Íslandsmóti skákfélaga 2023 – 2024 er lokið og nýtt nafn verður sett á 3. ára Úrvalsdeildarbikarinn. Skákdeild Fjölnis leiddi Úrvalsdeildina eftir fyrri hluta mótsins með þriggja stiga forystu, forskoti sem hæglega var hægt að missa í þeim síðari. Fjölnismenn tóku því enga áhættu þegar tækifærið á Íslandsmeistaratitli  virtist í sjónmáli og „hertu því frekar tökin“. Þetta kom strax kom í ljós þegar 6. umferð var tefld og öflug skáksveit KR-inga var kjöldregin og aðeins hálfur vinningur gefinn. Í framhaldinu unnu Fjölnismenn allar viðureignirnar fjórar og 100% vinningshlutfall reyndist staðreynd, afrek sem ekkert sjálfsagt  verður hægt að endurtaka á þessum grunni. En stutt getur reynst á milli feigs og ófeigs því á sama tíma í fyrra var Fjölnir við það að falla úr Úrvalsdeild og munaði þar hálfum vinning.

Íslandsmeistarasveitin er að mínu mati og ábyggilega flestra öfundsverð eins og hún leit út nú í síðari hlutanum. Litháísku landsliðsmennirnir og vinirnir Paulius, Valery og Titas eru grjótharðir og afar virkir ungir skákmenn sem aðeins Vignir Vatnar og Hilmir Freyr jafnast á við hvað virkni og aldur varðar. Íslandsvinurinn Kaido sem margoft hefur leitt skáksveitir Eistlands stendur þeim lítt að baki. Að hafa stórmeistarann Héðin Steingrímsson í landsliðsformi á 5. borði, einbeittan og baráttuglaðan frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu er eitthvað sem aðeins landsliðsnefndin íslenska lætur fram hjá sér fara, Frammistaða Héðins skipti sköpum í umferðunum þegar sigur stóð tæpt. Þeir Dagur og Tómas Björnsson eru þéttir og unnu mikilvægar skákir. Kóngur sveitarinnar var svo Sigurbjörn J. Björnsson sem skilaði 90% vinningshlutfalli með baráttuna, stundum heppnina en ætíð besta liðsandann að vopni. Íslandsmeistarasveitin var mætt til leiks að alvöru þessum átta hetjum þurfti aldrei að skipta út af. Titillinn kærkominn, held ég býsna verðskuldaður þegar há skákstig og samstæður hópur fer saman. Afmælisgjöfin okkar á 20 ára afmælisári.

Íslandsmeistarasveitin að tafli með öfluga Litháa á efstu borðum.

B sveit Fjölnis var einnig með forystu í sinni deild líkt og A sveitin eftir fyrri hlutann. Liðsstjóri hafi áhyggjur í byrjun síðari hlutans þar sem mörg skörð voru höggvin í hópinn frá fyrri umferð. Leita þurfti alllangt niður keppnisskrána til að fylla 6 borðið. Þar stilltum við hinni 11 ára Emilía Emblu sem var til í verkefnið og stóð fyrir sínu og rúmlega það. Eftir risastórt tap í 5. umferð leit þetta ekki vel út en með öruggum sigrum í tveimur síðustu umferðunum flaug Fjölnir B upp um deild. Kærkominn áfangi og stefnan sett í framhaldinu á næstu deild fyrir ofan. Oliver Aron, Dagur Andri og Liss unnu allar sínar skákir í B sveitinni, ekki sjálfgefið en öruggt. 

Hin sterka b-sveit Fjölnis að tafli

C sveitin var að venju blanda yngri og eldri. Stelpurnar í sjoppunni vildu líka tefla og fengu það flestar í C sveit á milli þess sem þær afgreiddu kaffiþyrsta skákmenn í tugatali. Skemmtilegir krakkar þarna á ferðinni sem fylgja kjörorði okkar „Skák er skemmtileg“.

Fjölnismenn hafa verið framarlega í barnastarfi og sérstaklega stúlknamegin!

Skákdeild Fjölnis hefur frá árinu 2007 hýst flest Íslandmót skákfélaga í gengum árin. Þetta kallar alltaf á góðan undirbúning , reynslu og vaskan hóp foreldra og krakka sem hafa séð um veitingasölu, uppröðun og frágang af áhuga og reynslu fyrri ára. Allt virtist þetta ganga vel. Rimaskóli eða Egilshöll standa alltaf til boða og áfram. 

Skákdeild Fjölnis þakkar öllum skákfélögunum og stjórn Skáksambands Íslands fyrir ánægjulegt samstarf, góð viðskipti og góða umgengni á allan hátt. 

Með skákkveðju.  Helgi Árnason

 

- Auglýsing -