„Bjargvætturinn“ kemur úr óvæntri átt

439
0
Nepo vann Jan Nepomniachti náði fram hefndum er hann tefldi við heimsmeistarann Liren Ding í Wijk aan Zee á miðvikudaginn. Nepo tapaði HM-einvíginu fyrir Kínverjanum í fyrra.

Þó að flestir bestu skákmenn venji komur sínar til Wijk aan Zee þá hafa heimamenn margoft fagnað þar sigri. Í fyrra vann Anish Giri þetta mót og árið 2021 varð Jorden van Foreest óvæntur sigurvegari. Eins og staðan er núna eftir elleftu umferð mótsins er Giri sá eini heimamanna sem getur blandað sér í baráttuna um efsta sætið. Litlu munaði að nýliði meðal heimamanna í A-riðli mótsins kæmist aðeins ½ vinning frá efsta sæti:

WAZ 2024; 9. umferð:

Parham Magsoodloo – Max Warmerdam

Magsoodloo verður að telja úrræðagóðan skákmann. Hann vann þessa stöðu þó koltöpuð sé! Ekki virðist nokkur leið að stöðva a-peðið en þá gerðist þetta:

50. Hc8!

Hótar máti með 51. Ha8+ og stöðvar jafnframt a-peðið um stundarsakir.

50. … Ka4 51. e6

Nú á svartur tvo vinningsleiki, 51. … Kb3 og 51. … Ba3 en hann valdi hinsvegar …

51. … Ha3? 52. Hxc5 a1(D) 53. e7!

„Þungu fallstykkin“ ættu að sjá um sitt í þessari stöðu. Er vinning enn að hafa? Því miður fyrir Hollendinginn er svarið nei! Hann hugsaði lengi, lengi og loks taldi hann sig hafa fundið leið …

53. … Dh8?? 54. Hc8!

 

 

Sjá stöðumynd:

Minnir á skákþraut eftir Kubbel. Svartur getur ekki tekið hrókinn vegna 55. Rb6+ sem vinnur.

54. … Dh7+ 55. f5 Hg3 56. e8 (D) Hxg4 57. Ke5

– og svartur gafst upp. Þó flokka megi þessa niðurstöðu sem óheppni má þó benda á að Hollendingurinn var búinn að vera undir mikilli pressu alla skákina og taugarnar virtust ekki þola álagið. Þetta tap hafði greinileg áhrif því að Warmerdam missti aftur niður vænlega stöðu í 10. umferð og tapaði.

Staðan fyrir elleftu umferð sem fram fór í gær var þessi: 1.-2. Gukesh og Abdusattorov 6½ v. (af 10) 3.-4. Giri og Praggnanandhaa 6 v. 5.-8. Vidit, Nepomniachtchi, Wei og Firouzja 5½ v. 9.-12. Ding, Ju, Magsoodlooo og Warmerdam 4 v. 13.-14. Donchenko og Jorden van Foreest 3½ v.

Ef fram heldur sem horfir kann árangur Lirens Dings að rata í ruslakistu skáksögunnar sem versta frammistaða óskoraðs heimsmeistara á sambærilegu skákmóti. Tigran Petrosjan náði einungis 50% árangri á Piatigorsky-skákmótinu í Santa Monica 1966. Kasparov var með 50% árangur á skákmóti í Sviss árið 1995 og Karpov fékk einungis 4 v. af 10 í Las Palmas á Kanaríeyjum árið 1996. En þá voru heimsmeistaratitlarnir tveir.

Kannski kemur „bjargvætturinn“ úr óvæntri átt; Magnús Carlsen átti sitt lélegasta mót sem heimsmeistari á „heimavelli“ í Stafangri árið 2015. Hann hlaut einungis 3½ vinning af 9 mögulegum. Misskilningur vegna tímafyrirkomulags varð þess valdandi að hann féll á tíma í vinningsstöðu gegn Topalov í 1. umferð þess móts.

Fjórir efstir á Skákþingi Reykjavíkur

Gauti Páll Jónsson og Dagur Ragnarsson gerðu jafntefli í innbyrðis viðureign sjöttu umferðar Skákþings Reykjavíkur sl. miðvikudagskvöld en þeir voru efstir og jafnir fyrir umferðina. Sigurvegari Haustmóts TR, Bárður Örn Birkisson, og hinn 16 ára gamli Ingvar Wu Skarphéðinsson komust upp að hlið þeirra þannig að staða efstu manna fyrir lokaumferðirnar þrjár er þessi: 1.-4. Bárður Örn Birkisson, Gauti Páll Jónsson, Dagur Ragnarsson og Ingvar Wu Skarphéðinsson 5 v. (af 6). Síðan koma 15 keppendur með fjóra vinninga. Mótinu lýkur sunnudaginn 4. febrúar.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 27. janúar 2024. 

- Auglýsing -