Íslandsmót kvenna hófst í kvöld í Siglingaklúbbnum Ými. Nú hefur Skákþing Íslands, Íslandsmót barna, Íslandsmót kvenna og Íslandsmót öldunga (65+) farið fram í húsakynnum Ýmis sem Kópavogsbær hefur verið duglegur að útvega og styrkja þarmeð skákhreyfinguna!

Átta keppendur eru mættir til leiks á Íslandsmóti kvenna og munu þær tefla sjö umferðir, allar við alla!

„Myndaceptcion“ Una tekur mynd af Ingvari að taka mynd af Gunnari að taka mynd af Andra leika fyrsta leikinn fyrir Jóhönnu gegn Olgu!

Fyrirfram voru flest augu á viðureign Jóhönnu B. Jóhannsdóttur varaformanns Skáksambands Íslands gegn ríkjandi Íslandsmeistara, Olgu Prudnykovu. Andri Steinn Hilmarsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi var mættur til að leika fyrsta leik mótsins 1.e4 fyrir Jóhönnu. Andri er sjálfur sleipur skákmaður og gaman að fá fulltrúa Kópavogsbæjar að leika fyrsta leiknum en þeir hafa reynst SÍ vel með þennan skemmtilega mótsstað hjá Siglingaklúbbnum Ými!

Jóhanna opnaði með kóngspeðinu 1.e4 og eftir 1…e6 2.d4 héldu margir að franska vörnin væri á leiðinni en þá kom Olga á óvart með 2…c5. Olga hefur mikið verið að vinna með slíka hliðarvaríanta. Hvítur er oft óundirbúinn fyrir slíkar byrjanalínur en hérna verður hvítur líklega að stíga fast til jarðar og leika eins og segir á engilsaxnesku „the principled move“ sem hlýtur að vera 3.d5. Jóhanna lék 3.Rf3 sem er engan veginn slæmur leikur en það skiptir hinsvegar yfir í opna Sikileyjarvörn og kemur í veg fyrir ýmsar „anti-Sicilian“ leiðir sem er líklegast það sem Olga var að sækjast eftir.

Þessi ásókn Olgu í hliðarvaríanta skilaði sér þar sem hvítur náði ekki að refsa. Samkvæmt tölvuforritum er svartur búinn að jafna taflið í sjöunda leik eftir 7…d5. Olga sýndi mikinn styrkleika í þessari skák. Fyrst fékk hún peðameirihluta á miðborðinu, náði að breyta því í að vinna biskupaparið og svo í kjölfarið kom peðsvinningur. Þegar skiptamunur féll ofan á það tiltölulega bótalaust var ljóst í hvað stefndi. Jóhanna er með sterkari baráttuskákmönnum Íslands en hún náði ekki að þyrla nægjanlegu ryki í augu Olgu til að búa til spennu. Sterkur sigur hjá Olgu gegn fyrirfram einum af sínum helstu keppinautum, og það með svörtu!

Verónika Steinunn Magnúsdóttir á að baki Ólympiuskákmót með kvennalandsliði Íslands. Það var árið 2016 í Baku en síðan þá hefur skákin setið eilítið á hakanum en „Caissa“ er vinkona sem segir aldrei skilið við nokkurn skákmann! Einhver skákáhugi virðist hafa vaxið hjá Veróniku og hún er mætt til leiks á Íslandsmót kvenna. Það sem meira er, þá átti hún afmæli í umferð kvöldsins!

Verónika hélt upp á afmælið með sérdeilis prýðilegum hætti og lagði að velli margreynda landsliðskonu, Tinnu Kristínu Finnbogadóttur. Verónika tefldi byrjunina af krafti og hrifsaði fljótt frumkvæðið. Lykilaugnablikið kom nokkuð snemma.

Eftir 22…Bb4 hjá Veróniku áttaði Tinna sig ekki á hótuninni í stöðunni og lék 23.Heg1?? hér var nauðsynlegt að leika 23.Hd1 til að valda d4 peðið. Verónika nýtti sér þetta og lék að sjálfsögðu 23…Hxd4! og hvíta staðan hrynur. Úrvinnslan var kannski ekki upp á 10 en svartur nýtti þau taktísku færi sem hann fékk og …Hxh2 endaði allt mótspil!

Lenka Ptacnikova náði nokkuð snemma undirtökunum með svörtu gegn Elsu Maríu Kristínardóttur með svörtu. Lenka hræðri upp í taflinu með því að beita skandinavískri vörn og taflið varð snemma nokkuð órætt.

Mistök Elsu komu í 15. leik. 15.Bxf8? reyndist vera slakur leikur. Nauðsynlegt var að leika 15.Be2 með dýnamísku jafnvægi. Eftir 15.Bxf8? gefur tölvan svörtum -4 í mat! Hvíta staðan gjörsamlega hrynur vegna veikleika kóngsins eftir 15…Bxf3 16.gxf3 Kxf8.

Úrvinnslan hjá svörtum var engann veginn upp á 10 en eftir að Lenka vann skiptamun í 30. leik var eiginlega ljóst hver úrslitin myndu verða!

Mestu sviptingarnar í þessari umferð voru klárlega hjá yngstu keppendunum. Þær Iðunn Helgadóttir (hvítt) og Guðrún Fanney Briem (svart) eru klárlega okkar efnilegustu skákkonur og hafa bæði verið gríðarlega duglegar að tefla og tekið miklum framförum undanfarin misseri. Hafa þær marga hildina háð undanfarin ár.

Iðunn stýrði hvítu mönnunum og valdi uppstillingu með g3/Bg2 og fékk þægilegt tafl.

11.Rc4! hefði verið flottur leikur hér en Iðunn missti af því og lék 11.e4?! sem losaði nokkuð um svörtu stöðuna. Guðrún gaf biskupaparið full auðveldlega frá sér og hvítur fékk mun betra tafl.

21.Be7? reyndist slakur hér þar sem 21.Be5 hefði haldið góðri stöðu á hvítt. Guðrún fann fyrsta taktíska skotið í þessari skák, 21…Hxd5 og Iðunn var komin í vandræði! Guðrún vann peð og svo skiptamun. Guðrún virtist gera allt rétt, þar til hún eyddi næstum öllum tíma sínum með kolunnið tafl í það að leika 44…b2!? sem er ennþá unnið en tímatapið átti eftir að koma í bakið á Guðrúnu.

Tímanotkunin og leikirnir hefðu borgað sig ef Guðrún hefði leikið 47…g5 sem er kolunnið á svart. Þess í stað kom 47…h5?? sem er tapleikur, Iðunn fann 48.Dc4+ og svo Df7 og skyndilega tapar svartur!

Grátlegt tap hjá Guðrúnu sem gerði allt rétt en var ekki nógu praktísk í tímanotkun í lokin.

Fyrsta umferðin skemmtileg og spennandi. Þrjár skákir af fjórum unnust á svart en ef allt hefði farið samkvæmt „flæði skákanna“ hefði svartur átt að vinna allar fjórar skákirnar!

Vonandi er framundan skemmtilegt og spennandi Íslandsmót kvenna!

(Þakkir til Unu Strand Viðarsdóttur fyrir myndapakkann!)

 

- Auglýsing -