCM Yining Chen (2130) frá Kanada. Hilmir lenti í erfiðleikum með hvítu og var í miklum vandræðum en barðist vel. Hilmir slapp þó með skrekkinn í lokin þegar sú kanadíska endurtók stöðuna en átti rakinn vinning, mát eða vinnur drottningu.
Hilmir lagði allt í sölurnar í seinni skák dagsins. Kannski full mikið því eftir peðsfórn í byrjun féllu peðin í valinn jafnt og þétt og voru orðin of mörg í lokin.
Hilmir hefur 4 vinning af 8 mögulegum og er í stigatapi eins og Aleksandr.
Lokaumferðin fer fram í dag.