Næstu daga er framundan sannkölluð skákveisla en ein skemmtilegustu mót ársins, Heimsmeistaramótin í atskák og hraðskák fara fram í Samarkand í Úzbekistan. Atskákin er fyrst á dagskrá 26-28. desember og svo tekur hraðskákin við 29. og 30. desember.
Atskákin að þessu sinni er 13 umferðir, 5 skákir tefldar 26. desember en 4 skákir hina tvo dagana. Hraðskákin er svo 21. umferð þar sem 11 umferðir eru tefldar 29. desember og svo 10 umferðir 30. desember.
Sem fyrr er Magnus Carlsen (2818) sigurstranglegastur en hann er ekki bara ríkjandi heimsmeistari í atskák heldur líka í hraðskák! Titilvörnin er aldrei auðveld en það hjálpar málstað Carlsen ansi mikið að þeir Hikaru Nakamura og Alireza Firouzja eiga ekki heimangengt á mótið á mismunandi forsendum. Wesley So situr einnig heima enda sannkristinn drengur sem vill eiga góðar jólastundir með fjölskyldunni. Stigahæsti atskákmaður heims, Ding Liren (2830) er heldur ekki með. Miðað við skákstig mætti því ætla að helstu keppendur Carlsen verði Nepomniachtchi (2778), Duda (2772), MVL (2767), Aronian (2762) og Caruana (2762).
Nokkrir fyrrverandi meistarar lúra neðar í styrkleikaröðinni Nodirbek Abdusattorov (2727) er níundi í styrkleikaröðinni en er til alls líklegur og vann þetta mót árið 2022. Danil Dubov (2712) er 13. í röðinni og annað ólíkindatól en hann tók þetta mót árið 2018. Síðasta ólíkindatólið er Mamedyarov (2715) sem vann mótið 2013 en ritstjórn telur hann ekki í nægjanlega góðu formi til að gera atlögu á þessu móti.
Ekki má þó afskrifa ungu strákana en margir þeirra eru betri en atskákstig þeirra gefa til kynna. Pragganandhaa (2706) er 14. í styrkleikaröðinni. Númer 24 og 26 eru svo indversku ungstirnin Gukesh (2656) og Erigaisi (2654) sem gætu komið á óvart á mótinu. Númer 29 er þrefaldi Evrópumeistarinn Alexey Sarana (2649) og svo má alls ekki afskrifa þýska ungstirnið Vincent Keymer (2631) sem er númer 36 í styrkleikaröðinni en lenti í öðru sæti á þessu móti í fyrra!
Kvennamegin er Ju Wenjun ansi líkleg (2575) en margir myndu líklega veðja á Goryachkinu (2486). Ritstjórn telur vert að fylgjast með hinni ungu Assaubayevu (2436) sem er 11. í styrkleikaröðinni en til alls líkleg og varð í 2. sæti árið 2021.
Taflið hefst klukkan 10:00 að íslenskum tíma. Eins og áður sagði verða tefldar fimm umferðir í dag, 26. desember.
Skákir eru í beinni á ýmsum stöðum og má nálgast tengla hér fyrir neðan:
- Beinar útsendingar á lichess (atskák) | Kvennaflokkur
- Beinar útsendignar á lichess (hraðskák) | Kvennaflokkur
- Kvennaflokkur
- Beinar útsendingar á chess.com (atskák)
- Chess-Results atskákin | Kvennaflokkur
- Chess-Results hraðskákin| Kvennaflokkur
- Saga Heimsmeistaramótsins í atskák
- Saga Heimsmeistaramótsins í hraðskák












