Olga Prudnykova hélt áfram sigurgöngu sinni á Íslandsmóti kvenna í Siglingaklúbbnum Ými í Kópavogi. Olga lagði Guðrúnu Fanney Briem að velli sem tryggði henni 6 vinninga úr 6 skákum, 1,5 vinningi fyrir ofan næsta keppanda.

Jóhanna Björg hélt velli í baráttunni um annað sætið og náði að leggja Veróniku Steinunni að velli í sviptingasamri skák. Eftir 14…Rg4 var Jóhanna komin í vandræði!

Svartur vinnur skiptamun útaf hótuninni Rxf3+ og Dxh2.  Jóhanna hefur hinsvegar margsannað baráttuþrek sitt og hóf að tefla skákina betur og náði að hræra upp í kóngsstöðu svarts.  Verónika fékk einn séns í 30. leik að leika Dg5 en eftir það var ekki aftur snúið.

Guðrún Fanney gaf andstæðingi sínum full mikla virðingu. Hún fór að „elta drottninguna um allt borð“ eins og menn gerðu gegn Friðrik forðum dag. Ómarkviss uppskipti í byrjuninni gáfu svörtum strax þægilega betra tafl. Með biskupaparið og tvær hálfopnar línur hafði svartur allt frumkvæðið og stöðulega betra. Olga nýtti sér það.

Iðunn var ansi nærri því að leggja Lenku að velli í virkilega vel útfærðri skák hjá Iðunni. Lenka fórnaði tveimur tempóum í byrjuninni í kóngsindverja og kostaði það greinilega í kapphlaupinu á vængjunum. Iðunn var langt á undan með sína peðaframrás. Iðunn fékk nokkra sénsa en nýtti þá ekki.

26.Rxe5! hefði gefið gjörunnið tafl á hvítt þar sem 26…dxe5 27.Hd8 fangar svörtu drottninguna.

42.Db7!! var erfiðara að sjá og eftir gerðan leik hinn eðlilega 42.Rxb6 var þráskák óumflúin að því er virðist.

Engu að síður sterk úrslit fyrir Iðunni og þær yngstu svo sannarlega að bíta frá sér á þessu móti!

Skiptamunsfórn Tinnu snemma tafls gekk ekki upp eins og hugnast hafði og tefldi Elsa af öryggi með liðsaflann og gaf engin færi á sér, öruggur sigur.

Úrslit 6. umferðar

Staðan:

Olga er 1,5 vinning á undan næstu stallsystur sinni fyrir lokaumferðina og hefur því tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn. Jóhanna og Lenka berjast um 2. sætið í innbyrðis skák.

Lokaumferðin fer fram á morgun og hefst klukkan 14:00 og verðlaunaafhending að henni lokinni.

 

- Auglýsing -