Landsliðsmennirnir Vignir Vatnar Stefánsson, nýjasti og yngsti stórmeistari okkar Íslendinga og núverandi Íslandsmeistari í kappskák og hraðskák og Hilmir Freyr Heimisson, alþjóðlegur meistari og núverandi Íslandsmeistari í atskák kíktu í heimsókn á Útvarp Sögu til Kristjáns Arnar Elíassonar í vikulegan þátt hans Við skákborðið.

Vignir fagnar 21 árs afmælisdegi sínum þegar þátturinn var tekinn upp, 7. febrúar en Heimir verður 23 ára síðar á árinu. Stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson var í pólitísku viðtali á útvarpsstöðinni í þættinum á undan og því lá beinast við að fá hann til að segja nokkur orð í upphafi þáttar og spyrja hann hvaða ráðleggingar hann hefði fyrir ungu landsliðsmennina. Ekki stóð á svörum frá Helga: „Fimm ára planið!“ Helgi segir að þeir séu báðir öflugir skákmenn. Vignir sé stórkostlega hæfileikaríkur skákmaður og það sé mjög erfitt að eiga við hann við skákborðið. Hilmir sé mjög hugmyndaríkur skákmaður og baráttumaður. Helgi segir það mjög jákvætt við þá báða að þeir séu að leggja á sig mikla vinnu til að ná árangri. Hann er bjartsýnn á að þeir muni verða atvinnumenn í skák og nái að finna leiðir til að lifa af skáklistinni og að þeirra sé framtíðin. Þeir Vignir Vatnar og Heimir Freyr fóru síðan um víðan völl í mjög skemmtilegu viðtali. Þeir hafa frá mörgu að segja og stefna á að mæta í framhaldsþátt í næstu viku.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér

- Auglýsing -