NM ungmenna lauk í dag í Finnlandi þegar tvær síðustu umferðirnar kláruðust. Ísland var í dauðfæri á að ná titli í tveimur flokkum en aðeins vantaði herslumuninn. Mikael Bjarki tók silfur í C-flokki og Aleksandr Domalchuk-Jonasson brons í A-flokki.
A-flokkur (u20)
FM Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2362) og Benedikt Briem (2149) tefldu í efsta flokki var Aleksandr stigahæstur keppenda. Benedikt var sjötti í stigaröðinni.
Aleksandr var í þriðja sæti fyrir lokaumferiðna og nægði líklegast jafntefli til að halda þriðja sætinu en varð að vinna og treysta á hjálp frá öðrum til að hoppa upp í annað sætið. Fór svo að Aleksandr vélaði andstæðing sinn niður, peði yfir í hróksendatafli. Sigurinn dugði þó ekki til að ná betra sæti þar sem Færeyingurinn Luitjen Apol vann sína skák.
Aleksandr endaði því í 3. sæti með 4 vinninga, á verðlaunapalli en tapaði um 6 elóstigum á mótinu. Benedikt Briem endaði með jafntefli í lokaumferðinni og lokaniðurstaðan 2 vinningar. Benedikt náði sér engan veginn á strik á mótinu og lækkar um 47 skákstig.
B-flokkur (u17)
Ingvar Wu Skarphéðinsson (2034) og Gunnar Erik Guðmundsson (1977) tefldu í B-flokki og voru númer 6 og 7 í styrkleikaröð.
Gunnar Erik fékk dauðafæri í lokaumferðinni á því að hrifsa Norðurlandameistaratitilinn. Úrslit í öðrum skákum urðu honum hagstæð, Ingvar Wu hjálpaði til með því að gera jafntefli í sinni skák. Ingvar bjargaði koltöpuðu endtafli og Gunnar var lengst af með mun betra tafl gegn Aku Salonen og svo vænlegt endatafl.
Eftir mistök Salonen í 16. leik fékk Gunnar sterkt frumkvæði í skákinni. Tölvurnar gáfu hvítum snemma mikið forskot, +3.8
21.Rd4 er tölvuleikurinn í stöðunni og hvítur hefur mjög vænlegt tafl. Menn svarts eru losaralegir, leppaðir og svartur þarf auk þess að fást við hótunina að setja riddara á f5 og í mörgum línum kemur Dg5 sterkur í kjölfarið.
Gunnar hélt samt betra tafli og vann peð og var peði yfir í endatafli. Gunnar gaf svo biskup sinn fyrir hættulegt frípeð svarts og endaði með þrjú samstæð peð gegn riddara.
Líklegast fóru sigurmöguleikarnir ca. hér. Gunnar lék 63.Hc8 en missti fljótlega blokkeringu á c-línunni en hefði líklegast átt að leika 63.Hf6! Rd7 64.Hg6 og það er ekki auðvelt að tefla svörtu vörnina. Kóngurinn er langt frá og kemst ekki auðveldlega að og hvítur á fína vinningsmöguleika. Þegar Finninn kom kóngnum í vörnina voru sigurmöguleikarnir ekki lengur fyrir hendi.
Svekkjandi niðurstaða fyrir Gunnar sem endaði með 4 vinninga og var hársbreidd frá titlinum en sökum verri oddastiga datt hann niður í 4. sætið í stigaútreikningum og komst ekki á pall. Gunnar má samt vel við una og hækkar um 32 stig á mótinu. Ingvar endaði með 3,5 vinning og hækkar um 25 skákstig.
C-flokkur (u15)
Matthías Björgvin Kjartansson (1735) og Mikael Bjarki Heiðarsson (1711) voru í 9. og 10. sæti í styrkleikaröðinni og kannski einhverjir sem hefðu ekki talið sigurmöguleika þeirra í flokknum mikla fyrirfram! M&M afsönnuðu það og voru í tveimur efstu sætunum fyrir lokaumferiðna, báðir áttu möguleika á titlinum!
Eins og í svo mörgum skákum í lokaumferðinni urðu miklar sveiflur í endatöflunum. Matthías hefði með jafntefli í sinni skák endað í efsta sæti á stigaútreikningi. Framan af hefur Matthías líklega viljað sigur en jafnteflið virtist alltaf í hendi, Matthías hafði þægilegra tafl með hvítt lengst af og í lítilli hættu. Þá kom afleikur…
Matthías lék 46.b4?? sem tapar skákinni. 46.Kf5 var nauðsynlegur. Með því að leika b4 þarf svartur ekki lengur að eyða tíma í að leika b-peði sínu í peðakapphlaupinu.
Sá finnski lék skákinni aftur niður í jafntefli með 50…Kd2?? í stað 50…c4 sem vinnur.
Úrslitaaugnablikið kom skömmu síðar.
62.Kf1?? var tapleikur, hvítur líklega misst af 62…Dxb3 63.axb3 a5! og svartur vann. Þess í stað hefði 62.Dxb2 Kxb2 63.a4 haldið jafnteflinu hjá hvítum.
Mikael Bjarki var efstu fyrir lokaumferðina og eiginlega grátlegt að við skildum ekki standa uppi sem sigurvegarar í þessum flokki með tvo efstu menn fyrir lokaumferðina og tækifæri í báðum skákum. Skákgyðjan var okkur ekki hliðholl að þessu sinni!
Mikael tefldi vörnina vel með svörtu í skákinni en hann var undir pressu lengst af í skákinni og tapaði peði í miðtaflinu. Hann vann það þó til baka en var enn í vörn. Pressa hvíts skilaði aftur peðsvinningi og framundan löng vörn í drottningarendatafli. Mikael sýndi fádæma keppnishörku í vörninni og varðist eins og klettur og skákin komin yfir 90 leiki.
Hér sá Mikael réttu hugmyndina, að leitast eftir pattgildru. Mikael lék 91…Df5+ og eftir 91…Kg8 þá 92.De6+!? hvítur þarf hinsvegar ekki að drepa og 92…Df7 var réttur og svartur er leiklaus. 91…Df3+ hefði hinsvegar verið ótrúleg björgun þar sem í sama varíant eftir 92.Kg8 Dd5+ 93.Df7 þá getum við leikið 93…De6!! og það er hvítur sem á leik og nú er skákin jafntefli!
Grátlegt enn og aftur en strákarnir geta borið höfuðið hátt. Mikael endar með 4 vinninga og í 2. sæti eftir stigaútreikning, hæsta sæti Íslendinga á mótinu. Mikael hækkar jafnframt um heil 99 elóstig. Matthías endar með 3,5 vinning í 5. sæti mótsins og hækkar um 87 elóstig.
D-flokkur (u13)
Í D-flokki var Josef Omarsson (1714) fjórði stigahæsti keppandinn en Sigurður Páll Guðnýjarson (1683) var númer sex.
Strákarnir í D-flokknum voru aðeins undir eigin getu á mótinu. Josef endaði með 3 vinninga í 8. sæti og tapaði 44 skákstigum. Sigurður Páll endaði með 2,5 vinning í 10. sæti og tapar 42 skákstigum.
E-flokkur (u11)
Í yngsta flokknum var Birkir Hallmundarson (1527) næst-stigahæstur keppenda en Tristan Fannar Jónsson (1216) sá tíundi í stigaröð.
Birkir eygði smá von á palli fyrir lokaumferð en þurfti þá að leggja stigahæsta keppanda mótsins. Birkir gerði það ekki en tefldi glimrandi vel í lokaumferðinni og stýrði skákinni sem endaði með jafntefli. Birkir endaði með 3,5 vinning í 4. sæti og lækkar um 14 elóstig. Tristan Fannar Jónsson endaði í 8. sæti með 3 vinninga og hækkar um 30 elóstig.
Heilt yfir ágætis árangur en með smá heppni hefðum við landað allavega einu gulli, ef ekki tveimur! Helgi Ólafsson sá um hópinn úti og á skilið gott sauna að móti loknu fyrir góð störf!
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results
- Beinar útsendingar (A–C, Lichess)
- Beinar útsendingar (D, Lichess)
- Beinar útsendingar (clono.no, E)