Úrslitaskákin Lenka Ptacnikova og Olga Prudnykova eigast við. — Ljósmynd/Ingvar Þ. Jóhannesson

Olga Prudnykova er Íslandsmeistari kvenna í skák eftir vel skipað mót sem fór fram samhliða og samtímis Íslandsmóti 65 ára og eldri í Siglingaklúbbnum Ými við Naustavör í Kópavogi. Olga, sem flutti til Íslands ásamt fjölskyldu sinni skömmu eftir innrás Rússa í Úkraínu, vann þetta mót einnig í fyrra. Eins og við var búist átti hún í harðri keppni við Lenku Ptacnikovu um sigurinn. Hún vann allar sjö skákir sínar án mikilla erfiðleika en lokaniðurstaða mótsins varð þessi: 1. Olga Prudnykova 7 v. (af 7). 2. Lenka Ptacnikova 5 v. 3. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir 4½ v. 4.-5. Iðunn Helgadóttir og Guðrún Fanney Briem 3½ v. 6. Elsa María Kristínardóttir 3 v. 7. Veronika Steinunn Magnúsdóttir 1 v. 8. Tinna Kristín Finnbogadóttir ½ v.

Með sigrinum öðlast Olga þátttökurétt í keppni landsliðsflokks á Skákþingi Íslands sem hefst í Mosfellsbæ hinn 16. apríl.

Eftir sigur hennar á Íslandsmótinu í fyrra fór af stað umræða á samfélagsmiðlum um það hvort ekki mætti gera kröfu um íslenskan ríkisborgararétt til að hampa Íslandsmeistaratitlinum í skák. Í flestum aðildarlöndum FIDE er látið nægja að viðkomandi hafi skipt um skáksamband. En í okkar skáksögu er til sambærilegt dæmi; árið 1983 varð Dan Hansson efstur á Skákþingi Íslands en SÍ hafði ákveðið að hann gæti ekki orðið Íslandsmeistari þar sem hann var enn ekki orðinn íslenskur ríkisborgari. Hann hafði þó búið hér í nokkur ár, átti hér fjölskyldu og tók virkan þátt í íslensku skáklífi og aðstæður hans ekki ósvipaðar og Olgu. Hefði hann verðskuldað sæmdarheitið skákmeistari Íslands 1983.

Það er svo fróðlegt að kynna sér reglur sem aðrir aðilar hafa sett sér, t.d. alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, sem varða rétt einstaklinga til að leika með landsliði fjarri upprunalandi.

Hvað viðvíkur úrslitum mótsins þá vekur góð frammistaða Iðunnar Helgadóttur og Guðrúnar Fanneyjar Briem athygli, en þær hafa bætt sig mikið undanfarið og munu fljótlega banka á landsliðsdyrnar. En lítum á úrslitaviðureign mótsins:

Skákþing Íslands 2024, kvennaflokkur, 5. umferð:

Lenka Ptacnikova – Olga Prudnykova

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rc3 a6 3. g3 b5 4. Bg2 Bb7 5. d3 e6 6. Rh3 b4 7. Re2 d5 8. 0-0 Rf6 9. f4

„Vélarnar“ telja þennan leik ónákvæman og mæla með 9. e5 Rfd7 10. c4! Eftir 10. … Rxe5 11. Rhf4 hefur hvítur gott spil fyrir peðið.

10. … dxe4 10. Rg5 Rbd7 11. Rxe4 Dc7 12. f5 e5 13. Rxf6+?

Leggur í uppskipti á forsendum svarts sem væru góð ef hvítur riddari kæmist til e4. Vandinn er sá að riddarinn á e2 engan góðan reit.

13. … Rxf6 14. Bxb7 Dxb7 15. Bg5 Be7 16. h3 0-0 17. b3 Had8 18. Dc1 Hfe8 19. a3 bxa3 20. Rc3 e4

Það blasir við að svartur á mun betra tafl eftir þessa atlögu á miðborðinu.

21. Dxa3 exd3 22. Dxa6 Dd7 23. Dxd3 Dxd3 24. cxd3 Hxd3 25. Re4 Rxe4 26. Bxe7 Hxg3+ 27. Kh2 Hxb3

Með tvö peð yfir er eftirleikurinn auðveldur. En Lenka berst vel.

28. Hfe1 Rd2 29. Kg2 Rf3 30. Hec1 h5 31. Ha7 He3 32. f6 Rh4 33. Kh2 gxf6 34. Bxf6 He2+ 35. Kg3 Rg6 36. Ha3 H8e6 37. Hf3 H6e4!

Hótar 48. … h4+ og það er engin vörn, t.d. 48. h4 Hg4+ 49. Kh3 Rf4+ o.s.frv.

38. Hxc5 h4+ 39. Bxh4 Rxh4 40. Hg5+ Kf8 41. Hxf7+ Kxf7 42. Hg7+

 

 

 

42. … Kf6 43. Hf7+ Kg5 44. Hg7+ Rg6

– og hvítur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 17. febrúar 2024.

 

 

 

 

 

- Auglýsing -