Helgi Ólafsson að tafli í á Mön. Mynd: John Saunders/heimasíða mótsins.

Reykjavíkurskákmótið á demantsafmæli í ár. Mótið er sextugt og stendur styrkum fótum. Allt frá fyrstu útgáfu þess í Lídó í ársbyrjun 1964, þar sem Mikhail Tal heillaði áhorfendur með glæsilegri taflmennsku, hefur mótið átt fastan sess í þjóðlífinu. Tal leyfði þar aðeins eitt jafntefli við Guðmund Pálmason sem átti unnið tafl um tíma.

Greinarhöfundur tók saman tvær bækur um 50 ára sögu Reykjavíkurskákmótanna. Heimildir um þessi mót mega ekki glatast því að „allt“ týnist á internetinu. Upphafsmaður Reykjavíkurskákmótanna, Jóhann Þórir Jónsson, þá kornungur formaður TR, hafði ekki að bakhjarli digrar bankainnistæður en óbilandi kjark og bjartsýni. Reykjavíkurskákmótið var „opnað“ árið 1982 og hefur haldist þannig nær óslitið síðan. Það verður þröngt setinn bekkurinn í Hörpu næstu daga með yfir 400 keppendur.

Guðmundur Pálmason – Tal

Hér hafði Tal teygt sig of langt en virðingin fyrir Tal varð til þess að Guðmundur valdi 32. e4 og eftir 32. … Dxd4 kom upp hróksendatafl sem endaði með jafntefli. En hvítur á vinning, 32. g4! Ekki dugar 32. … Hxd4 og eftir 32. … Hd3 kemur einfaldlega 33. g5! sem hótar 34. Hxe5 og 32. … h6 er svarað með 33. Db4! Rd7 34. Re6+! og vinnur.

 

Szabo – Guðmundur Sigurjónsson

Guðmundur vann Reykjavíkurskákmótið 1970 en tveimur árum fyrr fengu menn að kynnast hæfni hans í viðureign við einn frægasta skákmann Ungverja. Svartur lék hér 21. … c5! og framhaldið varð 22. Rxc5 Hxc5! 23. bxc5 Rf3+! 24. Bxf3 Bxf3 25. Re2 Re4! og svartur vann eftir 40 leiki.

Friðrik Ólafsson varð efstur á mótunum 1966, 1972 og 1976. Efsta sætið ’72 ásamt Hort og Gheorghiu var harðsótt en hann vann sex síðustu skákir sínar:

Tukmakov – Friðrik Ólafsson

31. … Bxf2!!?

Þennan biskup gat Tukmakov tekið en vildi halda stöðunni sem mest óbreyttri. Fleiri ævintýri fylgdu í tímahrakinu en að lokum kom Friðrik lagi á hinn öfluga andstæðing sinn og vann í 42 leikjum.

Árið 1984 komu fram nýir íslenskir sigurvegarar mótanna. Jóhann Hjartarson var í banastuði langt fram eftir móti ’84 en greinarhöfundur og Reshevsky náðu honum að lokum:

Hans Ree – Jóhann Hjartarson

23. … Rd4! 24. Ke1 Rxf3+ 25. Kf1 Da4! 26. Hd6 f5! – og hvítur gafst upp.

Árið 1990 voru greinarhöfundur og Jón L. Árnason í hópi sigurvegara. Einn óvæntasti leikur Reykjavíkurskákmótanna sá þar dagsins ljós:

 

 

Helgi Ólafsson – Levitt

17. Hxe6! fxe6 18. Rg5! – með hugmyndinni 18. … Bxg2 19. Dxe6+! og mátar. Hvítur vann eftir 28 leiki.

Jón L. Árnason varð einn efstur á Reykjavíkurskákmótinu 1988. Tveimur árum síðar fékk hann þessa stöðu upp:

 

 

Jón L. Árnason – Alexei Dreev

19. Bxh7+! Kxh7 20. Dh5+ Kg8 21. Bf6! gxf6 22. Dg4+ Kh7 23. exf6 Kh6 24. f4! – og Dreev gafst upp.

Hannes Hlífar Stefánsson hefur oftast unnið Reykjavíkurskákmótið, fimm sinnum. Árið 2000 var hann einn efstur. Hann lagði þá þennan fræga mann:

 

Viktor Kortsnoj – Hannes Hlífar Stefánsson

Biskupinn á h3 er ekki árennilegur en Hannes hafði séð mótleikinn fyrir:

33. … Dd4+! 34. Dxd4 Rxd4 35. Rxc3!? (svartur hótar 35. … Re2+) 35. … bxc3 36. Kf2 Rc5! 37. Ke3 c2! – og svartur vann eftir 46 leiki.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 16. mars 2024.

- Auglýsing -