Fullt hús Markús Orri við taflið. — Ljósmynd/Áskell Örn Kárason

Yngsti skákmeistari Akureyrar fyrr og síðar, Markús Orri Óskarsson, var 14 ára gamall þegar síðustu skák hans á skákþingi Akureyrar lauk þann 8. febrúar sl. Þá hafði hann unnið allar skákir sínar, sjö talsins, og sigurinn því enn glæsilegri fyrir vikið.

Jóhann Snorrason varð Akureyrarmeistari fyrstur manna árið 1938 og mótið hefur aldrei fallið niður. Þetta var 87. mótið. Efstu fimm af 12 keppendum sem tefldu sjö umferðir eftir svissneska kerfinu urðu þessir: 1. Markús Orri Óskarsson 7 v. (af 7) 2. Stefán G. Jónsson 5 v. 3. Eymundur Eymundsson 4 ½ v. 4. – 5. Stefán Arnalds og Sigurður Eiríksson 4 v. Teflt var með tímamörkunum 90 30.

Hinn ungi Akureyrarmeistari hefur áður sýnt mikinn viljastyrk, t.d. þegar hið sameinaða Meistaramót Skákskóla Íslands og Unglingameistaramót Íslands fór fram í desember sl. Flug lá niðri og mótið u.þ.b. að hefjast en Markús fékk far með stórum flutningabíl yfir heiðina um hánótt og náði að mæta til leiks.

Samsetning Akureyrarmótsins bar þess merki að nýir menn eru að hasla sér völl nyrðra. Kunna meistara á borð við Áskel Örn Kárason og Rúnar Sigurpálsson vantaði í hóp þátttakenda en Sigurður Eiríksson var hinsvegar með og tefldi skemmtilega skák við sigurvegarann:

Skákþing Akureyrar 2024; 5. umferð:

Markús Orri Óskarsson – Sigurður Eiríksson

Kóngsindversk vörn

1. c4 Rf6 2. d4 g6 3. Rc3 Bg7 4. e4 d6 5. Rf3 O-O 6. Be2 e5 7. O-O Rc6 8. d5 Re7 9. b4 Re8

9. … Rh5 var löngum talinn besti leikur svarts en eftir 110. He1 Rf4 11. Bf1 er hvíta staðan traust.

10. Re1 f5 11. f3 f4 12. Rd3 g5 13. c5 Hf7 14. Ba3 Rg6 15. Hc1 Bf8 16. Rb1 h5 17. Hc3 Hg7 18. Kh1 Rf6 19. Dc2

Gallinn við uppbyggingu hvíts er sá að það er eins og hann sé að blanda saman fjölmörgum leiðum sem bjóðast gegn klassíska „kóngsindverjanum“ og svartur hefur fengið tiltölulega frítt spil á kóngsvængnum þar sem varnir mættu vera betur skipulagðar.

19. … g4 20. Hc1

– Sjá stöðumynd 1 –

20. … Re8?!

Það var óþarfi að draga riddarann til baka. Eftir 20. … gxf3 21. Bxf3 Rg4 er svarta staðan unnin að mati „vélanna“. Þá yrði 21. gxf3 svarað með 21. … Rh4 o.s.frv.

21. b5 Dh4 22. Rd2 g3 23. Rf1 gxh2 24. cxd6 Dg5 25. Rxh2 Rh4?

Önnur ónákvæmni. Hann gat rólegur leikið 25. … cxd6 þar sem 26. Hxc8 er svarað með 26. … Re7! sem hótar máti og hróknum á c8.

26. Hg1?

Betra var 26. Bf1.

26. … Bh3 27. Bf1 cxd6 28. Df2 Bd7 29. Rb4 Be7! 30. b6

Hann varð að leika þessu því að svartur hótaði 30. … Bd8. Og sá leikur vinnur samt, 30. … Bd8! 31. Bxa7 Dg3! og hvítur má ekki fara í kaupin því þá fellur riddarinn á h2.

30. … a6?

 

 

 

31. Rxa6! bxa6?

Sigurður var naumur á tíma og missir af besta leiknum, 30. … Dg3!

32. b7 Hd8 33. Da7! Bh3 34. gxh3

– og svartur gafst upp.

Úrslit Íslandsmóts skákfélaga ráðast um helgina

Stærsta flokkakeppnin í skákinni hér á landi, Íslandsmót skákfélaga, hófst á fimmtudagskvöld með keppni í Kviku-deildinni þar sem eiga sæti sex lið sem tefla munu tvöfalda umferð. Skákdeild Fjölnis hélt sigurgöngu sinni áfram, vann skákdeild KR stórt og hefur hlotið 12 stig af 12 mögulegum. Einungis TR-ingar, sem hafa 9 stig, eiga einhverja möguleika á að ná Fjölni en liðin mættust í gærkvöldi.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 2. mars 2024.

 

 

 

 

 

- Auglýsing -