Skriðþungi á lokaspretti Bogdan Daniel-Deac vann verðskuldaðan sigur á Reykjavíkurskákmótinu. — Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Rúmeninn Bogdan-Daniel Deac sigraði á 38. Reykjavíkurskákmótinu sem lauk í Hörpu á fimmtudaginn en hann náði að vinna Alisher Suleymenov frá Kasakstan í lokaumferð mótsins í 118 leikjum og hlaut þar með 7½ vinning. Á eftir fylgdu sjö skákmenn með 7 vinninga, þ. á m. Guðmundur Kjartansson og Héðinn Steingrímsson. Helstu niðurstöður má finna á heimasíðu mótsins, Reykjavikopen.com.

Rúmeninn getur þakkað sigurinn góðri leiktækni í jafnteflislegum stöðum en honum tókst að kreista fram sigur í löngum endatöflum gegn Héðni Steingrímssyni og Hannesi Hlífari Stefánssyni. Góð frammistaða Guðmundar Kjartanssonar og Héðins Steingrímssonar stendur upp úr í mótslok. Þeir hlutu báðir 7 vinninga af níu mögulegum og urðu í 2.-8. sæti.

Jósef Omarsson hækkaði um 95 elo-stig, mest íslensku keppendanna. Þar á eftir komu Anton Vignir Guðjónsson með 85 stiga hækkun, þá Katrín María Jónsdóttir með 65 stiga hækkun og Sigurbjörn Hermannsson með 57 stiga hækkun.

Mótshaldið fór vel fram. Tæknilegar lausnir voru góðar. Minna bar á snörpum hljómkviðum sem stundum berast frá nálægum sölum í Hörpu. Helstu styrktaraðilar Reykjavíkurskákmótsins voru Kvika eignastýring og Brim.

Guðmundur Kjartansson hafði fyrir lokaumferðina komist í hóp sex efstu manna en varð að lúta því að tefla tvær síðustu skákirnar með svart. Hann vann þó lykilskák gegn indverska stórmeistaranum Adhiban í næstsíðustu umferð. Í þessari skemmtilegu viðureign sem hér fer á eftir virtist Adhiban undirbúa stórhættulega mannsfórn í Berlínarvörn spænska leiksins. En hann fylgdi fórninni ekki nægilega vel eftir og Guðmundur náði að koma skipulagi á varnir sínar:

Reykjavíkurskákmótið 2024; 8. umferð:

Baskaran Adhiban – Guðmundur Kjartansson

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 Rf6 4. O-O Rxe4 5. d4 Rd6 6. Bxc6 dxc6 7. dxe5 Rf5 8. Dxd8 Kxd8 9. Hd1+ Ke8 10. Rc3 Re7 11. a4 a5 12. Rd4 Rf5 13. Rdb5!

Vandi svarts er sá að þessi riddarafórn stenst fullkomlega.

13. …cxb5 14. Rxb5 Ke7 15. Rxc7 Hb8 16. g4 Rh6

 

 

 

– Sjá stöðumynd 2 –

17. Rd5+?

Stóri afleikurinn. Best er 17. h3! og svartur getur sig hvergi hrært þó hann sé manni yfir. „Vélarnar“ telja að svartur verði að fórna manni til baka en að eftir 17. … Rxg4 18. Rd5+ Kd7 19. e6+! fxe6 20. Rf6+ eigi svartur í miklum erfiðleikum.

17. … Kd7! 18. Bg5?! Kc6 19. h3 Be6 20. Re7+ Bxe7 21. Bxe7 Hhe8 22. Bg5 b5?!

Hann vill fá mótspil strax en betra var þó 22. … Rg8.

23. b3 bxa4 24. Hd6+ Kc7 25. Hxa4 f6 26. Bxh6

Það er spurning hvort Adhiban hafi verið að tefla til vinnings. 26. Hxa5 gæti leitt til jafnteflis því að hvítur á þráskák eftir 26. … fxg5.

26. … gxh6 27. Hxa5 fxe5 28. Hda6 Bf7 29. Hc5+ Kd7 30. Hxh6 Bg6 31. h4 Hbc8 32. Hxc8 Hxc8 33. c4 Hb8 34. h5 Bc2 35. c5?!

Hér var greinilega betra að leika 35. f3 og – Kf2, en það er samt ekki auðvelt að verja hvítu stöðuna.

35. … Hxb3 36. g5 Be4 37. Kh2 Hf3 38. c6+ Kc7 39. He6 Hxf2+ 40. Kg3 Hg2+ 41. Kh4 Bf5 42. Hxe5

Nái hvítur h-peðinu gæti komið upp staða þar sem hvítur á að halda jafntefli með kóng og hrók gegn kóng, hróki og biskup. Þetta vissi Guðmundur auðvitað og lét h-peðið ekki af hendi.

42. … Hg4+! 43. Kh3 Hxg5+ 44. Kh4 Hg4+ 45. Kh3 Bc8! 46. Kh2 Kxc6

– og Adhiban gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 23. mars 2024.

- Auglýsing -