SixDays mótinu í Búdapest lauk í dag. Þrír Íslendingar tóku þátt en þeir Vignir Vatnar Stefánsson og Aleksandr Domalchuk-Jonasson tóku þátt í lokuðum GM-flokki og Hilmir Freyr Heimisson tefldi í lokuðum IM-flokki. Árangurinn var undir væntingum í dag og í heild sinni á mótinu. Vignir var stigahæstur í GM flokknum og Hilmir var einnig stigahæstur í GM flokknum.

GM-flokkur

Vignir kláraði af krafti og vann sigur í lokaumferðinni. Vignir fékk í raun ekkert sérstakt úr byrjuninni nema teflanlegt tafl. Sú strategía skilaði þó góðum árangi þar sem svartur virtist aðeins missa þráðinn í miðtaflinu. Vignir lokaði miðborðinu og fékk meira og minna frítt spil á kóngsvæng þar sem hann kláraði dæmið.

Sigurinn í lokaumferðinni færði Vigni 5,5 vinning af 9 mögulegum og -1 stig í stigatap sem þýðir að Vignir tefldi í raun á „getu“ miðað við elóstig. Skak.is vill þó meina að Vignir hafi teflt undir getur og það séu í raun elóstigin sem hafa ekki náð getu Vignis. Þau munu þó gera það fljótlega!

Aleksandr Domalchuk-Jonasson tapaði sinni skák í lokaumferðinni. Aleksandr beitti Petroffs vörn með svörtu og var eiginlega aldrei í vandræðum og taflið jafnt. Í 40. leik kom afleikur hjá Sasha og svartur tapaði peði og frá þeim tímapunkti fjaraði undan svörtu stöðunni.

Svekkjandi tap hjá Aleksandr sem endaði með 2,5 vinning af 9 og átti lélegt mót sem hefur verið mjög sjaldgæft frá því að hann hóf mikið bætingartímabil . Á þessu tímabili hefur Aleksandr eiginlega ekki átt neitt virkilega slæmt mót.

Á SixDays í Búdapest tapaði Aleksandr 20 elóstigum sem er rándýrt tap.

Chess-Results fyrir GM flokk

IM-flokkur

HIlmir Freyr að tafli á EM.

Hilmir Freyr náði eins og Vignir í smá „damage control“ með því að vinna í lokaumferðinni.  Hilmir hafði hvítt og tefldi hvasst afbrigði gegn Nimzanum með snemmbúnum e4 leik. Segja má að svartur hafi misst þráðinn í 15. leik og Hilmir steig ekki af bensíngjöfinni eftir það.

Hilmir Freyr endaði með 5 vinninga af 9 og tapaði rétt rúmlega 13 elóstigum á mótinu.

IM flokkur á Chess-Results

 

- Auglýsing -