Dagur Ragnarsson er Skákmeistari Reykjavíkur 2024 en hann hafði betur í harðri baráttu við Gauta Pál Jónsson. Fyrir lokaumferð mótsins voru þeir jafnir í efsta sæti með sjö vinninga af átta mögulegum en þeirra beið erfitt verkefni, Dagur tefldi við Björn Hólm Birkisson og Gauti Páll við Jóhann Ingvason. Svo fór að Dagur hafði betur í skák sinni við Björn Hólm en Jóhann Ingvason vann hins vegar Gauta Pál. Lokastaðan hvað varðaði efstu keppendur var þessi: 1. Dagur Ragnarsson 8 v. (af 9) 2.-3. Jóhann Ingvason og Gauti Páll Jónsson 7 v. 4. Lenka Ptacnikova 6½ v. 5. Bárður Örn Birkisson, Björn Hólm Birkisson, Hilmir Freyr Heimisson, Ingvar Wu Skarphéðinsson, Adam Omarsson, Benedikt Þórisson og Mikael Bjarki Heiðarsson 6 v.
Yngri skákmennirnir náðu margir góðri stigahækkun. Örvar Hólm Brynjarsson hækkaði mest allra eða um 82 stig og síðan kom Markús Orri Jóhannsson með hækkun upp á um 72 Elo-stig.
Sigurvegarinn Dagur Ragnarsson, sem fyrir mótið var annar í styrkleikaröðinni, tefldi af miklu öryggi og sigur hans var sanngjarn.
Hrósa ber Taflfélagi Reykjavíkur fyrir góða umgjörð mótsins en úrslit þess ættu hiklaust að hafa meiri þýðingu. Á ólympíuári hlýtur að teljast eðlilegt að Skákmeistari Reykjavíkur eigi þátttökurétt í keppni landsliðsflokks en svo er ekki að þessu sinni. Keppnin sú hefst í Mosfellsbæ eftir nokkrar vikur og stjórn SÍ hafði um áramótin síðustu þegar ráðstafað öllum 12 sætunum.
Jóhann Ingvason kom mikið við sögu á Íslandsmótinu í fyrra en undir lok þess móts vann hann Guðmund Kjartansson sem hefði ella orðið einn efstur. Og í lokaumferðinni var Jóhann aftur í hlutverki örlagavalds:
Skákþing Reykjavíkur 2024; 9. umferð:
Jóhann Ingvason – Gauti Páll Jónsson
Benony-vörn
1. d4 Rf6 2. c4 c5 3. d5 b5 4. cxb5 a6 5. bxa6 e6
Gauti Páll hafði áður beitt Benkö-gambítnum og unnið góðan sigur yfir Hilmi Frey í 3. umferð. En nú vill hann verða fyrri til og koma á óvart.
6. Rc3 exd5 7. Rxd5 Rxa6 8. e4 Be7 9. Bd3?!
Biskupinn stendur betur á c4 því svartur getur ekki hirt e4-peðið vegna 10. Dg4! o.s.frv. Hér átti svartur hiklaust að taka á d5 og leika síðan 10. … Rb4.
9. … 0-0 10. Re2 Bb7 11. 0-0 Rxd5 12. exd5 Bf6 13. Rc3 Rb4 14. Be4 Bd4?
Aftur missir Gauti Páll af góðu færi, 14. … He8! sem hótar 15. … Bxc3 er betra.
15. Be3 Df6 16. a3 Hfe8!?
Honum gast ekki að 16. … Ra6 17. Dg4! og svarta staðan er algerlega óteflandi.
17. axb4 Hxa1 18. Dxa1 cxb4
Hann gat unnið manninn aftur með því að leika 18. … Bxc3 en eftir 19. bxc3 Hxe4 kemur 20. Da7! og vinnur.
19. Bxd4 Dxd4 20. He1?
Mun einfaldara var 20. Da4! Hugmyndin er að svara 20. … bxc3 með 21. bxc3 Dc5 22. Bxh7+ en eftir 22. … Kf8 á svartur möguleika að verjast.
20. … f5? 21. Bf3 Ha8
22. Dd1!
Þannig heldur hvítur manninum og staða svarts er vonlaus. Jóhann gaf engin færi.
22. … Da7 23. Rb5 c5 24. Rd4 g6 25. d6 Be4 26. Bxe4 fxe4 27. Hxe4 Dd5 28. He1 Dxd6 29. Rf3 Dxd1 30. Hxd1 Hc8 31. g3 Hc2 32. Hd2 b3 33. Kf1 Hc1 34. Ke2 Hb1 35. Rd4 g5 36. Rxb3 Hh1 37. Rd4 Hxh2 38. b4 Hh6 39. b5 Kf7 40. Rf5 He6 41. Kf3 He5 42. Hxd7 Kf6 43. Rd4 He1 44. b6 Hb1 45. b7
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 11. febrúar 2024.