Lokaumferð Landsliðsflokks kvenna lauk í dag í Siglingaklúbbnum Ými í Kópavogi. Olga Prudnykova hafði þegar tryggt sér titilinn þannig að eina spennan var baráttan um 2. sætið milli Lenku og Jóhönnu.
Olga undirstrikaði yfirburði sína með því að leggja Iðunni að velli í lokaumferðinni. Olga tefldi hvasst afbrigði gegn sikileyjarvörninni með Dd3 og Iðunn komst illa frá byrjuninni og lenti í mikilli beyglu, sérstaklega á svörtu reitunum. Þetta náði Olga að nýta sér og stilla upp í Lolla-mát.
Einhver þreyta virtist komin í mannskapinn enda verið teflt á hverjum degi alla vikuna. Þrjár skákir voru beinlínus tapaðar eftir 16 leiki og Jóhanna náði sér engan veginn á strik gegn Lenku í baráttunni um 2. sætið. Jóhanna fór í óhollt peðaát á c3 reitnum og náði ekki að laga liðsskipan í kjölfarið. Tölvuleið í 11. leik, 11…Rxc5 hefði mögulega haldið jöfnum möguleikum en þess í stað náði Lenka að bæta stöðu sína hratt og mylja niður drottningarvæng svarts.
Hafi peðaát Jóhönnu verið óhollt þá var peðaát Tinnu á b7 reitnum mögulega eitrað, allavega eins og skákin tefldist. Drottningin hefði getað hörfað í næsta leik en þess í stað lenti drottningin í sjálfheldu og átti sér ekki undankomu auðið. Guðrún vann lið og svo skákina.
Snarpur sigur hjá Guðrúnu sem sýndi mikinn karakter á mótinu að koma til baka eftir virkilega grátlegt tap í fyrstu umferðinni.
Síðasta skákin til að klárast var á milli Veroniku og Elsu. Elsa hafði meira baráttuþrek eftir snarpa baráttu. Veronika missti þó af þvinguðu jafntefli á einum tímapunkti.
33.Hxg7+! hefði þvingað jafntefli. Hvítur þráskákar á f6 og d8 reitunum óverjandi. Þess í stað komst Elsa peði yfir í endatafl og vann það.
Úrslit 7. umferðar
Engin jafntefli í lokaumferðinni og flestar skákirnar snarpar
Lokataðan:
Öruggur sigur hjá Olgu með fullt hús. Hún hækkar um 15 elóstig fyrir árangurinn. Ungu stelpurnar stóðu sig báðar frábærlega og stimpluðu sig hressilega inn á þessu móti. Báðar náðu þær góðum sigrum og jafnteflum og hækka vel á stigum. Iðunn hækkar um 74 elóstig og Guðrún Fanney um 88 elóstig!
Skákstjórn á mótinu var í öruggum höndum Róberts Lagerman!
- Mótið á chess-results
- Skákir á lichess