Heimsmeistarinn í at- og hraðskák Magnus Carlsen (2818) hóf titilvörn sína í dag á heimsmeistaramótinu í atskák sem fram fer í Samarkand í Úzbekistan. Fyrsti dagur af þremur í atskákinni fór fram í dag, alls fimm umferðir en næstu daga verða tefldar fjórar umferðir hvern dag.
Magnus hóf titilvörnina á örlitlu hiksti en hann gerði jafntefli í fyrstu umferð við Rússann Nikita Petrov (2509). Magnus fékk lítið úr byrjuninni með hvítt og náði ekki að baka vandræði með tvo hróka gegn drottningu í endatafli þar sem peðin voru öll á sama væng.
Kóngur Carlsens reyndist of veikur og hann náði ekki að virkja hrókana til að vinna peð, góð vörn hjá Rússanum.
Magnus hefur átt það til að hiksta í fyrstu umferðunum en vinna sig samt inn í mótið fljótt þegar það hefur gerst. Magnus vann í annarri umferð, Aftur fékk Magnus lítið enda með svart og nú gegn öðrum Rússa, Denis Khismatullin (2507). Endataflið sem kom upp var dauðara en diskó.
Líklegast hefðu flestir kostið að reyna að kreysta tvo hróka gegn drottningu frekar en þetta endatafl. Tölvurnar segja að sjálfsögðu 0.00 en Carlsen virtist nokkuð sama. Denis fór eitthvað vitlaust í endataflið.
Þó peðin séu að mestu samhverf liggur munurinn í h-peðunum. Hvíta h-peðið er veikt þar sem hægt er að sækja að því. Þetta reyndist nóg fyrir Carlsen.
Yfir 200 manns hófu leik í opna flokknum og eftir tvær umferðir voru enn 26 skákmenn með fullt hús. Magnus mætti Tigran Petrosian (2604) í þriðju umferðinni. Tvær mínútur í tímaforskot var það sem Armeninn fékk en Heimsmeistarinn mætti of seint í skákina.
GM Magnus Carlsen came 2 minutes late to a game against GM Tigran Petrosian in the Round 3 of the FIDE World Rapid and Blitz Championship#RapidBlitz pic.twitter.com/iBdYdGwDXt
— International Chess Federation (@FIDE_chess) December 26, 2023
Magnus fékk eitthvað verra eftir byrjunina en fórnaði peði og Petrosian missti aðeins þráðinn. Magnus náði ógnarstjórn á hvítu reitunum og var algjörlega búinn að blokkera sóknartilburði Armenans. Þetta var því einungis spurning um smá raðtækni og þar er enginn betri en Carlsen!
Magnus því með 2,5 vinning en enn voru 12 skákmenn með fullt hús 3 af 3. Merkilegt nokk voru styrkleikahæstu skákmennirnir í þeim hópi Rapport (8) og Yu Yangyi (15) en allir aðrir stigahæstu menn mótsins höfðu misst niður allavega eitt jafntefli.
Í fjórðu umferð var komið að enn einum „afturkreystingnum“ hjá Carlsen. Írananum Parham Maghsoodloo (2644) urðu mislagðar hendur í miðtaflinu og Carlsen fékk í raun kolunnið tafl. Aldrei þessu vant missti Carlsen þráðinn, lék af sér og Maghsoodloo komst í endatafl sem er jafntefli.
Þessi staða kom upp í 51. leik og Magnus komst í raun ekkert áfram og virtist bara fara í einhverja hringi næstu leiki. Þess vegna var ákvörðun Maghsoodloo í 76. leik stórfurðuleg.
Hér liggur beinast við að leika 76.Rg5 og halda sömu varnarstöðu og hann hafði gert undanfarna 25+ leiki. Þessi í stað lék hann 76.Rd6?? og riddarinn átti ekki afturkvæmt, lenti á flakki og Magnus vann hann úti í horni….áður en 50 leikja reglan tók gildi!
Magnus Carlsen squeezes out a win against Parham Maghsoodloo — who seemed to try, in vain, to claim a 50-move draw at the end! #RapidBlitz pic.twitter.com/tLbsOiXudC
— chess24.com (@chess24com) December 26, 2023
. @MagnusCarlsen speaks on Parham trying to claim a 50-move draw against him in round 3. #RapidBlitz
Check out the full interview on YouTube: https://t.co/84IyKXZols pic.twitter.com/TXlOxpRq24
— ChessBase India (@ChessbaseIndia) December 26, 2023
Carlsen því með hálfan niður og kominn í skipt annað sætið þar sem eini skákmaðurinn með fullt hús eftir fjórar umferðir var Timur Gareyev (2588). Timur þessi hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið en hann er í banni hjá bandaríska skáksambandinu og getur ekki teflt í Bandaríkjunum.
Timur Gareyev, who is banned by the U.S. Chess Federation, is the sole leader of the World Rapid on 4/4! https://t.co/iMvVBLF6Wj #RapidBlitz pic.twitter.com/YrDYgT0JAi
— chess24.com (@chess24com) December 26, 2023
Magnus mætti Gareyev í fimmtu umferðinni og lagði hann að velli nokkuð örugglega. Gareyev fór í glannalega peðaárás á kóngsvæng snemma tafl en það var svo Carlsen sem endaði á að fá kóngsókn sem Gareyev réð ekki við.
Magnus því kominn í efsta sætið ásamt fjórum öðrum. Erigaisi þarf líklegast að vinna mótið til að ná í nægjanlega mörg stig á hinum svokallaða „Circuit Tour“ sem myndi tryggja honum sæti á Áskorendamótinu. Gukesh „á“ það sæti eins og er.
???????? Magnus Carlsen, ???????? Ivan Cheparinov, ???????? Yu Yangyi, ???????? Vidit Gujrathi & ???????? Arjun Erigaisi, are in joint lead with a score of 4.5/5, after day 1 of the FIDE World Rapid Championship 2023 #RapidBlitz
????Anastasia Korolkova, Maria Emelianova pic.twitter.com/3FAF8AvOGp
— International Chess Federation (@FIDE_chess) December 26, 2023
Pólverjinn Jan Kryzsztof-Duda átti milligóðan dag með 3,5 af 5 en hann sýndi Carlsen hvernig á að klára Nikita Petrov!
42…Dxh4! kláraði dæmið hér!
Leik dagsins átti þó líklegast Ivan Cheparinov (2618) sem lagði Richard Rapport (2735) með fallegri fléttu.
24.He8!! glæsilegur leikur en bara ef hvítur sér að eftir 24…Hxe8 þá á hann 25.Dxf6!! og vekur svo upp riddara á e8 með skák! Rapport gafst upp.
Þessi flétta minnir óneitanlega á þekkta endataflsstúdídu Lasker frá 1896 sem flestir hafa séð.
1.Hc8! Hxc8 2.Da7+!! Kxa7 3.bxc8=R+ og hvítur vinnur
Rapport var engu að síður kátur að loknum fyrsta degi
Kvennaflokkur
Í kvennaflokki er Nurgyul Salimova efst með 4 af 4 en hún sló eftirminnilega í gegn á Heimsbikarmótinu fyrr á árinu.
Nurgyul Salimova (@nurgyulll1): "I made 4 points out of 4 games today; it was a good day for me! I really enjoy Rapid lately because of the World Cup also." #RapidBlitz pic.twitter.com/KS3yIgSbIJ
— International Chess Federation (@FIDE_chess) December 26, 2023
Zhu Jiner hefur einnig 4/4 en stjarna mótsins er hin 13 ára Lu Miaoyi sem hefur náð frábærum úrslitum!
13-YEAR-OLD LU MIAOYI IS ABSOLUTELY KILLING IT!!!!
She drew World Champion Ju Wenjun (!!), beat World Championship runner-up Lei Tingjie (!!), and now has beat another GM Anna Ushenina (!) to start 2½/3!! ????????????https://t.co/94612InAZx
???? L Ootes#chess #womeninchess #RapidBlitz pic.twitter.com/Cud75dAA2J— Women's Chess Coverage (@OnTheQueenside) December 26, 2023
Veislan heldur áfram á morgun og hefst taflmennskan klukkan 10:00 eins og í dag. Carlsen fær svart á Vidit en Erigaisi mætir Yu Yangyi á öðru borði.
Skákir eru í beinni á ýmsum stöðum og má nálgast tengla hér fyrir neðan:
- Beinar útsendingar á lichess (atskák) | Kvennaflokkur
- Beinar útsendignar á lichess (hraðskák) | Kvennaflokkur
- Kvennaflokkur
- Beinar útsendingar á chess.com (atskák)
- Chess-Results atskákin | Kvennaflokkur
- Chess-Results hraðskákin| Kvennaflokkur
- Saga Heimsmeistaramótsins í atskák
- Saga Heimsmeistaramótsins í hraðskák














