slandsmeistarar 2024, skáksveit Fjölnis Neðri röð f.v.: Sigurbjörn Björnsson, Helgi Árnason liðsstjóri og Valery Kazakouski. Miðröð f.v.: Dagur Ragnarsson, Tómas Björnsson og Héðinn Steingrímsson, Efri röð f.v. Paulius Pultivicius, Tomas Laurusas, Kaido Kulaots og Oliver Aron Jóhannesson. — Ljósmynd/Benedikt Berndsen

Skákdeild Fjölnis úr Grafarvogi er Íslandsmeistari skákfélaga í fyrsta sinn eftir lokaþátt keppninnar sem hófst í Rimaskóla sl. haust. Fjölnir hafði mikla yfirburði í Kvikudeildinni þ.e.a.s. efstu deild en liðsstjórinn Helgi Árnason fékk til sín þrjá landsliðsmenn Litháa og einn Eistlending. Þá var Héðinn Steingrímsson aftur kominn til Fjölnis og tefldi á 5. borði sem sýnir auðvitað vel hversu sterk þessi sveit var og vart hægt að segja að raunveruleg keppni um Íslandsmeistaratitilinn hafi átt sér stað. Fjölnir var eina liðið sem lagði áherslu á að fá til sín öfluga erlenda stórmeistara en fleira kom til, gott utanumhald liðsstjórans sem líka tefldi fram tveimur gömlum nemendum úr Rimaskóla, Degi Ragnarssyni og Oliver Aroni Jóhannessyni. Fyrirkomulag efstu deildar var með þeim hætti að sex lið tefldu tvöfalda umferð á tveimur helgum sem þýddi að tefldar voru fimm umferðir frá fimmtudagskvöldi til sunnudagsmorguns. Fjölnir hlaut 20 stig af 20 mögulegum og hlaut 55½ vinning af 80 mögulegum. Taflfélag Reykjavíkur varð í 2. sæti með 12 stig og betri vinningatölu en Víkingasveitin sem einnig fékk 12 stig. Taflfélag Vestmanneyja tekur sæti í 1. deild að ári en sigurvegari 1. deildar flyst upp í efstu deild. Skákdeild Breiðabliks átti í harðri keppni við Skákfélag Akureyrar um hið eftirsótta sæti og hafði betur. Í 2. deild sigraði Skákdeild KR, b-sveit, í 3. deild varð b-sveit Fjölnis hlutskörpust og í 4. deild hafði Dímon mikla yfirburði og sigraði örugglega.

Öll úrslit má finna á slóðinni: https://skak.is/islandsmot-skakfelaga/

Þú leikur alltaf vitlausa hróknum

Á Íslandsmótinu sátu fleiri hundruð manns að tafli. Skákir í efstu deild voru allar í beinni útsendingu en það sáust frábærir taktar í öllum deildum. Lítum á tvö skemmtileg dæmi úr baráttunni:

Íslandsmót skákfélaga 2024, 7. umferð:

Sjá stöðumynd 1

Guðmundur Kjartansson – Paulius Pultinevicius

Millifyrirsögnin vísar á gamlan frasa sem á stundum við og stundum ekki. Í þessari stöðu er alveg lykilatriði að stilla hrókunum rétt upp. Svartur er hrók og manni yfir en þarf að stöðva frípeð hvíts með því að leika hrók til d8. En hvorum? Svartur valdi 47. … Had8 og Guðmundur svaraði um hæl með 48. Hf1!

Reyni svartur nú 48. .. . Hfe8 kemur 49. dxe8(D)+ Hxe8 50. Hd1 og vinnur. . Svartur reyndi 48. … Hxd7 en eftir 49. Hxf8 Kxf8 50. c8(D)+ vann Guðmundur í nokkrum leikjum.

Ægir Páll Friðbertsson hratt af stað mikilli hjarðhegðan á hlutabréfamarkaði í síðustu viku þegar kynntur var viðsnúningur í rekstri Iceland Seafood sem hann hafði nýlega tekið við sem forstjóri. Hann lenti hins vegar í basli í skák sinni fyrir Eyjamenn í viðureigninni við Víkingaklúbbinn:

Íslandsmót skákfélaga, 9. umferð:

Stefán Sigurjónsson – Ægir Páll Friðbertsson

Hvítur lék síðast 25. He1xe6. Öll spjót virðast standa á stöðu svarts en Ægir Páll lék þá 25. … Db6! Vegna máts í borðinu má ekki taka drottninguna. Stefán fann ekkert betra en 26. Rd6+ sem svartur svaraði með 26. … Dxd6? Eftir 26. … Kd7! er hvítur varnarlaus. Leikurinn gaf kost á 27. Bxd6 Hxf6 27. Hxe8+ Kd7 og brátt kom upp jafnteflisleg staða og keppendur sömdu upp skiptan hlut eftir 40 leiki.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 9. mars 2024.

- Auglýsing -