Skákæfing Bolvíkinga í desember 2023: Daði Guðmundsson, Guðmundur Halldórsson og Stefán Arnalds hérna megin borðsins og hinu megin Magnús Pálmi Örnólfsson, Halldór Grétar Einarsson og Guðmundur Magnús Daðason. Á myndina vantar Egils Steinar Ágústsson sem tók myndina og Sæbjörn Guðfinnsson.

Á þorranum árið 1901 (25.janúar) var stofnað taflfélag í Bolungarvík. Síðan þá hefur taflfélag verið starfrækt á staðnum undir mismunandi nöfnum. Í dag heitir félagið Taflfélag Bolungarvíkur og hittast bolvískir skákmenn fyrsta miðvikudag hvers mánaðar og tefla.

Í tilefni dagsins ætla þeir að hittast í heimahúsi og heiðra söguna með því að tefla og njóta góðra veitinga eins og þeirra er siður.

Að undanförnu höfum við skannað inn söguleg gögn um bolvíska skákmenningu og er það fjársjóður fyrir grúskara. Þarna eru t.d. úrslit hraðskákæfinga allt frá árinu 1957. Gaman t.d. að sjá að í kringum áramótin 1968-1969 voru tefld c.a. 13 umferða hraðskákmót nær daglega. Fyrsta mótið fór fram 26.desember og síðan voru tefld tíu mót í viðbót fram til 17.janúar. Duglegir KR-ingar dagsins í dag komast ekki með tærnar þar sem bolvískir skákmenn á þessum tíma voru með hælana !

Hérna er hlekkur fyrir grúskarana til að sjá gögn úr skáksögu Bolungarvíkur:

https://drive.google.com/drive/folders/1O_eISciT8O7FMmvH-9-CkmqMLEvHPa0x?usp=sharing

Bol-1933:  Fjallað um elstu varðveittu skákskriftareyðublöð á Íslandi. Árið er 1933 og bolvískir alþýðumenn hittust, tefldu aðallega Kóngsbragð og skrifuðu bara sína leiki en ekki leiki andstæðingsins.

Ágrip af skáksögu Bolungarvíkur 1988 – Magnús Sigurjónsson:

Magnús Sigurjónsson rekur skáksögu Bolungarvíkur frá stofnun taflfélags á þorranum árið 1901 til ársins 1988

Ytri keppnir Bolvíkinga 1977-1996: Ýmsar keppnir bolvískra skákmanna á árunum 1977-1996

Vestfirskt_skaksafn:

Vestfirskar skákir sem Matthías Kristinsson safnaði saman í bókarheftinu “Vestfirskir víkingar að tafli”. Í lok heftisins eru mörg óborganleg gullkorn sem ratað hafa úr munnum vestfirskra skákmanna og loks saga Taflfélags Ísafjarðar sem var stofnað veturinn 1901-1902.

Stofnun_skaksambands_vestfjarda: Uppskrifuð fundargerð frá stofnun Skáksambands Vestfjarða 28.mai 1976

Skakthing_vestfjarda_1965: Hefti sem Taflfélag Ísafjarðar gaf út um Vestfjarðamótið í skák árið 1965.

Skakthing_vestfjarda_1959: Hefti sem Taflfélag Ísafjarðar gaf út um Vestfjarðamótið í skák árið 1959.

Eittlitidped:

Glæsilegt blað sem Magnús Sigurjónsson gaf út árið 1986 og fjallar um skák í Bolungarvík frá fornu til nútímans.

Saga Skákdeildar UMFB 1977-1983:

Ýmsar heimildir af starfi Skákdeildar UMFB á árunum 1977-1983. Alls 142bls af ómetanlegum heimildum og flest það sem gerðist í bolvísku skáklífi á þessum bómatíma þess.

Hraðskák – IX Alþjóðamótið við Djúp 1988:

Mótsblað alþjóðlega mótsins við Djúp árið 1988 sem gefið var út á vegum Jóhanns Þóris í Tímaritinu Skák. Borið út í öll hús á norðanverðum Vestfjörðum á meðan á mótinu stóð.

Fréttablað Skáksambands Vestfjarða 1979: Efnismikið og vandað blað sem Sigurður Ólafsson á Suðureyri sá um útgáfu á.

Skáksveit Bolungarvíkur – íþróttamenn Bolungarvíkur 1993: Grein um afrekið. Ekki bara Vignir Vatnar sem hefur orðið íþróttamaður bæjarfélagsins síns!

Skákæfingar í Bolungarvík 1957-1991: Úrslit í hraðskákæfingum á þessum árum. Yfir sjötíu “mentur”.

 

- Auglýsing -