Jólahraðskákmót Taflfélags Reykjavíkur fór fram í kvöld og var mæting með besta móti, 40 skákmenn mættu til leiks til að heyja baráttu á reitunum 64 í ellefu umferða móti!

Mótið fór fram á afmælisdegi Ríkharðs Sveinssonar sem féll sviplega frá á dögunum. Því var vel við hæfi að mótið hæfist á einnar mínútu þögn og svo var boðið upp á veitingar í tilefni dagsins.

Vignir Vatnar Stefánsson var að sjálfsögðu sigurstranglegastur enda Íslandsmeistari í hraðskák og stigahæsti skákmaður mótsins. Einn af hans bestu vinum, Stephan Briem, veitti honum hinsvegar skráveifu í þriðju umferð og því voru það Ingvar, Hilmir, Örn Leó og Stephan Briem sem leiddu með fullt hús eftir þrjár umferðir.

Ingvar vann heppnissigur á Erni Leó í fjórðu umferð og Hilmir lagði Stephan að velli þannig að landsliðsþjálfari kvenna og nýkrýndi landsilðsmaðurinn mættust í toppuppgjöri í 5. umferð.

Hilmir hafði betur eftir frjálslega byrjanataflmennsku Ingvars þar sem tempóum var fórnað og svo manni, slíkt gengur ekki gegn skákmanni af þessu kalíberi. Hilmir tók forystuna og var ekkert að taka fótinn af bensíngjöfinni…Hilmir vann níu fyrstu skákir sínar og hafði í raun tryggt sér sigurinn þegar tvær umferðir voru eftir ótefldar.

Það var ekki fyrr en í tíundu umferð sem að Vignir stöðvaði sigurgöngu Hilmis með því að kreysta fram vinning með hrók og riddara gegn hrók. Landsliðið ætti nú að hafa fengið ansi góða æfingu í þessu endatafli þar sem Guðmundur Kjartansson hélt því tvisvar á EM í Budva fyrir skemmstu. Með lítinn tíma á klukkunni náði Vignir hinsvegar að plata félaga sinn þó mögulega hafi 50-leikja markinu verið náð.

Í lokaumferðinni gerði Hilmir svo jafntefli við hinn ígul-trausta skákmann Þorstein Þorsteinsson og kom Hilmir í mark með 9,5 vinning af 11, glæsilegur árangur! Þessi árangur færir honum 20 stig í gróða á hraðskákstigum og jafnframt nældi Hilmir sér í „aukaverðlaun“ 20.000 krónur sem að Sigurður Daði Sigfússon var búinn að heita á sigurvegara mótsins og stóð við það þótt hann yrði sjálfur að hætta við þátttöku á síðustu stundu!

Ingvar Þór Jóhannesson tók annað sætið á oddastigum þar sem hann tók innbyrðis viðuregn gegn Vigni Vatnar sem kláraði mótið í þriðja sæti.

Vert er að minnast á góðan árangur TR-ingana Sigurbjörns Hermannssonar og Iðunnar Helgadóttur en þau hækkuðu bæði yfir 90 hraðskákstig fyrir sinn árangur á mótinu.

Myndir frá Unu Strand Viðarsdóttur

Iðunn glímir við sigurvegara mótsins
Yfirlitsmynd á vel heppnuðu Jólamóti
Fyrrverandi formaður Taflfélagsins, Kjartan Maack, glímir hér við Svein, bróðir Ríkharðs heitins.
Efstu borð þegar mótið var vel á veg komið
Erlendir gestir settu svip sinn á mótið!
Pétur Jóhannesson lætur sig sjaldan vanta á mót hérlendis!
Ingvar virðist hér áhyggjufullur en hafði betur í þessari viðureign við Íslandsmeistarann!
Ungir, aldnir, góðir, slæmir….allir eru velkomnir!
Kristján þáttastjórnandi klórar sér í viðureign sinni við Íslandsmeistarann Vigni
- Auglýsing -