Á Evrópumótinu í Budva í Svartfjallalandi á dögunum var liði Aserbaídsjan skipað í fyrsta sæti opna flokks mótsins og þessi öfluga sveit var talin líkleg til að vinna mótið. Niðurstaðan varð þó hreint ekki í samræmi við stöðu liðsins í upphafi því sveitin endaði í 16.-24. sæti með níu stig af 18 mögulegum. Allmikill munur var á meðalstigum íslensku sveitarinnar, sem einnig fékk níu stig með reiknað meðaltal upp á 2.469 elo-stig, en meðalstigatala hinna fimm liðsmanna Asera var upp á 2.685 elo. Ekki er hægt að fullyrða neitt um hvað olli þessu slæma gengi Asera en kannski byrjaði þetta á 2. borði í 1. umferð þegar þeir mættu Dönum:
EM landsliða – Opni flokkurinn; Budva 2023:
Shakriyar Mamedyarov – Mads Anderson
Mamedyarov er hugmyndaríkur skákmaður og áræðinn. Hann hafði réttilega fórnað skiptamun en stóð nú frammi fyrir tveim kostum, 26. Dg4 eða 26. Dh5. Sá fyrrnefndi er betri og leiðir til vinningsstöðu: 26. Dg4! Bf6 (eða 26. … Bc5 27. Dxe6+ Kh8 28. Dh6! og vinnur). 27. Dxe6+ Df7 (ekki 27. … Kh8 28. Df5! og vinnur). 28. Bd5 og eftir 28. … Dxe6 29. Bxe6+ Kh8 30. Bxf6 kemur upp hróksendatafl sem er unnið á hvítt. En Mamedyarov valdi …
26. Dh5? g6! 27. Dg4 Kf7 28. Hd3?
Hann gat þvingað fram jafntefli með 28. Df3+ Ke8 29. Dg4 Kf7 29. Df3+ o.s.frv.
28. … Bf6!
– og hættan var liðin hjá. Mads Anderson vann síðan skákina í 37 leikjum og Danir unnu, 2½:1½.
Fyrstaborðsmaðurinn Teimour Radjabov komst í fréttirnar þegar hann vann Kasparov í Linares 2003 og hlaut síðan fegurðarverðlaun mótsins fyrir þá skák. Sú ráðstöfun ýfði skap Kasparovs svo mjög að hann kallaði verðlaunaafhendinguna „móðgun við skáklistina“. Í Budva vann Radjabov ekki eina einustu skák á 1. borði. Um miðbik mótsins virtist landið aðeins tekið að rísa hjá Aserum en þá mættu þeir Grikkjum. Þá gerðist þetta:
EM landsliða – opni flokkurinn; Budva 2023, 6. umferð:
Nikolas Theodorou – Teimour Radjabov
Petroffs-vörn
1. e4 e5 2. Rf3 Rf6
Radjabov hefur sennilega ætlað að koma andstæðingi sínum á óvart. Hann hafði aldrei áður teflt Petroffs-vörnina.
3. d4 Rxe4 4. dxe5 Bc5!?
Öruggara er sennilega 4. … d5. Vandamálið við leik á borð við 4. … Bc5 er það að „vélarnar“ virðast geta „tæmt“ stöðuna.
5. Bc4 Rxf2
-Sjá stöðumynd-
6. Bxf7+ Kxf7 7. Dd5+ Kg6 8. Dxc5 Rxh1 9. Rc3 h6 10. Rd5!?
Hann gat þvingað fram jafntefli með 10. Dc4 Kh7 11. De4 Kg8 12. Dd5+ Kh7 13. De4+ o.s.frv. En þessi leikur breytir ekki miklu um mat á stöðunni.
10. … He8 11. Dd4 Kh7
Kóngurinn virðist vera að sleppa en nú fellur fyrsta sprengjan.
12. Bxh6! gxh6?
„Vélarnar“ sýna fram á að svartur má ekki taka biskupinn, 12. … Kxh6 strandar á 13. De3+ Kh7 14. Rg5+ Kg8 (eða 14. … Kg6 15. h4! o.s.frv.) 15. Df4 Hf8 16. Dh4 og vinnur. Best er 12. … Rc6! sem dugar til jafnteflis, t.d. 13. Df4 Hf8 (13. … Rxe5 kemur einnig til greina). 14. Dg4 Kxh6 15. Dh3+ Kg6 16. Dg4+ Kh6 17. Dh3+ með þráskák.
13. 0-0-0!
Einföld liðskipan. Svartur er hrók og manni yfir en drottningarvængurinn er algerlega óhreyfður.
13. … He6 14. Rf6+ Kh8 15. Rh4! d6 16. Df4! Kg7 17. Dg4+ Kh8 18. Rg6+ Kg7
19. Rf8+
– og svartur gafst upp því hann er óverjandi mát, 19. … Kxf8 20. Dg8+ Ke7 21. Dg7 mát.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 16. desember 2023