Á Norðurlandamóti ungmenna 20 ára og yngri sem haldið er ár hvert í einu hinna sex Norðurlanda var röðin komin að Finnum að standa fyrir mótshaldinu og að þessu sinni völdu þeir gamalt menntasetur sem stendur í grennd við bæinn Valkeakoski. Skákstaðurinn sjálfur var lágreistur bústaður nefndur eftir þjóðhetju Finna, barón Carl Gustaf Emil Mannerheim.
Norðurlandamót ungmenna hafa um langt skeið farið fram í fimm aldursflokkum og í elsta flokknum áttum við stigahæsta keppandann, Alexander Domalchuk Jónasson. Hann var ásamt Benedikt Briem talinn líklegur til afreka og einnig hinn ungi Birkir Hallmundarson sem tefldi í yngsta aldursflokknum. En það fór á annan veg; Domalchuk stóð þó fyrir sínu og fékk bronsverðlaun en Benedikt sem veiktist í ferðinni náði sér ekki á strik. Birkir Hallmundarson gleymdi sér í jafnri stöðu fyrstu umferðar og féll á tíma. Eftir það var á brattann að sækja en að lokum hafnaði hann í 4. sæti af 12 keppendum.
Þeir sem héldu uppi merki Íslands tefldu í flokkum C og D. Þegar langt var liðið á lokaumferðina var allt útlit fyrir íslenskan sigur í báðum þessum flokkum. Mikael Bjarka Heiðarssyni og Matthíasi Björgvin Kjartansson var fyrir mótið raðað í níunda og tíunda sæti styrkleikalistans en þurftu aðeins ½ vinning samanlagt í síðustu umferð til að tryggja íslenskan sigur. Gunnar Erik Guðmundsson varð að vinna skák sína til að verða einn efstur og honum tókst að byggja upp vinningsstöðu. Kannski var það blanda af þreytu og reynsluleysi sem olli því að allir þrír misstu tökin. Mikael Bjarki var vissulega að glíma við erfiða stöðu en Matthías átti tiltölulega einfalt jafntefli. En þeir töpuðu báðir, sem þýddi að Mikael Bjarki varð í efsta sæti ásamt þremur öðrum en varð að láta sér nægja silfurverðlaun eftir stigaútreikning. Gunnar Erik missti sína skák niður í jafntefli, hlaut 4 vinninga og hafnaði í 2. – 5. sæti en í því fjórða á stigum.
Mikael Bjarki stórbætti árangur sinn frá því í fyrra. Hann mætti vel undirbúinn til leiks, sbr. eftirfarandi skák í 5. umferð:
NM ungmenna 2024; 5. umferð:
Mikael Bjarki Heiðarsson – David Simonsen
Grünfelds vörn
1. d4 Rf6 2. c4 g6 3. Rc3 d5 4. Rf3 Bg7 5. Bg5Re4 6. cxd5 Rxg5 7. Rxg5 e6 8. Dd2 exd5 9. De3+ Kf8 10. Df4
Allt saman vel þekkt.
10. … Bf6 11. h4 h6 12. Rf3 Be6 13. e3 Kg7 14. Bd3 a6
Tímasóun. Mun betra var 14. … c5.
15. O-O-O c5 16. g4 h5 17. g5 Be7 18. dxc5 Rc6
Svartur hefur ekki teflt byrjunina vel og hvítur gat náð yfirburðastöðu með 19. Be4 eða 19. Bc4.
19. Bc2? Bxc5 20. Dg3 Da5 21. Rd4 Bxd4 22. exd4 Hac8 23. Df4 Rb4 24. Df6+ Kg8 25. a3
25. … Hxc3?!
Freistandi en „vélarnar“ gefa upp nokkuð langsótta vinningsleið, 25. … Rxc2 26. Kxc2 Da4+! 27. Kd3 Bf5+ 27. Ke3 Db3! o.s.frv.
26. bxc3 Dxa3+ 27. Kd2 Rxc2 28. Kxc2 Bf5+ 29. Kd2 Db2+ 30. Ke3 Dxc3+ 31. Kf4
Það er oftast varasamt að leika kónginum fram á borðið í miðtaflinu en svartur á enga leið til að notfæra sér stöðu hans.
31. … Dc7+ 32. De5 Dxe5+?
Hann mátti alls ekki fara í kaupin og nú er eftirleikurinn auðveldur.
33. Kxe5 Be4 34. Hhf1 Bf3 35. Hb1 Kg7 36. Hxb7 He8+ 37. Kf4 Bg2 38. Hg1 Bh3 39. f3 Kf8 40. Ha7 He7 41. Hxe7 Kxe7 42. Ha1 Bc8 43. Ke5 Bb7 44. Hb1
– og svartur gafst upp.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 24. febrúar 2024.